Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 26. 2014 | 19:00

Konur félagar í St. Andrews?

Hvert skref í jafnræðisátt er skref skynsemi, sem ber að fagna.

Í dag er fagnaðardagur því þær fréttir berast frá Royal and Ancient Golf Club að konum muni verða veitt félagsaðild þar í október eftir 260 ára „bið“.

R&A hefir hingað til verið lokaður karlaklúbbur, þar sem konum hefir þó á síðari árum, fyrir náð og miskunn, leyfst að spila á golfvöllum vöggu golfíþróttarinnar.

Nú fá þær að gerast fullgildir félagar!  Svolítill bögull fylgir skammrifi. Félagar R&A golfklúbbsins eiga eftir að samþykkja tillögu sem formaður klúbbsins hefir sent þeim.

Verði tillagan samþykt undirbýr það jarðveginn fyrir að að Opna breska megi eingöngu fara fram í klúbbum,  sem leyfa báðum kynjum að gerast félagar, en á síðasta ári neitaði forsætisráðherra Skotlands m.a. að fylgjast með Opna breska risamótinu vegna þess að Muirfield, mótsstaður þess þá,  heimilar einungis körlum að gerast félagar í klúbbnum.

Heimildarmenn Telegraph í St. Andrews hafa staðfest að formaður R&A, Wilson Sibbett, hafi skrifað yfir 2500 félögum og beðið þá að samþykkja tillögurnar, sem verða nánar ræddar á vorfundi og greitt atkvæði um  í haust.

Mjög ólíklegt þykir að tillögu Wilson Sibbett verði hafnað.

„Nú er rétti tíminn að biðja félagsmenn Royal and Ancient Golf Club að bjóða kvenkylfinga velkomna í klúbbinn,“ sagði m.a. í bréfi Sibbett.

„Það er auðvitað undir félagsmönum komið að ákveða hvort þeir ákveða að breyta reglum og koma þessari stefnubreytingu í framkvæmd.“

Síðan var þessi setning í bréfi R&A: „Nefndir klúbbsins eru sterklega hlynntar reglubreytingu og eru að biðja klúbbmeðlimi að styðja hana.“

Kosið verður um breytinguna 18. september n.k. og þarf 2/3 hluta meðlima að greiða henni jáyrði sitt til þess að hún fari í gegn.  Kannski er það ekki tilviljun, en sama dag eru kosningar um sjálfstæði Skotlands.  Golfið og Skotland haldast í hendur líkt og verið hefir öldum saman!