Ragnheiður Jónsdóttir | október. 19. 2011 | 07:00

Hver er kylfingurinn: Na Yeon Choi?

Na Yeon Choi sigraði á Sime Darby LPGA mótinu í Malasíu nú um helgina.  Hver er þessi 5-faldi sigurvegari á LPGA?

Na Yeon Choi (á kóreönsku: 최나연) fæddist 28. október 1987 í Seúl í Suður-Kóreu og er því 23 ára.  Hún byrjaði að spila golf 10 ára og vann strax 1. mótið sitt árið eftir að hún byrjaði og lét fljótlega að sér kveða sem áhugamaður.  Þegar hún var 17 ár vann hún ADT CaPS Invitational á kóreanska LPGA, vann frægðarhallarkylfinginn Se Ri Pak með 4 höggum. Na Yeon gerðist atvinnumaður skömmu þar á eftir í nóvember 2004. Alls hefir hún sigrað 10 sinnum sem atvinnukylfingur.  T.a.m. vann hún mót á hverju ári á KLPGA á árunum 2004-2007.

Atvinnumennskan

Árið 2007 spilaði Na Yeon á Hana Bank-KOLON Championship, sem var mót bæði á LPGA og KLPGA og varð 8. sæti. Hún tók þátt í Q-school LPGA, en var 2 höggum frá því að fá fullan þátttökurétt á LPGA.  Na Yeon fékk ekki sjálfkrafa þátttökurétt á mótum LPGA þetta árið hins vegar varð stöðugt spil hennar og góður árangur hennar til þess að hún var í nánast öllum mótum LPGA. Hún vann sér inn $1 milljón og varð í 11. sæti á peningalista LPGA með 9 topp-10 áröngrum í þeim 27 mótum, sem hún tók þátt í. Hún var í 2. sæti um titilinn nýliði ársins, á eftir sigurvegaranum Yani Tseng.

Árið 2009 sigraði Na Yeon tvisvar á LPGA. Í október vann hún 20 leikmanna mótið Samsung World Championship og 2 vikum síðar Hana Bank KOLON Championship, þar sem hún sigraði 2 aðra kylfinga (Yani Tseng og Maríu Hjorth) á 2. holu í umspili.

Árið 2010 var Na Yeon bæði efst á peningalista LPGA og sá kylfingur sem hlaut Vare Trophy fyrir lægsta meðaltalsskor. Árið 2010 bætti Na Yeon við 2 sigrum á LPGA: 4. júlí  í Jamie Farr Owens Corning Classic mótinu og 31. október Hana Bank Championship, þar sem hún átti 2 högg á bandarísku stúlkuna Vicky Hurst.

Nú um helgina sigraði Na Yeon í eina móti sínu, sem hún hefir unnið á LPGA í ár: Sime Darby LPGA í Malasíu, en þar átti hún 1 högg á einn helsta keppinaut sinn Yani Tseng.

Heimild: Wikipedia