Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 15. 2019 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2019: Stephanie Kono (19/58)

Hér verða líkt og á undanförnum árum kynntar þær stúlkur sem hlutu kortin sín á LPGA fyrir 2019 keppnistímabilið. Þetta eru þær sem urðu í 45. sæti eða voru jafnar í 45. sæti á lokaúrtökumóti LPGA og efstu 10 á peningalista 2. deildarinnar þ.e. Symetra Tour.

Í ár voru 48 stúlkur sem komust á LPGA gegnum lokaúrtökumótið og síðan einnig þær 10, sem efstar urðu á peningalista Symetra Tour eða alls 58 stúlkur.

Hér hafa 10 efstu á peningalista Symetra Tour verið kynntar sem og þær sem jafnar voru í 45. sætinu á lokaúrtökumóti LPGA, en það eru þær Karen Chung, frá Bandaríkjunum; P.K. Kongkraphan frá Thaílandi; Louise Strahle frá Svíþjóð og Robyn Choi frá Ástralíu.

Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir tók þátt í lokaúrtökumóti LPGA en varð ekki meðal efstu 45 og náði því ekki að endurnýja kortið sitt og fastan keppnisrétt á LPGA næsta keppnistímabil.

Það voru 6 stúlkur, sem deildu 39. sætinu en það eru: Lee Lopez, Sandra Changkija, Lauren Coughlin og Stephanie Kono frá Bandaríkjunum; Pajaree Anannarukarn frá Thaílandi og Guilia Molinaro frá Ítalíu. Þessar 6 léku allar á samtals 9 yfir pari á lokaúrtökumótinu, hver. Pajaree Anannarukarn, Lauren Coughlin, Guilia Molinaro og Sandra Changkija hafa þegar verið kynntar og í dag er það Stephanie Kono, sem verður kynnt.

Stephanie Kono fæddist 27. nóvember 1989 og er því 29 ára.

Hún byrjaði að spila golf 6 ára. Stephanie segir foreldra sína hafa haft mest áhrif á feril sinn.

Meðal áhugamála utan golfsins segir hún að sé að ferðast, lesa og versla.

Ef hún gæti verið í hvaða sjónvarpsþætti sem hún vildi þá myndi hún helst vilja vera í Jeopardy vegna þess að henni finnst sá þáttur heillandi.

Stephanie spilaði golf í UCLA í bandaríska háskólagolfinu og gerðist atvinnukylfingur 2011.

Árinu þar áður var hún í US Curtis Cup liðinu. Hún komst í gegnum Q-school LPGA í fyrstu tilraun, árið 2012 og hefir spilað meira og minna þar síðan.