Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 23. 2011 | 06:00

Landsbankinn í Grindavík og GG undirrita samstarfssamning

Á heimasíðu Golfklúbbs Grindavíkur gaf að finna eftirfarandi frétt:

„Landsbankinn í Grindavík og Golfklúbbur Grindavíkur hafa undirritað nýjan samstarfssamning til þriggja ára. Markmið samningsins er að styðja við golfíþróttina í bæjarfélaginu með sérstakri áherslu á barna-og unglingastarf klúbbsins.  Undirritunin fór fram fimmtudaginn 22. desember.

Samhliða undirritun samstarfssamnings Landsbankans og Golfklúbbs Grindavíkur færði Landsbankinn höfðinglegt fjárframlag í tilefni af 30 ára afmæli Golfklúbbs Grindavíkur í ár. Styrkurinn er sérstaklega hugsaður til uppbyggingar unglinga- og barnastarfs hjá klúbbnum.  Landsbankinn hefur undanfarin ár verið einn helsti styrktar- og stuðningsaðili golfklúbbsins og stutt sérstaklega vel við bakið á uppbyggingarstarfi GG.  Stjórn Golfklúbbs Grindavíkur færir þeim hugheilar þakkir fyrir ómetanlegt framlag sem án efa mun styrkja klúbbinn enn frekar í því að byggja upp kylfinga framtíðarinnar.“