Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 30. 2018 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2019: Kendall Dye (4/58)

Hér verða líkt og á undanförnum árum kynntar þær stúlkur sem hlutu kortin sín á LPGA fyrir 2019 keppnistímabilið.

Þetta eru þær sem urðu í 45. sæti eða voru jafnar í 45. sæti á lokaúrtökumóti LPGA og efstu 10 á peningalista 2. deildarinnar þ.e. Symetra Tour.

Byrjað verður að kynna 10 efstu á peningalista Symetra Tour og síðan 45 efstu og þær sem jafnar voru í 45. sætinu á lokaúrtökumóti LPGA. Í ár voru 48 stúlkur sem komust á LPGA gegnum lokaúrtökumótið og þær ásamt þeim 10 sem efstar urðu á peningalista Symetra Tour eða alls 58 stúlkur verða því kynntar hér á næstu mánuðum.

Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir tók þátt í lokaúrtökumóti LPGA en varð ekki meðal efstu 45 og náði því ekki að endurnýja kortið sitt og fastan keppnisrétt á LPGA næsta keppnistímabil.

Sú sem kynnt verður hér er stúlka sem varð í 7. sæti á peningalista Symetra Tour og er þannig komin með fullan spilarétt á LPGA. Þetta er Kendall Dye, en hún vann sér inn $63,579 í verðlaunafé í mótum Symetra Tour. Áður hafa, Charlotte Thomas (8. sæti), Isi Gabsa (9. sæti) og Dana Finkelstein (10. sæti) verið kynntar.

Kendall Dye  fæddist 3. mars 1987 í Memphis, Tennessee og er því 31 árs. Kendall byrjaði að spila golf 8 ára. Meðal áhugamála hennar er að horfa á kvikmyndir, fara í verslunarleiðangra, lesa og háskólaíþróttir. Hún segir fjölskyldu sína hafa haft mest áhrif á að hún byrjaði í golfi.

Kendall var í University of Oklahoma og útskrifaðist með gráðu í samskiptafræðum (ens.: Communications) árið 2009. Kendall býr í Edmond, Oklahoma.

Eftir útskrift í Oklahoma spilaði Recorded Kendall m.a. á Cactus Tour, þar sem Tinna „okkar“ Jóhannsdóttir spilaði einnig á eftir útskrift. Kendall sigraði í tveimur mótum á Cactus Tour. Næstu 2 árin spilaði hún á LPGA Futures Tour þ.e. 2010 og 2011 og var besti árangur hennar þar 5. sætið á South Shore Championship í Crown Point, Indíana.

Árið 2012 spilaði Kendall á Evrópumótaröð kvenna. Á undanförnum árum hefir hún hins vegar spilað á Symetra Tour þ.e. 2. deildinni í bandarísku kvennagolfi.

Það munaði aðeins 1 höggi á Dye næði kortinu sínu og fullum spilarétti á LPGA.

Til þess að fræðast nánar um Kendall Dye má m.a. skoða heimasíðu hennar með því að SMELLA HÉR: