Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 14. 2020 | 14:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2020: Pedro Figueiredo (11/28)

28 kylfingar tryggðu sér fullan spilarétt á Evrópumótaröðinni og mun Golf 1, líkt og á undanförnum vera með kynningu á þeim.

Meirihluti þeirra sem komst á Evróputúrinn, með þátttöku sinni í lokaúrtökumótinu eru reynsluboltar, sem margir hafa spilað á Evróputúrnum og í nokkrum tilvikum einnig bestu mótaröð í heimi PGA TOUR og voru þáttakendur í lokaúrtökumótinu því sérlega sterkir í ár.

Lokaúrtökumótið fór fram á Lumine golfstaðnum á Spáni, dagana 15.-20. nóvember 2019 að þessu sinni.

Í fyrsta sinn í golfsögunni voru 3 íslenskir keppendur á lokaúrtökumótinu: Andri Þór Björnsson, GR; Bjarki Pétursson,GB og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR. Því miður komst enginn þeirra á Evróputúrinn að þessu sinni.

Golf 1 hefir þegar kynnt þá 4, sem rétt sluppu inn á Evróputúrinn: Jean Babtiste Gonnet frá Frakklandi, Dale Whitnell frá Englandi og Svíana Niklas Lemke og Rikard Karlberg. Þessir 4 deildu 25. sætinu, léku allir á samtals 12 undir pari, 416 höggum. Eins hefir Golf 1 kynnt þann sem varð í 24. sætinu, Toby Tree frá Englandi.

Næst verða kynntir þeir 8 kylfingar sem deildu 17. sætinu en það eru: Sihwan Kim frá Bandaríkjunum, Pedro Figueiredo frá Portúgal, Jonathan Caldwell frá N-Írlandi, Bradley Dredge, frá Wales; Englendingurinn Dave Coupland; Darren Fichardt, Lars Van Meijel frá Holland og Toby Tree frá Englandi. Allir léku þeir á samtals 13 undir pari, 415 höggum. Allir nema þeir Figueiredo og Kim hafa verið kynntir og í dag er það Pedro Figueiredo frá Portúgal, sem varð í 18. sæti, sem verður kynntur.

Pedro Figueiredo oft kallaður Figgy af enskumælandi golffréttamönnum, fæddist 13. júní 1991 og er því 28 ára.

Hann er 1.8 m á hæð. Figgy býr í dag í höfuðborg Portúgal, Lissabon.

Meðal hápunkta á áhugamannsferli Figgy var að hann sigraði í Boys Amateur Championship og Irish Amateur Open Championship árið 2008.

Figgy spilaði í bandaríska háskólagolfinu með UCLA þ.e. University of California, Los Angeles.

Eftir útskrift árið 2013 og eftir að hafa tekið þátt í Palmer Cup það ár gerðist Figueiredo atvinnumaður í golfi.

Figueiredo spilaði á Áskorendamótaröð Evrópu (ens.: Challenge Tour) á árunum 2013-2016 með litlum árangri. Árið 2017 lék hann á Pro Golf mótaröðinni. Jafnvel þó hann hafi ekki unnið mót á þeirri mótaröð, átti hann stöðugt og gott tímabil þar sem hann varð þrívegis í 2. sæti og 10 aðra topp-10 árangra. Hann lauk þessu keppnistímabili í 4. sæti á stigalistanum og ávann sér sæti á Áskorendamótaröðinni að nýju 2018.

Í júní 2018 sigraði Figueiredo á KPMG Trophy í Belgíu eftir bráðabana við þá Anton Karlsson og Stuart Manley, með fugli á fyrstu holu. Tveimur vikum síðar varð hann í 3. sæti á SSE Scottish Hydro Challenge. Hann lauk keppnistímabilinu í 15. sæti á stigalistanum, síðasta sætinu til þess að öðlast sæti á Evróputúrnum keppnistímabilið 2019. Hann setti niður 12 feta fugla-pútt á lokahlu Challenge Tour Grand Final og var með 600 meira í verðlaunafé en Tom Murray.

Eftir góðan árangur á lokaúrtökumótinu 2019 endurnýjar Figueiredo því veru sína á Evróputúrnum. Hann þykir einn besti kylfingur Portúgal.