Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 7. 2013 | 07:00

PGA: Enn frestar hvassviðri leik í Hawaii

Í gær hófst loks leikur á Hyundai Tournament of Champions, fyrsta móti ársins á PGA Tour í Hawaii, en aðeins 1 klst eftir að fyrstu leikmenn fóru út ákváðu mótshaldarar að aðstæður til golfleiks væru óhæfar.

Enn er haldið við planið frá því á laugardaginn þ.e. enn á að spila 54 holur; breytingin er sú að 36 verða spilaðar í dag og ljúka á mótinu með 18 holu hring á þriðjudag.

„Augljóslega verður veðrið að spila með,“ sagði Andy Pazder, yfirmaður mótaframkvæmda á PGA mótaröðinni.  „Þetta verður alveg á mörkunum á morgun. Veðurfræðingar spá 25-30 mílu vindhviðum/klst, sem við getum rétt svo spilað í.“

Steve Stricker var í þann veginn að slá af teig ásamt Brandt Snedeker þegar leikur var flautaður af í gær. Af þeim 26 sem voru á vellinum var aðeins Jason Dufner undir pari þ.e. 1 undir pari eftir 5 holu leik.

Matt Kuchar og Webb Simpson byrjuðu á 10. holu og Kuchar sagði að boltinn hefði „vaggað“ þegar hann tíaði honum upp.  Simpson grínaðist með það að svo virtist sem þeir gætu bara ekki byrjaði.  Kuchar setti boltann sinn aftur á tíið en vindurinn blés boltann af tíinu að nýju og eins feyktust nokkrir áhorfendur til.

Það er vonandi að betur gangi í dag og mótinu verði ekki frestað í 4. sinn!  Sjá má fréttamyndskeið með Amöndu Ballonis og félögum á PGA Tour Today um m.a. veðuraðstæðurnar á Kapalua, Hawaii, með því að  SMELLA HÉR: