Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 26. 2019 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2019: Sophia Popov (22/58)

Hér verða líkt og á undanförnum árum kynntar þær stúlkur sem hlutu kortin sín á LPGA fyrir 2019 keppnistímabilið. Þetta eru þær sem urðu í 45. sæti eða voru jafnar í 45. sæti á lokaúrtökumóti LPGA og efstu 10 á peningalista 2. deildarinnar þ.e. Symetra Tour.

Í ár voru 48 stúlkur sem komust á LPGA gegnum lokaúrtökumótið og síðan einnig þær 10, sem efstar urðu á peningalista Symetra Tour eða alls 58 stúlkur.

Hér hafa 10 efstu á peningalista Symetra Tour verið kynntar sem og þær sem jafnar voru í 45. sætinu á lokaúrtökumóti LPGA, en það eru þær Karen Chung, frá Bandaríkjunum; P.K. Kongkraphan frá Thaílandi; Louise Strahle frá Svíþjóð og Robyn Choi frá Ástralíu.

Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir tók þátt í lokaúrtökumóti LPGA en varð ekki meðal efstu 45 og náði því ekki að endurnýja kortið sitt og fastan keppnisrétt á LPGA næsta keppnistímabil.

Það voru 6 stúlkur, sem deildu 39. sætinu og hafa þær einnig verið kynntar en það eru: Lee Lopez, Sandra Changkija, Lauren Coughlin og Stephanie Kono frá Bandaríkjunum; Pajaree Anannarukarn frá Thaílandi og Guilia Molinaro frá Ítalíu. Þessar 6 léku allar á samtals 9 yfir pari á lokaúrtökumótinu, hver.

Þær sem deildu 36. sætinu eru: Suzuka Yamaguchi frá Japan; Louise Ridderström frá Svíþjóð og Sophiu Popov frá Þýskalandi. Louise Ridderström hefir þegar verið kynnt og í dag er það Sophia Popov.

Sophia Popov fæddist í Framingham, Massachusetts, 2. október 1992 og er því 25 ára.

Sophia komst bæði í gegnum úrtökumót LPGA og Evrópumótaraðar kvenna (LET) árið 2015 sem er frábær árangur, reyndar landaði Sophia 3. sætinu á Lalla Aicha Tour School í Marokkó og hlaut fullan keppnisrétt 2015 á LET en aðeins takmarkaðan spilarétt á LPGA eins og í þetta skiptið.

Í dag býr Popov í Naples, Flórída. Þrátt fyrir fæðingarstað sinn er Popov þýskur ríkisborgari.

Hún gerðist atvinnumaður í golfi 14. júlí 2014 og hefir átt sæti í þýska golflandsliðinu frá árinu 2007.

Popov átti glæstan feril sem áhugamaður en hún vann m.a. í 10 sterkum áhugamannamótum, sem áhugamaður.

Popov segir uppáhaldsgolfvöll sinn vera Cypress Point í Bandaríkjunum.

Sterkustu þættirnir í leik hennar eru drævin og löngu járnin og nokkuð sérstakt við Popov er að hún notar Kramski pútter.

Þjálfari Popov er Stephan Morales.

Popov er með marga sterka styrktaraðila m.a. Allianz, þýska golfsambandið og Cobra Puma golf.