Sam Burns
Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 19. 2019 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA Tour 2019: Sam Burns (24/50)

Eins og á undanförnum árum mun Golf 1 kynna „Nýju strákana“ á PGA Tour keppnistímabilið 2018-2019 til sögunnar, en það eru sem fyrr efstu 25 á peningalista Web.com Tour eftir 2017-2018 keppnistímabilið og síðan þeir 25 sem stóðu sig best í síðustu 4 mótunum á mótaröðinni þ.e. í Web.com Finals.

Fyrst verður byrjað að kynna þá 25 sem urðu efstir á peningalista Web.com Tour eftir reglulega tímabilið og verður nú kynntur sá sem varð í 2. sæti peningalistans, Sam Burns frá Bandaríkjunum. Eftir að efstu 25 á peningalista Web.com Tour hafa verið kynntir verða þeir 25 kynntir sem urðu efstir á Web.com Finals.

Samuel (Sam) Holland Burns fæddist 23. júlí 1996 í  Shreveport, Louisiana og er því aðeins 22 ára.

Hann veit það líklegast ekki en hann á sama afmælisdag og Vikar Jónasson, GK og er aðeins 1 ár á milli þeirra, en Vikar er fæddur 1997.

Burns var í bandaríska háskólagolfinu þar sem hann spilaði með golfliði Louisiana State University.

Í dag býr Burns í Tyler, Texas. Hann komst á Web.com Tour í fyrstu tilraun og sló rækilega í gegn þar.

Á 2017-2018 keppnistímabili Web.com Tour varð Burns 5 sinnum meðal efstu 10 og þar af sigraði hann í 1 móti.

Þetta varð til þess að hann náði að verða í 2. sæti peningalista Web.com Tour og er því kominn á mótaröð þeirra bestu 2019.