Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 10. 2019 | 09:00

Malasíski kylfingurinn Arie Irawan fannst látinn á hótelherbergi í Kína

Malasíski atvinnukylfingurinn Arie Irawan dó sl. sunnudagsmorgun að því er virðist að eðlilegum orsökum í hótelherbergi í Kína. Réttarlæknir hefir þó enn ekki gefið út krufningsskýrslu.

Irawan var við keppni á kínverska PGA Tour þ.e. á Sanya Championship, þar sem hann komst ekki í gegnum niðurskurð.

Hann ákvað þó að vera út mótið og dvaldi á Sheraton Sanya Resort hinum megin við götuna frá Yalong Bay golfklúbbnum, þar sem mótið fór fram.

Það var herbergisfélagi hans bandaríski kylfingurinn Kevin Techakanokboon, sem varð að undirbúa sig fyrir leik á lokahringnum sem fann Irawan. Techakanokboon hringdi í félaga sinn Gunn Charoenkul og eins kom bandaríski kylfingurinn Shotaro Ban sem hóf þegar lífgunartilraunir. Eiginkona Charonekul,  Vichuda, sem talar reiprennandi mandarín kínversku, hringdi á sjúkrabíl. U.þ.b. 45 mínútum eftir árangurslausar endurlífgunartilraunir var hinn 28 ára Irawan úrskurðaður látinn.

Þetta er bara hræðilegur harmleikur sem snertir okkur öll sem erum hluti af mjög samrýmdri „golffjölskyldu“ hér í Kína,“ sagði Greg Carlson, framkvæmdastjóri PGA TOUR Series-China.

Arie spilaði hér með okkur í fyrsta sinn fullt keppnistímabil 2018 og hann var spenntur fyrir þessu keppnistímabili þar sem hann var áfram að berjast í atvinnumennskunni. Við erum ótrúlega sorgmædd yfir þessum fréttum og færum okkar einlægu samúðarkveðjur til eiginkonu hans og fjölskyldu.“