Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 20. 2020 | 08:00

Golf getur bjargað lífi fólks!

Á þessum síðustu og verstu tímum, þegar fólk um allan heim er að smitast, veikjast og jafnvel deyja af kórónaveirunni, sem engin bóluefni eru enn við og fólk er ýmist sett í sóttkví eða einangrun og allt er að lokast, allt frá verslunum til landamæra og hverjum skemmtilega atburðinum er ýmist aflýst eða slegið á frest og nægir þar að nefna Masters, PGA Championship og ýmsum íþróttaviðburðum almennt og Eurovision þá er mikilvægara en nokkru sinni að halda ró sinni og vera bjartsýnn og jákvæður.

Það er erfitt þegar maður þarf að gæta sín á öllum og halda 2 m fjarlægð til þess að varast smit, hætta öllu knúsi, kjassi og kossaflangsi, sem öllum er svo mikilvægt, vera sífellt að þvo sér um hendurnar e.t.v. vera innilokaður og einangraður frá öllum, komast ekki til síns heimalands og í versta falli að vera að berjast fyrir lífi sínu.  Og þurfa í ofanálag að hafa fjárhagsáhyggjur vegna fjarveru frá vinnu.

Þá er mikilvægt að muna að þetta tímabil, sem önnur, líður hjá. Bóluefnið er í vinnslu og það mun koma.  Enn sem komið er hefir enginn Íslendingur látist hérlendis úr Covid-19 – við höfum hæft og frábært fagfólk í heilbrigðisgeiranum, sem leggur dag við nótt í vinnu við sýnatöku og aðhlynningu sjúklinga. Sem og almannavarnateymis, sem telur alla landsmenn undir forystu Siglfirðingsins Ölmu Möller, landlæknis og Vestmannaeyinganna Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns ríkislögreglustjóra og sóttvarnarlæknis Þórólfs Guðnasonar.  Sem og er fullt af öðru fólki á öðrum sviðum, sem leggur sig fram um að verja samborgara sína fyrir veirunni eða létta þeim lífið.

Erfiðleikatímar sem þessir virðast líka laða það besta fram hjá íslensku þjóðinni; samheldni og samstöðu.

Og e.t.v. er lífið að kenna okkur lexíu; að vera ekki að vinna svona mikið, heldur verja meiri tíma í það sem skiptir máli; makann, börnin eða aðra ættingja og vini og áhugamál okkar.

Kannski er núna tíminn til að heita sér að spila meira golf og taka sér meiri tíma í sjálfan sig þegar allt þetta er afstaðið.

Ekki leggjast í þunglyndi og ekki gera ekki neitt heima hjá ykkur; það er endalaust hægt að bæta golfleik sinn með allskyns golfkennsluefni sem finnst frítt á youtube m.a.  Eða gera jóga- og golfleikfimi, sem setið hefir á hakanum eða lesa allar golfgreinarnar, sem ekki gafst tími til eða sinna öðru sem ekki hefir verið tími til áður. Ekki gefast upp!!!

Golf getur jafnvel stundum bjargað lífi fólks og vegna þess að spáð er að veirufaraldurinn muni ná hápunkti sínum um það leyti um það leyti sem Masters mótið átti að fara fram, þ.e. 9. apríl n.k. þá rifjast upp ein slík saga af því, þegar golfið bjargaði lífi manns.

Reg Murphy stuttu eftir að hann var látinn laus úr haldi mannræningja síns

Þetta er saga ritstjóra Atlanta Constitution Journal (ACJ), Reg Murphy, sem var rænt fyrir u.þ.b. 46 árum, nánar tiltekið 20. febrúar 1974. Það var á svipuðum tíma og fjölmiðlarisaerfingjanum Patti Hearst var rænt í  Berkeley, Kaliforníu af vinstri herdeild sem kallaði sig Symbionese Liberation Army.  Ræningi Murphy sagðist vera „herforingi“ í American Revolutionary Army, sem var langt til hægri og þyldi ekki „vinstri sorp snepil“ Murphy, sem m.a. studdi umbætur á borgaralegum réttindum, sem og að blaðið var á móti Víetnam stríðinu. Mannræninginn krafðist þess allan tímann meðan Murphy var í haldi að hann væri kallaður „hershöfðingi,“ þó síðar hafi komið í ljós að engin slík herdeild væri til og maðurinn William A.H. Williams var einn að verki og það var hagnaðarvonin um þær $700.000, sem krafist var í lausnargjald og blaðið borgaði fyrir Murpy, það sem dreif mannræningjann áfram.

Það var hinn ritstjóri ACJ blaðsins, Jim Minter, sem í eigin persónu afhenti lausnargjaldið, eftir að hafa haldið að Murphy væri bara að djóka þegar sá hringdi fyrst á blaðið og sagðist hafa verið rænt. Minter svaraði Murphy í kæruleysi en sagði orðrétt: „Well, then you’re in a helluva shape, Reg, No one’s going to pay anything for you.“ (Lausleg þýðing: „Nú, þá er illa fyrir þér komið Reg. Enginn borgar neitt fyrir þig.“) Fyrstu viðbrögð Minter voru vel skiljanleg í ljósi þess að hann hélt að Reg Murphy væri að djóka, en Hearst málið var aðalblaðamál þess tíma. Minter hringdi hins vegar þegar í eiginkonu Murphy og komst þá að hinu sanna að hann væri ekki heima hjá sér og mannræninginn hafði þegar haft samband við eiginkonuna og heimtað lausnargjaldið.

Sagan af mannráni Murphy var ein af fyrstu golfsögunum, sem Golf 1 birti, þegar vefurinn hóf göngu sína á facebook sumarið 2011.

Hendur og fætur Reg Murphy voru bundin saman af mannræningjanum, þannig að hendur Murphy voru bundar fyrir aftan bak og bundnar við fætur hans líka, þannig að líkami hans myndaði C, sem meiddi Murphy í baki. Síðan var honum varnarlausum troðið í skottið á bíl mannræningjans eftir að teipað var  fyrir munn hans og augu. Bíllinn var í gangi stóran hluta þeirra 49 tíma sem Murphy var í haldi ræningjans og óttaðist hann mjög að deyja af útblástursgufunum, auk þess sem höfuð hans rakst í lokið á skottinu í hvert sinn sem bíllinn fór yfir ójöfnu eða tók beygju, án þess að hann gæti borið hendur fyrir höfuð sér, sem jók enn á innilokunarkennd hans. Hann var varnarlaus og óttaðist um líf sitt, líkt og margir gera á þessum tímum kórónaveirunnar. Murphy vissi að ef hann ætti að eiga einhverja von yrði hann að halda sér rólegum og dreifa huga sínum. Og það gerði hann með því að spila golf …. í huga sér.  Í fyrstu fór hann yfir öll atriði á síðasta golfhring sínum, sem hann hafði spilað í  Capital City Club í Atlanta, Georgíu tveimur vikum fyrir mannránið og eftir það lék hann hringi á Augusta National, sem honum hafði veittst heiður að spila nokkrum sinnum. Með því að spila golf í huga sér gat hann a.m.k. um tíma tekið sjálfan sig úr þeim ömurlegu aðstæðum sem hann var í, í haldi ræningjans.  Síðar sagði hann að golfið hefði með þessu móti bjargað lífi sínu.

Á þeim tíma sem Reg Murphy var rænt var hann með 7 í forgjöf í golfi og síðar, á árunum 1994-1995 gegndi hann stöðu forseta golfsambands Bandaríkjanna.  Murphy hagnaðist síðar á sölu dagblaðs, sem hann átti hlut í (þ.e. fékk $15 milljónir í sinn hlut) og býr nú í stóru glæsihýsi við golfvöll á St. Simons Island. Reg Murphy er fæddur 1933 og því 87 ára á þessu ári… og spilar enn golf!

Sjá má langa grein Golf Digest, sem Golf 1 byggði sína  grein sína á, þegar hún birtist í  í fyrsta sinn fyrir 9 árum á facebook síðu Golf 1 með því að SMELLA HÉR: 

Sjá má myndskeið Golf Channel af Reg Murphy, frá 2013, þar sem hann rekur mannránssögu sína, með því að SMELLA HÉR: 

40 árum eftir mannránið, þ.e. 2014, baðst mannræninginn William A.H. Williams afsökunar á að hafa rænt Murphy og má sjá grein ACJ um það með því að SMELLA HÉR: 

ACJ rifjar reglulega upp mannránið á fv. ritstjóra sínum, Reg Murphy, og birtist síðasta greinin sl. ár, þ.e. 20. febrúar 2019, þegar 45 ár voru liðin frá mannráninu og má lesa greinina með því að

SMELLA HÉR: 

Í aðalmyndaglugga: Diana og Reg Murphy; en bæði hafa gegnt stöðu forseta golfsambands Bandaríkjanna