Ragnheiður Jónsdóttir | september. 7. 2019 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA 2020: Tyler McCumber (2/50)

Eins og á undanförnum árum mun Golf 1 kynna „Nýju strákana“ á PGA Tour. Nú verða kynntir „nýju strákarnir“ keppnistímabilið 2019-2020 til sögunnar, en það eru sem fyrr efstu 25 á peningalista Korn Ferry Tour eftir 2018-2019 keppnistímabilið og síðan þeir 25 sem stóðu sig best í síðustu 3 mótunum á mótaröðinni þ.e. í Korn Ferry Tour Finals.

Fyrst verða kynntir þeir 25, sem urðu efstir á stigalista Korn Ferry Tour eftir reglulega tímabilið og hlutu þannig kortin sín á mótaröð þeirra bestu, PGA Tour, fyrst var kynntur sá sem varð í 25. sæti og rétt slapp inn á mótaröðina og síðan endað á þeim sem landaði 1. sæti stigalistans, Scottie Scheffler, með 2935 stig.

Síðan verða kynntir þeir 25 sem komust á PGA Tour gegnum Korn Ferry Tour Finals.

Í dag verður kynntur sá kylfingur varð í 24. sæti eftir reglulega tímabilið, Tyler McCumber, sem var með 791 stig á stigalista Korn Ferry Tour.

Tyler McCumber fæddist 4. apríl 1991 á Ponte Vedra Beach, Flórída og er því 28 ára.

Tyler er sonur Mark McCumber, sem sigraði árið 1988 á Players mótinu og sigraði alls 10 sinnum á PGA Tour. Mark McCumber, pabbi Tyler, á afmæli í dag og er einn af afmæliskylfingum hér á Golf 1.

Tyler McCumber er 1.8 m á hæð og 79 kg.

Á háskólaárum sínum var McCumber í bandaríska háskólagolfinu og lék golf með University of Florida.

McCumber gerðist atvinnumaður eftir útskrift úr háskóla 2013og sigraði þegar þetta ár á fyrsta atvinnumannsmóti sínu, Florida Open.

Tyler McCumber lék fyrsta keppnistímabilið (2014) á PGA Tour Latinoamerica og sigraði þar það ár á Ecuador Open.

Hann sigraði í 2. sinn á TransAmerican Power Products CRV Mazatlán Open í október 2014. Hann varð einnig í 4. sæti á Argentine Open, í 5. sæti á Lexus Panama Classic og 8. sæti á Mundo Maya Open og vann sér inn US$86,164 og 3. sætið á stigalistanum. Vegna þessa góða árangurs var Tyler McCumber kominn á Web.com Tour árið 2015.

Tyler McCumber spilaði á fyrsta PGA Tour móti sínu árið 2018 á Corales Puntacana Resort and Club Championship eftir að hafa komist í gegnum úrttökumót.

Hann sigraði þrívegis á Mackenzie Tour á  2018 og var efstur á stigalista þeirra mótaraðar og vann sér þannig keppnisrétt á Korn Ferry Tour 2019. Þar náði hann eins og segir að vera í 22. sæti stigalistans, með 791 stig og er því kominn á PGA Tour, keppnistímabilið 2019-2020.