Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 27. 2019 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA Tour 2019: Sungjae Im (25/50)

Eins og á undanförnum árum mun Golf 1 kynna „Nýju strákana“ á PGA Tour keppnistímabilið 2018-2019 til sögunnar, en það eru sem fyrr efstu 25 á peningalista Web.com Tour eftir 2017-2018 keppnistímabilið og síðan þeir 25 sem stóðu sig best í síðustu 4 mótunum á mótaröðinni þ.e. í Web.com Finals.

Fyrsta verða kynntir 25 sem urðu efstir á peningalista Web.com Tour eftir reglulega tímabilið og verður nú kynntur sá sem varð í 1. sæti peningalistans, Sungjae Im frá Suður-Kóreu. Eftir að efstu 25 á peningalista Web.com Tour hafa verið kynntir verða næst kynntir þeir 25,  sem urðu efstir á Web.com Finals.  Hér er því kynning á þeim síðasta af 25 sem efstir urðu á peningalistanum eftir reglulega tímabilið, en í dag er sigurvegarinn kynntur.

Sungjae Im fæddist 30. mars 1998 á Jeju eyju í Suður-Koreu og er því 20 ára.

Þrátt fyrir ungan aldur gerðist Im atvinnumaður 2015 þ.e. 17 ára.

Fyrstu tvö ár sín sem atvinnumaður spilaði Im á japanska PGA túrnum og jafnframt heima fyrir í Kóreu. Besti árangur hans í Japan var T-2 árangur á Mynavi ABC Championship. Hann lauk keppnistímabilinu á japanska PGA í 12. sæti peningalistans og var í 5. sæti yfir besta meðalskor. Hann spilaði líka eins og segir á kóreanska PGA og eins þar var besti árangur hans T-2 árangur á Gswing Mega Open, 2017.

Im tók þátt í Q-school fyrir Web.com Tour í desember 2017 og varð í 2. sæti; átti m.a. glæsi 3. hring upp á 60 högg!!! Þessi árangur tryggði honum sæti á Web.com Tour árið 2018.

Im sigraði 2 sinnum á Web.com Tour keppnistímabilið 2018 og varð þar að auki þrívegis í 2. sæti og tróndi því á peningalista Web.com Tour og spilar nú 2019 á mótaröð þeirra bestu, PGA Tour.  Fyrsti sigur Im kom á The Bahamas Great Exuma Classic,en þá var hann 19 ára 292 daga og var 2. yngsti sigurvegari Web.com Tour. Aðeins Jason Day, var yngri þegar hann sigraði á mótaröðinni þ.e. 19 ára, 238 daga.

Mótin sem Im varð í 2. sæti á Web.com Tour 2018 voru: The Bahamas Great Abaco Classic, the Knoxville Open og the Pinnacle Bank Championship.

Síðan rúllaði Im upp öðrum sigri á WinCo Foods Portland Open.

Það kemur víst fáum á óvart að Im var valinn leikmaður ársins á Web.com Tour 2018.

Besti árangur Im á risamóti er T-42 á PGA Championship 2018.

Vegferð þessa unga kóreanska kylfings hefir verið skjót og vonandi að Im nái fótfestu meðal þeirra allra bestu á PGA Tour!

Búist er við miklu af Im!