Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 24. 2012 | 14:00

Myndasería um bók Hank Haney og Jaime Diaz „The Big Miss“ um Tiger Woods

Nú á þriðjudaginn, 27. mars kemur út í Bandaríkjunum bók sem beðið hefir verið eftir með nokkurri eftirvæntingu, en það er bók sem Hank Haney, fyrrum sveifluþjálfari Tiger og Jaime Diaz, aðalgolffréttapenni Golf Digest skrifuðu í sameiningu.  Jaime Diaz mun m.a. síðar á árinu hljóta viðurkenningu frá PGA fyrir ævistarf sitt sem golffréttaritari.

Í tilefni útgáfu bókarinnar birti Jaime viðtal við sig (á podcast),  sem hlusta má á HÉR:

Eins birti Golf Digest útdrætti úr bókinni í máli og í formi myndaseríu sem sjá má HÉR:

Nokkrir punktar úr ofangreindum heimildum:

Í ofangreindu kemur m.a. fram að Tiger sé mjög var um sig og láti fólk ekki nálægt sér og því er spáð að svo muni vera um ókomna nánustu framtíð.

Sagt er frá því að hann „blokkeri“ algerlega þá golffréttaritara sem honum finnist hafa skrifað illa um sig og telur Jaime Diaz, sem skrifað hefir um Tiger frá því hann var smápatti það hafa verið nokkuð sem hann hafi þurft að íhuga náið áður en hann gaf sig í verkefnið að skrifa um Tiger og hann búist við að hljóta ekki þann forréttinda aðgang að Tiger sem hann hafði áður.

Jaime segir að samskiptin við Tiger hafi í gegnum árin aðeins verið fagleg en ekki nein vinátta skapast milli þeirra (innskot: maður spyr sig: af hverju hefði það líka átt að skapast vinátta milli þeirra?  Jaime er einungis að skrifa um Tiger og eðlilegt að menn loki á þá sem þeim finnst skrifa illa um þá.)

Í bókinni á m.a. að vera sagt frá því að Tiger hafi fengið gúmmíkúlu í sig á æfingu hjá Navy Seals og hafi þar með stefnt ferli sínum sem kylfings í hættu. Aðspurður hvort hann stefndi ekki möguleikanum á að slá met Nicklaus með svona hernaðaræfingum í hættu sagðist Tiger vera sama um að slá met Jack Nicklaus, hann væri ánægður með þann árangur sem hann hefir náð.

Í bókinni segir m.a. frá því að Steve Williams fyrrum kylfubera Tiger og Butch Harmon fyrrum sveifluþjálfara Tiger hafi ekkert komið allt of vel saman.

Í bókinni kemur fram að einn aðaltrúnaðarmaður Tiger sé Mark Steinberg, umboðsmaður Tiger.

Fram kemur að Tiger hafi oft verið eigingjarn – hann hafi borðað hratt og staðið upp frá borðum sama um hvort aðrir hafi lokið máltíð sinni og eins þegar keyptur hafi verið skyndibitamatur hafi Haney alltaf þurft að borga. Nískur og eigingjarn er það sem verið er að reyna að klessa á Tiger hér. Spurning: Var Hank Haney ekki á milljónalaunum hjá Tiger? Gat hann ekki varið nokkrum dollurum til kaupa á skyldibitamat? Ótrúlega smásmugulegt að vera með svona sparðatíning og maður spyr sig í hvaða tilgangi? Þurfum við, golfáhangendur endilega að vita hver borgaði fyrir skyndibitamat Tiger?

Sagt er frá því að þrátt fyrir sérfræðiráðgjöf Haney hafi hún oft ekki virkað á Tiger, sem ekki hafi meðtekið hana og Tiger hafi átt að stríða við allskyns sveifluvandræði alveg eins og aðrir kylfingar. (Innskot: verið að draga heimsins besta kylfing á sama plan og hvaða golfguttlara sem er) „Það sýni bara hversu erfið golfíþróttin sé “ (Skoðun og staðhæfing: Gróft trúnaðarbrot!)…. (og enn ein lítil ábending golfkennarinn minn, Björgvin Sigurbergsson sagði alltaf: Sjáðu hvað golf er auðveld íþrótt!)  – Af hverju ætti þessi sveifluþjálfarasnillingur sem Haney er að hamra á því hvað golfíþróttin er erfið? Það hjálpar ekki neitt. Það sem verið er að gera þarna í tilviki Jaime og Haney er að gera lítið úr Tiger.

Ég læt staðar numið hér. Sem golffréttaritara hafði ég ætlað mér að kaupa eintak af bók Jaime og Haney en tel mig hafa lesið nóg í þessu formi gróðapungslegra bókarauglýsinga að ég ætla að sleppa því, rétt eins og Tiger sem gefið hefir út að hann ætli ekki að lesa bókina!   Bókin er frá sjónarhóli Golf1  A Big Miss!

Og annað (og þar með fýkur hlutleysi allrar fréttamennsku út í hvassviðrið úti) Ég vona að Tiger sigri bæði á Bay Hill og Masters og láti útgáfu þessara manna, „sem er svo umhugað um hann“, sérstaklega með einstaklega „góðri“ tímasetningu á útgáfu bókarinnar, ekki hafa áhrif á sig.  En til þess þarf því miður ofurmannlega einbeitingu – vonandi að Tiger hafi hana!