Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 15. 2013 | 19:19

Hver er kylfingurinn: Paul McGinley?

Nú rétt í þessu var Paul McGinley valinn fyrirliði liðs Evrópumanna í Ryder bikarnum, sem mætir liði Tom Watson í Gleneagles, í Skotlandi, 2014.

En hver er kylfingurinn Paul McGinley?

Paul McGinley fæddist 16. desember 1966 í Dublin á Írlandi og er því nýorðinn 46 ára. Hann býr í Sunningdale á Englandi. McGinley gerðist atvinnumaður í golfi 1991 þ.e. fyrir 22 árum.  Á ferli sínum hefir hann sigrað alls 9 sinnum, þar af 4 sinnum á Evrópumótaröðinni.  McGinley er frægastur fyrir að setja niður 3,5 metra sigurpútt Evrópumanna í Ryder bikarnum 2002 þegar hann bar sigurorð af Jim Furyk á Belfry.  Hér má sjá myndskeið þar sem Paul McGinley tjáir sig um sigurpúttið fræga SMELLIÐ HÉR: 

Eins sigraði McGinley í World Cup of Golf, árið 1997, fyrir Írland, en þeir Pádraig Harrington voru saman í liði (þeir voru í sama gagnfræðaskóla á Írlandi þ.e. Coláiste Éanna). Harrington var í hópi þeirra, sem vildi fá McGinley sem fyrirliða Ryder Cup liðs Evrópu 2014, ásamt einhverjum þekktustu nöfnunum í kraftaverka Ryder Cup liðinu frá Medinah: þ.e. Rory McIlroy, Ian PoulterLuke Donald, Graeme McDowell og Justin Rose.

Besti árangur Paul McGinley er 3. sætið á stigalista Evrópumótaraðarinnar 2005 og hann hefir náð svo langt að komast meðal 20 efstu á heimslistanum.

McGinley varð frægur þegar hann rétti fram höndina til þess að ná handabandi við JJ Henry eftir að sá púttaði langt pútt í Ryder bikarnum 2006 og holan féll á jöfnu.

McGinley hefir verið varafyrirliði í Ryder Cup liðum Evrópumanna 2010 þá undir Colin Montgomerie og síðan s.l. haust með José María Olazábal og er því vanur maður á réttum stað!!! Frábært val að velja McGinley fyrirliða liðs Evrópu í Rydernum 2014!!!