Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 23. 2020 | 18:00

Nýju strákarnir á Evróputúrnum 2020: Sihwan Kim (12/28)

28 kylfingar tryggðu sér fullan spilarétt á Evrópumótaröðinni og mun Golf 1, líkt og á undanförnum vera með kynningu á þeim.

Meirihluti þeirra sem komst á Evróputúrinn, með þátttöku sinni í lokaúrtökumótinu eru reynsluboltar, sem margir hafa spilað á Evróputúrnum og í nokkrum tilvikum einnig bestu mótaröð í heimi PGA TOUR og voru þáttakendur í lokaúrtökumótinu því sérlega sterkir í ár.

Lokaúrtökumótið fór fram á Lumine golfstaðnum á Spáni, dagana 15.-20. nóvember 2019 að þessu sinni.

Í fyrsta sinn í golfsögunni voru 3 íslenskir keppendur á lokaúrtökumótinu: Andri Þór Björnsson, GR; Bjarki Pétursson,GB og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR. Því miður komst enginn þeirra á Evróputúrinn að þessu sinni.

Golf 1 hefir þegar kynnt þá 4, sem rétt sluppu inn á Evróputúrinn: Jean Babtiste Gonnet frá Frakklandi, Dale Whitnell frá Englandi og Svíana Niklas Lemke og Rikard Karlberg. Þessir 4 deildu 25. sætinu, léku allir á samtals 12 undir pari, 416 höggum.

Næst verða kynntir þeir 8 kylfingar sem deildu 17. sætinu en það eru: Sihwan Kim frá Bandaríkjunum, Pedro Figueiredo frá Portúgal, Jonathan Caldwell frá N-Írlandi, Bradley Dredge, frá Wales; Englendingurinn Dave Coupland; Darren Fichardt, Lars Van Meijel frá Holland og Toby Tree frá Englandi. Allir léku þeir á samtals 13 undir pari, 415 höggum. Allir nema Kim hafa verið kynntir og í dag er það Sihwan Kim frá Bandaríkjunum, sem varð í 17. sæti, sem verður kynntur.

Sihwan Kim fæddist 4. desember 1988 í Seúl, S-Kóreu og er því 31 árs.  Hann veit það líklegast ekki en hann á sama afmælisdag og Valdís Þóra „okkar“ Jónsdóttir.

Sihwan Kim er 1,85 m á hæð og 86 kg.

Hann sté í fótspor sjálfs Tiger Woods, en einnig David Duval og Hunter Mahan, þegar hann sigraði á US Junior Amateur Championship árið 2004.

Hann fór að ráðum pabba vinar síns, Peter Uihlein, þ.e. Titleist viðskiptajöfursins Walter Uihlein að byrja á Áskorendamótaröð Evrópu.

Það reyndist góð ákvörðun fyrir Sihwan Kim því hann varð í 9. sæti á stigalistanum 2013, á stöðugu tímabili hans þar sem hann varð 8 sinnum meðal efstu 10 í mótum þ.á.m. tvívegis í 2. sæti.

Sihwan Kim hefir stöðugt verið að bæta sig og er nú að spila á Evróputúrnum keppnistímabilið 2020.

Sem stendur er Sihwan Kim nr. 307 á heimslistanum.