Ragnheiður Jónsdóttir | október. 7. 2014 | 08:00

Ólafur Björn sáttur við spilamennskuna í óvenjulegum aðstæðum

Ólafur Björn Loftsson, NK og Axel Bóasson taka þátt í úrtökumóti í Nordic Golf League, á Ecco túrnum danska, en mótið fer fram í Skjoldenæsholm Golf Center, í Danmörk. Þátttakendur eru 79.

Ólafur Björn og Axel voru á fremur háum skorum miðað við hvað maður er vanur að sjá hjá þeim félögum; Ólafur Björn 77 og Axel 79.

Samt er Ólafur Björn ánægður með leik sinn en um fyrsta hringinn í úrtökumótinu skrifaði Ólafur Björn eftirfarandi á facebook síðu sína:

„Fyrri hringur úrtökumótsins hér í Danmörku fór fram við afar óvenjulegar aðstæður. Þetta hljómar einkennilega en ég var tiltölulega sáttur við spilamennsku mína í dag, lék á 77 (+5) höggum. Ég er jafn í 13. sæti en skorið var gríðarlega hátt, enginn undir pari og meðalskorið var 82 högg. Þrátt fyrir að nokkrir teigar voru færðir framar og það voru leyfðar færslur á öllum brautum um kylfulengd og öllum flötum um skorkortslengd var ekkert auðvelt í þessu mikla roki. Mér tókst að halda boltanum vel í leik og fékk einungis eitt víti sem kom á síðustu holunni en holan var ósanngjörn fyrir höggstyttri kylfingana og lítið hægt að svekkja sig. Ég er í ágætismálum fyrir lokahringinn, held áfram með sama leikplan á morgun og vona að ég fái fleiri pútt til að detta. Veðurspáin er ennþá verri fyrir morgundaginn en ég mun halda áfram að taka á móti áskorununum með jákvæðum huga. Fer út kl. 09:50 í fyrramálið.“

Sjá má stöðuna eftir 1. dag í Skjoldenæsholm Golf Center með því að SMELLA HÉR: