Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 22. 2012 | 18:00

Kólfleikurinn við allra hæfi

Nú fyrir jólin kom út glæsilegt 800 bls. ritverk þeirra Steinars J. Lúðvíkssonar og Gullveigar Sæmundsdóttur, Golf á Íslandi, í tveimur bindum, í tilefni af 70 ára afmæli Golfsambands Íslands. Í verkinu eru m.a. margar skemmtiegar sögur og frásagnir dagblaða af kylfingum allt frá því fyrsti golfklúbburinn var stofnaður hér á landi, 1935. Golf á Íslandi fæst í öllum helstu bókabúðum og er vonandi að sem flestir kylfingar fái þetta eigulega ritverk í jólapakkann!!!

Í 2. tbl. Kylfings 1. árg. frá júní 1935 birtist eftirfarandi grein:

„Kólfleikurinn við allra hæfi

Kólfleikur var áður leikur yfirstéttarmanna, sem höfðu efni á að kaupa dýr landflæmi og láta breyta þeim í leikvöll.  En í seinni tíð hafa bæjarfélög víða um heim látið gera leikvelli og gert leikinn ódýran og almennan og svo þarf að verða hér á landi. Við þetta hefir leikurinn farið eins og kólfi væri skotið um löndin, enda er hann við hæfi allra, ungra sem gamalla, íþróttamanna og kyrrsetumanna. Það má iðka hann einn sér og með mörgum félögum. Það má fara hart eða hægt yfir, Það má iðka hann í stillu og stormi, sól og regni, á öllum árstíðum, nema þegar snjór liggur yfir landinu. Kólfleikurinn fellur vel við náttúruskilyrði okkar og ástæður hvers einstaks en ódýr verður hann fyrst þegar bæjarfélagið kemur til hjálpar og býr í haginn.“ 

Golf á Íslandi bls. 15