Tiger Woods og Erica Herman
Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 15. 2019 | 09:00

Krafist bóta úr hendi Tiger og kærustu hans f. manndráp af gáleysi

Höfðað hefir verið mál gegn Tiger Woods og kærustu hans, Erica Herman, aðalframkvæmdastjóra The Woods Jupiter, af foreldrum fyrrum þjóns á veitingastað Tiger, sem lést í ölvunaraksturs slysi á sl. ári.

Málið var höfðað í Palm Beach County sl. mánudag.

Skv. málsskjölum lauk hinn 24 ára Nicholas Immesberger vakt sinni kl. 3 að nótt þann 10. desember 2018, en var áfram á barnum þar sem honum voru bornar veitingar af starfsmönnum Tiger, sem leiddu til ofurölvunar hans. Immesberger dó síðan af völdum áverka sem hann hlaut í bílsslysi eftir að hafa yfirgefið veitingastaðinn.

Í málinu segir að „starfsmenn og stjórnendur The Woods hafi haldið áfram að bera áfengi í Immesberger, sem varð ofurölvi, vitandi það að hann hafði keyrt til vinnu og átti ekki annað far heim,“ og að starfsmenn og stjornendur „hafi haft vitneskju um að Immesberger hefði átt við drykkjuvanda að stríða.“

Það sem snýr að Tiger sérstaklega í málsskjölum er þar sem segir: „Tiger vissi eða mátti hafa vitað að Immesberger var háður drykkju áfengra drykkja og/eða var vanadrykkjumaður.“ Eins segir í málsskjölum að Herman „ hafi persónulega þekkt Immesberger og sérstaklega ráðið hann til þess að vinna á The Woods og hefði verið vel meðvituð um vanaofneyslu Immesberger á áfengi.

Tiger ber skaðabótaábyrgð í þessu máli“ segir síðan „vegna þess að hann tók (óbeint) þátt í að bera fram áfengið.“

USA Today hélt því fram að „skv. áfengislögum ríkisins (Flórída) gæti Tiger hugsanlega verið bótaábyrgur sem eigandi staðarins jafnvel þó hann hafi ekki verið persónulega á staðnum ef fyrirsjáanleg hætta var á meiðslum eða dauða vegna þess að of mikið áfengi var borið á borð fyrir þann sem hafði sögu um misnotkun áfengis.“

Foreldrar Immesberger, Katherine Belowsky og Scott Duchene, höfðuðu málið og kröfðust $15,000 í læknis- og útfararkostnað, auk alls málskostnaðar.

Tiger er sem stendur í New York við undirbúning fyrir 2. risamót ársins PGA Championship á Bethpage Black. Hvorki hann né umboðsmenn hans hafa tjáð sig opinberlega um málshöfðunina, en hann harmaði þó andlát Nick á blaðamannafundi fyrir PGA Championship.