Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 19. 2013 | 08:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2014: Adam Gee (2/27)

Adam Gee er einn 6 stráka sem rétt komust inn á Evrópumótaröðina af lokaúrtökumóti Q-school í Girona á Spáni, dagana 10.-15. nóvember s.l.,þ.e. varð í 22.-27. sætinu.

Lokaskor Gee var samtals 9 undir pari, 419 högg (66 70 71 69 69 74) og hlaut hann að launum € 1.937,-

Adam Gee fæddist 22. október 1980 í Carshalton, Englandi og er því 33 ára.  Gee byrjaði fremur seint í golfi (miðað við afrekskylfinga) þ.e. var orðinn 15 ára þegar hann tók fyrstu skref sín í golfinu.  Þrátt fyrir það komst hann nokkrum árum síðar á golfskólastyrk inn í University of North Carolina í Wilmington og spilaði 4 ár í bandaríska háskólagolfinu. Þegar hann sneri aftur frá Bandaríkjunum kaus hann að starfa sem golfleiðbeinandi þar sem hann var ekki viss um að hann hefði það sem þurfti til að verða atvinnumaður. Hann varð hins vegar í 2. sæti í Amateur Championship 2006.

Gee gerðist þó loks atvinnumaður í golfi, 26 ára (þ.e. 2006) og hóf ferilinn á Áskorendamótaröð Evrópu. Hann var þar í 4 ár og spilaði stöðugt golf – var á bilinu í 40.-65. sæti á hverju ári (og hélt þar með kortinu sínu) en í lok árs 2010 tók hann þátt í Q-school og ávann sér kortið sitt á Evrópumótaröðina árið 2011.

Gee hefir skrifað reglulega fyrir Sky Sports um golf.

Adam Gee

Adam Gee

Hér má sjá grein sem greinarhöfundur skrifaði um Adam Gee á iGolf (9. febrúar 2011) eftir að hann varð í 4. sæti á Q-school 2010:

„Englendingurinn Adam Gee varð í 4. sæti á lokaúrtökumóti Q-school Evrópumótaraðarinnar, sem fram fór á PGA Golf Catalunya vellinum í Girona á Spáni í desemberbyrjun s.l. árs, (4.-10. desember).

Adam spilaði á -16 undir pari, var á samtals 412 höggum (66 71 65 73 72 65) og fékk € 7,861.91 í verðlaunafé.

Adam Gee fæddist 22. október 1980 á Englandi og er því 30 ára.

Hann gerðist atvinnumaður í golfi eftir að hafa orðið í 2. sæti á eftir Frakkanum  Julien Guerrier í The Amateur Championship á Royal St George’s. 

Fyrr á árinu varð hann fyrsti Englendingurinn til að sigra á Lake Macquerie Amateur Championship í Australia, en engum Englendingi hafði tekist það síðan Nick Dougherty sigraði mótið 2001.

Meðal annarra sigra hans sem áhugamanns eru sigrar á The Berkshire Trophy árið 2005.

Adam Gee spilaði golf í háskóla í Bandaríkjunum frá 1999-2002 þ.e. í  
University of North Carolina, Wilmington.

Árið 2007 varð hann 2. í Russian Open Golf Championship, sem var 2. mótið sem hann tók þátt í á Evrópumótaröðinni.

Adam býr í Cheam á Englandi og er í golfklúbbnum „The Wisley“.

Hann er 185 cm og 83 kg.

Adam segir áhugamál sín vera íþróttir og tónlist.

Árið 2009  spilaði hann á Challenge Tour, en eftir frækinn árangur í Q-school 2010, er hann nú kominn með fullan keppnisrétt og kortið sitt á Evrópumótaröðina  2011.“