Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 28. 2014 | 10:40

John Ponter fór tvisvar holu í höggi …. á sama hring

Þann 19. mars s.l. fór John Ponter, 53 ára, frá Baden, Pennsylvaníu tvisvar sinnum holu í höggi á sama hring.

Hann var á smávegis golfferðalagi með vinum sínum á Myrtle Beach þegar hann náði draumahöggi allra kylfinga, ekki bara einu sinni heldur tvisvar.

Ponter hóf leik á seinni 9 í Oyster Bay golfklúbbnum. Fyrsti ásinn steinlá eftir að Ponter sló með 9-járninu sínu af 15. teig,á 109 yarda (99,5 metra)  par-3 holuna. Þetta var fyrsta draumahögg Ponter og fagnaðarlætin eftir því.

 „Ég trúði þessu ekki,“sagði Ponter í viðtali við Myrtle Beach Golf Holiday.

Ímyndið ykkur bara hversu hissa hann varð þegar hann kom á 135 yarda (123 metra) par-3 6. holuna og náði öðru draumahöggi sínu, þarna sama daginn.

Talið er að líkurnar á að þetta gerist séu 1 á móti 67 milljónum.

Svo skrítið sem það er þá var Ponter á 9 daga golfferðalagi og hafði ekkert gengið sérlega vel allan tíma. Hann var t.a.m. á 89 höggum þennan dag á Oyster Bay, sem var besta skor hans allt ferðalagið!