Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 21. 2014 | 11:00

Hver er kylfingurinn: Michelle Wie? (1/5)

Michelle Wie sigraði í gær í 3. sinn á sterkustu kvenmótaröð heims, LPGA, á LPGA Lotte Championship mótinu, sem fram fór á golfvelli Ko Olina golfklúbbsins í Kapolei, Oahu á Hawaii.

Skor Michelle var  14 undir pari, 274 högg (70 67 70 67). Hver er kylfingurinn með suður-kóreönsku ræturnar frá Hawaii, Michelle Wie? Því verður reynt að svara í 5 greinum, sem birtast á næstu dögum, en hér fer 1. hlutinn:

Michelle Wie

Michelle Wie

Michelle Sung Wie (Kóreanska: Wie Seong-mi; Hangul: 위성미 Hanja: 魏聖美) fæddist í Honolulu á Hawaii, 11. október 1989 og er því 24 ára.

Hún var aðeins 10 ára þegar hún varð yngsti kylfingurinn til þess að spila í  USGA amateur championship. Wie er líka enn yngsti sigurvegari frá upphafi í U.S. Women’s Amateur Public Links og sú yngsta til þess að spila í LPGA Tour móti.  Wie gerðist atvinnumaður stuttu fyrir 16 ára afmælisdaginn árið 2005 og hlaut það mikla umfjöllun golfmiðla og auglýsingasamningunum hreinlega rigndi yfir fallega, hávaxna bandaríska unglinginn með asíska yfirbragðið.

Wie er einkabarn foreldra sinna, sem eru suður-kóreanskir innflytjendur, sem komu til Bandaríkjanna kringum 1980. Pabbi hennar Byung-wook Wie,er fyrrum prófessor í samgöngustjórn (ens. transportation management).  Mamma Michelle, Bo, var meistari áhugamanna í golfi í Kóreu,  árið 1985 og tók m.a. þátt í Miss Kóreu fegurðarsamkeppninni.  Afi Wie, föður meginn er Dr. Sang-Kyu Wie, sem býr í Jangheung, Jeollanam-do,og var emeritus prófessor við Seoul National University. Wie fæddist með tvöfalt ríkisfang þ.e. suður-kóreanskt  (skv. jus sanguinis) og bandarískt (skv. jus soli). Wie afþakkaði suður-kóreanskt ríkisfang í febrúar 2013.

Michelle Wie útskrifaðist frá  Punahou School í Honolulu í júní 2007. Þann 19. desember 2006 tilkynnti hún að hún myndi fara í Stanford háskóla, vegna fjölskyldutengsla þar en afi hennar föður meginn var gistiprófessor þar og frænka hennar og frændi hafa bæði útskrifast úr skólanum.  Ekki skipti minna máli í huga Michelle að átrúnaðargoð hennar, Tiger Woods, var fyrrum nemandi skólans.  Wie varð síðan fyrstibekkingur í Stanford 2007, þá þegar orðin atvinnukylfingur. Þ.a.l. mátti hún ekki spila með kvennagolfliði Stanford í háskólagolfinu (skv. reglum NCAA).  Wie var aðeins í skólanum frá því seint í september til mars á hverju ári og fékk leyfi og frí til þess að spila í atvinnumannamótum.

Wie lauk við nám sitt í Stanford í mars 2012 með gráðu í samskiptum (ens. communications).  Hún tók þátt í útskriftarhátíð Stanford í júní 2012.

Heimild: Wikipedia