Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 1. 2019 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA 2020: Brandon Hagy (48/50)

Eins og á undanförnum árum mun Golf 1 kynna „Nýju strákana“ á PGA Tour. Nú verða kynntir „nýju strákarnir“ keppnistímabilið 2019-2020 til sögunnar, en það eru sem fyrr efstu 25 á peningalista Korn Ferry Tour eftir 2018-2019 keppnistímabilið og síðan þeir 25 sem stóðu sig best í síðustu 3 mótunum á mótaröðinni þ.e. í Korn Ferry Tour Finals.

Nú hafa verið kynntir þeir 25, sem urðu efstir á stigalista Korn Ferry Tour eftir reglulega tímabilið og hlutu þannig kortin sín á mótaröð þeirra bestu, PGA Tour. Eins hafa verið kynntir allir 25, sem urðu efstir á Korn Ferry Tour Finals, nema 3 efstu og verða þeir kynntir nú í dag og um nk. helgi.

Í dag verður kynntur sá sem varð í 3. sæti á Korn Ferry Tour Finals en það er Brandon Hagy, sem var með 700 stig.

Brandon Hagy fæddist í Santa Monica, Kaliforníu, 21. mars 1991 og er því 28 ára.

Hann er 1,8 m á hæð og 77 kg.

Hagy lék í 4 ár með golfliði University of California, Berkeley í bandaríska háskólagolfinu.

Árið 2014 meðan enn í háskóla vann hann Byron Nelson verðlaunin. Eftir útskrift 2014 gerðist Hagy atvinnumaður í golfi.

Árið 2014 tók hann þátt í Q-school Web.com Tour (undanfara Korn Ferry Tour) en komst ekki á lokastigið og var því ekki með status á neinni af stóru mótaröðunum.

Hins vegar tók hann óþreyttur þátt í úrtökumótum og gegnum boð styrktaraðila fékk hann að spila í 6 Web.com mótum og 8 PGA Tour mótum árið 2015.  Meðal PGA Tour mótanna sem hann spilaði í var Opna bandaríska en komst ekki í gegnum niðurskurð. Þetta er eina risamótaþátttaka Hagy til þessa.

Hagy varð í 79. sæti á lokastigi Web.com Tour Q School árið 2015 og hlaut þannig takmarkaðan þátttökurétt 2016 á  Web.com Tour. Hagy nýtti sér þátttökurétt sinn vel. Hann varð 5 sinnum meðal efstu 10 í þeim 16 mótum sem hann spilaði í og varð í 19. sæti á peningalistanum eftir hefðbundið keppnistímabil og komst þannig í fyrsta sinn á PGA Tour árið 2017.

Ekki var litið á Hagy sem nýliða á PGA Tour 2017, þar sem hann lék í 8 PGA Tour mótum 2015 (sem var meira en þau 7 mót sem eru leyfileg til að viðhalda nýliðastatus). Hann varð meðal 5 efstu á RBC Canadian Open, sem kom honum í  2017 FedEx Cup Playoffs þar sem hann varð í 113. sæti og hélt korti sínu á PGA Tour 2018.

Hagy missti af keppnistímabilinu 2018 að mestu leyti vegna úlnliðsmeiðsla. Hann lék aðeins í 3 mótum, þar sem besti árangur hans var T18 á Sanderson Farms Championship. Hann vantaði aðeins 215 stig til þess að viðhalda korti sínu. Í byrjun 2019 keppnistímabilsins spilaði hann á læknisundanþágu – og nú varð hann í 3. sæti á Korn Ferry Finals og heldur því spilaréttindum 2020.

Sjá má allar frekari upplýsingar um Hagy á heimasíðu hans – með því að SMELLA HÉR: