Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 22. 2018 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2019: Dana Finkelstein (1/58)

Hér verða líkt og á undanförnum árum kynntar þær stúlkur sem hlutu kortin sín á LPGA fyrir 2019 keppnistímabilið.

Þetta eru þær sem urðu í 45. sæti eða voru jafnar í 45. sæti á lokaúrtökumóti LPGA og efstu 10 á peningalista 2. deildarinnar þ.e. Symetra Tour.

Byrjað verður að kynna 10 efstu á peningalista Symetra Tour og síðan 45 efstu og þær sem jafnar voru í 45. sætinu á lokaúrtökumóti LPGA. Í ár voru 48 stúlkur sem komust á LPGA gegnum lokaúrtökumótið og þær ásamt þeim 10 sem efstar urðu á peningalista Symetra Tour eða alls 58 stúlkur verða því kynntar hér á næstu mánuðum.

Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir tók þátt í lokaúrtökumóti LPGA en varð ekki meðal efstu 45 og er því ekki með spilarétt á LPGA næsta keppnistímabil.

Sú sem fyrst verður kynnt hér er stúlka sem varð í 10. sæti á peningalista Symetra Tour og er þannig komin með fullan spilarétt á LPGA. Þetta er Dana Finkelstein, en hún vann sér inn $60,168 í verðlaunafé í mótum Symetra Tour.

Dana fæddist 6. janúar 1993 í Chandler, Arizona og er því 25 ára. Hún er dóttir Jay and Stacey Finkelstein og á eina yngri systur Rachel. Dana er ekki há í loftinu, reyndar alger písl, aðeins 1,55 m á hæð.

Dana byrjaði að spila golf 13 ára. Hún var í Corona del Sol Highschool í Arizona og spilaði golf í menntaskóla.  Meðal áhugamála hennar eru líkamsrækt, að lesa, listir og vídeóleikir.

Dana var í bandaríska háskólagolfinu og lék með golfliði The University of Nevada, Las Vegas (UNLV), þaðan sem hún útskrifaðist 2015, með gráðu í hreyfifræðivísindum (kinesiological sciences).

Hún komst á LPGA 2017 en stóð sig ekki nógu vel og spilaði á Symetra Tour 2018. Dana varð tvívegis í 2. sæti á mótum Symetra Tour 2018 og auk þess 11 sinnum meðal efstu 20 og því hlýtur hún 10. sætið á peningalista Symetra Tour, með $60,168 eftir 2018.

Hún var með besta meðalskor á par-3 holum á Symetra  (2.892) og best í nákvæmni dræva eða 84,9%.

Um það að spila aftur á LPGA Tour 2019 sagði Dana m.a. í nýlegu viðtali: „Það hefir mikla þýðingu fyrir mig að spila aftur á LPGA 2019 keppnistímabilið. Eftir að hafa spilað á LPGA 2017 þá finnst mér ég betur undirbúin nú og ég er spennt fyrir hvað bíður mín á næsta ári. Ég er tilbúin að keppa við þær bestu í heiminum aftur.“