Ragnheiður Jónsdóttir | október. 8. 2014 | 13:00

Hver er kylfingurinn: Oliver Wilson?

Enski kylfingurinn Oliver Wilson sigraði s.l. helgi á Alfred Dunhill Links Open, en mótið fór að venju fram á 3 af bestu golfvöllum heims: St. Andrews Old Course (vöggu golfsins), Carnoustie og Kingsbarns.

Þetta er langstærsti sigur Wilson á ferli hans og sá fyrsti á Evrópumótaröðinni.

En hver er þessi Wilson?

Oliver Wilson

Oliver Wilson

Oliver John Wilson fæddist 14. september 1980 í Mansfield, Englandi og er því nýorðinn 34 ára. Hann byrjaði feril sinn í Coxmoor Golf Club, eftir að hafa tekið þátt í unglingastarfinu í Oakmere Park Golf Club.

Wilson var í bandaríska háskólagolfinu og lék með golfliði Augusta State University, Wilson gerðist atvinnumaður 2003 og spilaði á  Challenge Tour árið 2004. Hann varð í 15. sæti á peninalistanum og fékk keppnisrétt sinn á Evrópumótaröðinni.   Hann bætti sig ár frá ári, varð í 97. sæti á peningalista Evrópumótaraðarinnar 2005, í 71. sæti 2006; í 30. sæti 2007; í 11. sæti 2008 og í 7. sæti 2009.

Á nýliðaári sínu á Evrópumótaröðinni 2005 átti Wilson þrjá topp-10 árangra. Árið 2006 tapaði hann í bráðabana fyrir Paul Casey á  Volvo China Open og árið 2007 varð hann tvívegis í 2. sæti. Wilson varð í 2. sæti á Evrópumótaröðinni 4 sinnum árið 2008, í eitt skipti á  BMW PGA Championship þar sem hann tapaði í bráðabana fyrir Miguel Ángel Jiménez. Í apríl 2008 komst Wilson á topp-100 á heimslistanum í fyrsta sinn og eftir 2. sætis árangur sinn á PGA Championship náði hann hæstu hæðum; komst í 45. sæti heimslistans.

Árið 2008 var Oliver Wilson í Ryder Cup liði Evrópu.

Ryder Cup lið Evrópu 2008. Oliver Wilson er í aftari röð 2. f.v.

Ryder Cup lið Evrópu 2008. Oliver Wilson er í aftari röð 2. f.v.

Á fyrsta mótinu á Race to Dubaí árið 2009,  HSBC Champions varð Wilson enn og aftur í 2. sæti. Þann 15. mars 2009, varð Wilson meðal 5 efstu á  WGC-CA Championship. Árið 2009 var Wilson í 2. sæti á  Alfred Dunhill Links Championship.

Wilson náði ekki betri árangri en 5. sæti á móti árið 2010 jafnvel þó hann væri enn meðal efstu 50 á peningalistanum. Wilson missti síðan keppnisrétt sinn á Evróputúrnum í lok keppnistímabils 2011 og horfði nú ekki vænlega fyrir ferli hans.  Hann skipti tíma sínum 2012 að spila á mótum Challenge Tour (Áskorendamótaraðarinnar evrópsku) og Evrópumótaraðarinnar en tókst ekki að vinna sér aftur inn fullan keppnisrétt sinn á Evrópumótaröðinni í Q-school 2012.

Eftir að hafa tekið þátt í 228 mótum á Evrópumótaröðinni og eftir að hafa orðið 9 sinnum í 2. sæti náði Oliver Wilson loks langþráðum sigri á Evrópumótaröðinni og það ekki á hvaða móti sem er heldur sjálfu  Alfred Dunhill Links Championship 2014 og vann sér þar með inn $800,000 (u.þ.b. 96 milljónir íslenskra króna).

Wilson spilaði í mótinu í boði styrktaraðila; hann var fyrir mótið í 252. sætinu á peningalista Evrópumótaraðarinnar, í 104. sæti á peningalista Áskorendamótaraðarinnar evrópsku (Challenge Tour) og nr. 792 á heimslistanum. Með sigrinum er Wilson kominn í 39. sæti peningalista Evrópumótaraðarinnar og í 156. sæti á heimslistanum og er auk þess búinn að tryggja sér keppnisrétt á Evróputúrnum til ársloka 2016!