Ragnheiður Jónsdóttir | október. 24. 2011 | 18:00

Hver er kylfingurinn: Yani Tseng?

Yani Tseng (á kínversku: 曾雅妮) fæddist 23. janúar 1989 í Guishan, Taoyuan í Taíwan Það var einmitt  á heimaslóðum Yani í Taoyuan, sem tilkynnt var í síðustu viku að hún yrði leikmaður ársins 2011 á LPGA  og eins vann hún 7. sigur sinn á LPGA, þetta 1. skipti sem Sunrise mótið er haldið í Taíwan. Alls er hún búin að sigra á 10 golfmótum í ár og er nr. 1 á Rolex heimslistanum. Hún er besti kvenkylfingur heims.

En hvað annað… hvað vitum við meira um kylfinginn Yani Tseng?

Yani er 22 ára, pabbi hennar heitir Mao Hsin Tseng og mamma hennar Yu-Yun Yang. Yani býr í húsi í Lake Nona Golf & Country Club, í Orlandó, Flórída, sem hún keypti af Anniku Sörenstam í apríl 2009. Í fyrra hafnaði hún tilboði Kínverja um að gerast kínverskur ríkisborgari gegn óheyrilegri fjárupphæð: 2,8 milljörðum íslenskra króna, sem greiðast áttu á 5 árum, ásamt lúxusvillu og aðgengi að einkaþotum.  Við það tækifæri sagði Yani að það skipti ekki máli hvort hún væri frá Taíwan eða Kína; hún spilaði fyrir alla Kínverja í heiminum.

Yani er yngsti kylfingur, hvort heldur er karl- eða kvenkyns til þess að sigra á 5 risamótum.

Áhugamaðurinn Yani

Á árunum 2004-2006 var Yani besti áhugakylfingurinn í Taíwan.  Hápunktur áhugamannaferils hennar er eflaust að sigra á US Women´s Amateur Public Links, þar sem hún sigraði Michelle Wie með minnsta mun. Meðal afreka hennar sem áhugamanns í golfi eru:

▪ 2002 Sigur – Callaway Junior World Golf Championships (stelpur 13–14 ára)

▪ 2004 2. sæti – Callaway Junior World Golf Championships (telpur 15–17 ára)

▪ 2004 Sigur – U.S. Women’s Amateur Public Links

▪ 2005 Sigur – North and South Women’s Amateur Golf Championship

▪ 2005 Í úrslitum – U.S. Women’s Amateur Public Links

▪ 2005 2. sæti  – North and South Women’s Amateur Golf Championship

Atvinnumaðurinn Yani

2007

Yani Tseng gerðist atvinnumaður í janúar 2007. Það ár keppti hún á Ladies Asian Golf Tour og vann DLF Women’s Indian Open. Hún keppti líka á CN Canadian Women’s Tour, þar sem hún sigraði í Vancouver Golf Club.

 

Yani Tseng eftir sigur á 1. risamóti sínu - LPGA Championship 2008

2008

Yani fór í Q-school 2007 og í desember 2007 varð hún í 6. sæti, sem þýddi að hún fékk fullan keppnisrétt á LPGA árið 2008.

Strax í júní 2008 sigraði hún á LPGA Championship og varð þar með fyrsti kylfingurinn frá Taíwan til þess að sigra risamót á LPGA. Hún var bara 19 ára og því líka yngsti sigurvegari LPGA Championship og næstyngst til þess að vinna risamót á LPGA. Yani var valin LPGA nýliði ársins 2008.

2009

Þann 29. mars 2009 varð Yani sú í sögu LPGA, sem fyrst náði $2 milljóna markinu í tekjum. Hún náði því eftir þátttöku í 32 mótum, á tímabili sem spannaði 1 ár, 1 mánuð og 13 daga. Sú sem átti metið var Paula Creamer, náði $2 milljóna verðlaunamarkinu á 1 ári, 4 mánuðum og 15 dögum, árið 2006.

 

Yani ásamt foreldrum sínum í Poppy Pond eftir sigur á 2. risamóti sínu: Kraft Nabisco 2010

2010

Þann 4. april 2010 vann Yani Tseng, Kraft Nabisco Championship með 1 höggs mun. Hún vann næsta risamót sitt 1. ágúst 2010 þ.e. Women´s British Open líka með 1 höggi og varð þar með yngsta konan á sínu tímaskeiði til þess að hafa sigrað á 3 risamótum. Aðeins stofnandi LPGA, Patty Berg var yngri en Yani þegar hún vann Titleholders Championship (sem var risamót þess tíma) 1939. En það var þó fyrir stofnun LPGA Tour, árið 1950 og ákvörðun þess hver væru opinber LPGA risamót.

Yani Tseng eftir sigur á 3. risamóti sínu : Women´s British Open 2010

2011

Í janúar 2011 varði Yani titil sinn á Taifong Ladies Open. Þremur vikum síðar vann hún ISPS Handa Women’s Australian Open og viku seinna ANZ RACV Ladies Masters, en bæði mótin voru líka hluti  ALPG Tour og Ladies European Tour. Með sigrum sínum í þessum mótum varð hún nr. 1 á Rolex-heimslistanum. Hún sigraði næst á Honda LPGA Thailand.

Yani Tseng með sigurbikarinn, nýbúin að vinna risamót nr. 4 Wegmans PGA Championship

Í júní 2011 vann hún  LPGA State Farm Classic með 3 högga mun á Cristie Kerr. Tveimur vikum síðar vann hún LPGA Championship. Þegar hér var komið sögu var hún sú yngsta í sögu LPGA til þess að sigra 4 risamót. Í júlí varði hún titil sinn á Women’s British Open og varð þar með sú fyrsta til þess að sigra tvö slík risamót í röð og verja titil sinn.  Með þessum sigri varð hún líka sú yngsta, hvort heldur er meðal karl- eða kvenkylfinga til þess að sigra á 5 risamótum.

Yani Tseng með 5. risamótstitil sinn á Women´s British Open 2011

Yani var valin kylfingur ársins á LPGA tvö ár í röð 2010 og 2011 og nú í ár lá fyrir að hún yrði kylfingur ársins, jafnvel þó enn væru 4 mót á mótaskránni, sem á eftir að spila.

Greininni lýkur eins og hún hófst: Yani er einfaldlega besti kvenkylfingur í heimi nú um stundir. Það er ekki hægt annað en að dást að afrekum þessa snilldarkylfings!

Heimild: Wikipedia