Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 11. 2013 | 16:00

Nýju strákarnir á PGA 2013: Ross Fisher – (25. grein af 26)

Hér verður fram haldið með að kynna stuttlega efstu 26 kylfinganna í lokaúrtökumóti Q-school PGA, sem fram fór 28. nóvember – 3. desember 2012 í La Quinta, Kaliforníu og hlutu í kjölfarið kortið sitt þ.e. þátttökurétt á PGA Tour, 2013

Þeir sem efstir voru eða jafnir í fyrstu 25 sætunum hlutu keppnisrétt á PGA Tour 2013. Alls hlutu 26 kylfingar kortið sitt í gegnum Q-school PGA að þessu sinni og hafa þeir kylfingar sem voru í 4.-26. sæti allir verið kynntir hér á Golf 1.

Nú er komið að 2 strákum sem deildu 2. sætinu: Ross Fisher og Steve LeBrun  Byrjað var á Steve og nú er komið að Ross:

Ross Fisher

Ross Fisher

Ross Daniel Fisher fæddist 22. nóvember 1980 í Ascot Berkshire í Englandi. Klúbburinn sem hann tilheyrir á Englandi er með þeim frægari þar, Wentworth Golf Club í Surrey, Englandi, þar sem höfuðstöðvar European Tour eru. Sem barn var Ross í Charters School, sem er ríkisrekinn skóli rétt hjá Wentworth. Fisher komst fyrst á Evrópumótaröðina 2006. Hann vann sér inn kortið sitt með því að verða nr. 18 á peningalista Áskorendamótaraðarinnar, 2005.

Á nýliðaári Fisher á Evróputúrnum vann hann Jagúar bifreið fyrir að vera næstur holu í Quinn Direct British Masters 2006.

Ross Fisher

Ross Fisher

Árið 2007 sigraði Fisher í KLM Open, átti 1 högg á Joost Luiten og varð það ár í 43. sæti á peningalistanum. Fisher hóf 2008 árið með því að verða jafn öðrum í 2. sæti á HSBC Champions mótinu í Shanghaí, en laut í lægra haldi gegn Phil Mickelson í 3 manna bráðabana, sem Lee Westwood var einnig í.

Í júlí 2008 vann Fisher European Open á Heritage golfvellinum í The London Golf Club; sem þá fór í fyrsta skipti fram í Kent, Englandi. Þrátt fyrir að hafa aldrei spilað völlinn eða í mótinu eða vera í æfingu var Fisher á 63 höggum á fyrsta hring, sem var lægsti hringurinn á ferli hans til þessa en það sem hjálpaði var m.a. að hann átti 413 yarda teighögg í meðvindi á 9. holu á síðasta degi mótsins.  Hann vann mótið og átti 7 högg á þann sem næstur kom, Sergio Garcia. Hann spilaði stöðugt það sem eftir var keppnistímabilsins og varð í 6. sæti á peningalistanum.

Ross Fisher

Ross Fisher

Fisher tók framförum 2009 þegar hann komst í undanúrslit í WGC-Accenture Match Play Championship í Arizona, tapaði fyrir landa sínum Paul Casey 4&3. Fisher varð einnig í 2. sæti á BMW PGA Championship í Wentworth Club eftir að hafa verið á 64 höggum á lokahringnum, þar sem hann fékk 6 fugla á fyrstu 12 holurnar. Fisher var aðeins 1 höggi frá því að setja nýtt vallarmet á Wentworth og var 1 höggi á eftir sigurvegaranum, Paul Casey.

Fisher var meðal þeirra sem kepptu til úrslita 2009 á Opna bandaríska á Bethpage Black í New York, þar til hann þrípúttaði og fékk skolla á par-3 17. brautinni. Hann lauk keppni í 5. sæti, 3 höggum á eftir sigurvegaranum Lucas Glover. Í næsta mánuði á 138. Opna breska í Turnberry var Fisher með 2 högga forystu á snemma á lokahringnum, áður en hann fékk fjórfaldan skolla, þ.e. 8 högg á par-4 5. holunni eftir að hafa drævað inn í karga hægra megin við holuna. Hann lauk keppni T-13. 

Árið 2009 var Fisher með lægsta samantalda skor í risamótunum 4, af þeim keppendum sem náðu niðurskurði í öllum 4 mótum. Samanlagða skor Fisher var 2 höggum betra en það sem Henrik Stenson var með. Í lok árs 2009 avnn Fisher Volvo World Match Play Championship, þegar hann vann Anthony Kim 4&3 á lokaholunum í Finca Cortesin golfklúbbnum á Spáni. Hann lauk keppnistímabilinu í 4. sæti á peningalistanum.

Ross og fjölskylda eftir sigurinn á Irish Open

Fisher hafði frábært tækifæri á hring upp á 59 högg og skrifa sig í sögubækur Evrópumótaraðarinnar á 3. Irish Open í Killarney, 30. júlí 2010 þegar hann var 10 undir pari og átti bara eftir að spila 4 holur og varð aðeins að  ná fugli á tveimur af holunum 4, en hann paraði þær allar og var á 61 höggi. Hann vann mótið á samtals 18 undir pari, 266 höggum.

Fisher komst í Ryder Cup lið Evrópu 2010 sem náði bikarnum aftur frá Bandaríkjunum í Celtic Manor, Wales, 4. október það ár.

Og nú er Fisher kominn með kortið sitt á PGA Tour eftir frækilega frammistöðu á lokaúrtökumóti Q-school!

Ross Fisher - faðir í fyrsta sinn!

Ross Fisher – faðir í fyrsta sinn!

Að lokum er vert að geta þess að Ross Fisher er kvæntur henni Joanne sinni og á með henni tvö börn, Eve og Harry.