Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 16. 2011 | 18:00

Lexi leiðir fyrir lokahringinn í Dubai

Alexis Thompson, unga, fallega, bandaríska golfstjarnan er enn í forystu á Omega Dubai Ladies Masters. Hún kom inn á 70 höggum í dag, -2 undir pari, á hring þar sem hún fékk 4 fugla og 2 skolla. Samtals er Lexi búin að spila á -10 undir pari, 206 höggum (70 66 70).

Í 2. sæti er hin sænska Sophie Gustafsson, sem minnkaði aðeins bilið milli sín og Lexi en aðeins 1 högg skilur þær að. Hún spilaði á 69 höggum í dag og er samtals búin að spila á -9 undir pari, 207 höggum (71 67 69).

Þriðja sætinu deila Lee-Anne Pace frá Suður-Afríku og hin sænska Pernilla Lindberg, 2 höggum á eftir Lexi.

Fimmta sætinu deila 3 kylfingar: Stacy Lee Bregman frá Suður-Afríku, Becky Morgan frá Wales og Julieta Granada, 3 höggum á eftir Lexi, þ.e. allar búnar að spila á -7 undir pari.

Ein í 8. sæti er uppáhaldskylfingur margra Michelle Wie. Hún er 5 höggum á eftir Lexi búin að spila á -5 undir pari, samtals 211 höggum (73 67 71).

Loks eru 8 stúlkur í 9 sæti þ.á.m. Caroline Hedwall, sem búin er að rífa sig úr 35. sætinu sem hún var í, í gær með glæsihring í dag upp á 68 högg. Hún er þó líkt og hinar á samtals -4 undir pari, þ.e. 6 högg skilja hana og hinar 7 frá Lexi og það er munur sem erfitt verður að vinna upp nema Lexi eigi arfaslæman dag á morgun og Caroline að sama skapi glæsihring.

En svo sem allir vita getur allt gerst í golfi! Það er spennandi hringur framundan á morgun – munur milli efstu kvenna er örmjór.

Til þess að sjá stöðuna eftir 3. dag Omega Dubai Ladies Masters smellið HÉR: