Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 21. 2018 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2019: Kristoffer Reitan (2/27)

Golf 1 hefir á undanförnum árum kynnt „nýju strákana“ á Evróputúrnum og verður því fram haldið hér.

Lokaúrtökumótið í ár fór fram á Lumine golfstaðnum í Tarragona, nálægt Barcelona á Spáni, dagana 10.-15. nóvember og voru að venju spilaðir 6 hringir.

Efstu 25 og þeir sem jafnir voru í 25. sætinu hlutu kortið sitt á Evróputúrnum. Í ár voru það 27 sem hlutu kortið sitt á Evróputúrnum.

Líkt og á undanförnum árum verður hafist á að kynna þá sem urðu í síðustu sætunum fyrst og endað á þeim sem sigruðu í Q-school þ.e. urðu efstir í lokaúrtökumótinu.

Í ár deildu 8 strákar 20. sætinu og komust því 27 „nýir strákar“ á Evróputúrinn í ár gegnum lokaúrtökumótið. Einn þeirra sem ekki komst að þessu sinni, þrátt fyrir frábæra spilamennsku var Birgir Leifur „okkar“ Hafþórsson, GKG.

Hér verður byrjað að kynna þann þá  8 sem deildu 20. sætinu þ.e. þá sem urðu T-20 á lokaúrtökumótinu. Búið er að kynna Ben Evans, en í dag verður norski frændi okkar Kristoffer Reitan kynntur.

Kristoffer Reitan fæddist 8. mars 1998 og er því 20 ára.

Hann er í golfklúbbi Oslo og sem stendur nr. 1778 á heimslistanum.

Þrátt fyrir ungan aldur hefir Reitan þegar tekið þátt í risamóti, þ.e. Opna bandaríska 2018, en þar komst hann ekki í gegnum niðurskurð.

Reitan fór hins vegar í gegnum öll 3 stig úrtökumótsins í fyrstu tilraun sinni að komast á Evrópumótaröðina; varð í 2. sæti í I. stiginu á Stoke by Nayland í Englandi, síðan T-8 á II. stiginu í Las Collinas á Spáni og loks náði hann að verða í 26. sæti þ.e. T-20 á lokaúrtökumótinu og tryggði sér þar með kortið sitt og fullan spilarétt á mótaröð þeirra bestu í Evrópu keppnistímabilið 2019…. yngstur allra!!! Frábært hjá þessum tvítuga Norðmanni og frænda okkar!!!