Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 3. 2023 | 18:15

NGL: Haraldur Franklín T-13 e. 2. dag Camiral Golf&Wellness meistaramótinu

Haraldur Franklín Magnús var sá eini af fimm íslenskum kylfingum, sem komst í gegnum niðurskurð á  Camiral Golf & Wellness Championship, en mótið er hluti af Nordic Golf League mótaröðinni (skammst.: NGL).

Mótið stendur dagana 2.-4. mars 2023 og fer fram á tveimur völlum á PGA Catalunya golfsvæðinu rétt við borgina Girona, á Spáni.

Keppnisvellirnir eru: Stadium Course, sem er par 72 og Tour Course, sem er par 71.

Haraldur Franklín er búinn að spila á samtals 3 undir pari, 140 högg (68 72) nú eftir 2. dag.

Sjá má stöðuna að öðru leyti á Camiral Golf & Wellness Championship eftir 2. dag með því að SMELLA HÉR: 

Á Nordic Golf League mótaröðinni gefst tækifæri til þess að komast inn á Challenge Tour, Áskorendamótaröðina, sem er í næst efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, Haraldur Franklín Magnús og Axel Bóasson hafa allir komist inn á þá mótaröð með góðum árangri á Nordic Golf League mótaröðinni.

Fimm efstu á stigalista Nordic Golf League í lok tímabilsins fá keppnisrétt á Challenge Tour – og einnig er hægt að tryggja sér keppnisrétt á þeirri mótaröð með því að sigra á þremur eða fleiri mótum á Nordic Golf League. Þeir keppendur sem enda í sætum 6-10 á stigalista mótaraðarinnar fá takmarkaðan keppnisrétt á Challenge Tour á næsta tímabili.