Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 28. 2024 | 07:00

PGA: Vegas leiðir á 3M Open f. lokahringinn

Það er Jhonnatan Vegas frá Venezuela, sem leiðir fyrir lokahringinn á móti vikunnar á PGA Tour, 3M Open.

Mótið fer fram dagana 25.-28. júlí 2024 á TPC Twin Cities, í Blaine, Minnesota og lýkur í dag.

Jhonnatan er búinn að spila á samtals 16 undir pari, 197 höggum (68 66 63). Hann verður að standa sig vel því það eru aðeins 5 mót eftir af tímabilinu og hann þarfnast sárlega sigurs til að vera öruggur um kortið sitt á PGA Tour.

Jhonattan fæddist í Maturín, Venezuela 19. ágúst 1984 og er  því að verða 40 ára. Hann spilaði með golfliði University of Texas, gerðist atvinnumaður í golfi 2008 og fór að spila á Nationwide Tour 2009. Hann á einn sigur í beltinu á Nationwide Tour (sem nú heitir Web.com Tour) þ.e. á Preferred Health Systems Wichita Open og eins sigraði hann í móti á suður-ameríska túrnum, Tour de las Américas; Abierto de la República.

Jhonattan skaust upp á frægðarhiminn golfsins þegar hann sigraði Bob Hope Classic þ.e. 1. mótið sitt á PGA Tour 23. janúar 2011, eftir sigur á Billy Haas og Gary Woodland í bráðabana. Þetta var í 5. sinn sem Vegas tók þátt í móti á PGA Tour og í 2. sinn sem fullgiltur félagi PGA Tour. Hann var sá fyrsti frá Venezuela til að sigra á PGA Tour. Þetta tryggði honum m.a. þátttökurétt á the Masters risamótið til loka ársins 2013.  Jhonattan sigraði síðan á RBC Canadian Open tvö ár í röð þ.e. 2016 og 2017.  Sigurinn á 3M væri kækominn, eftir 7 ára eyðimerkurgöngu hvað sigra varðar!

Staða næstu manna á eftir Jhonnatan Vegas á 3M Open er eftirfarandi:

2. Matt Kuchar (-15)
3. Maverick McNealy (-14)
T4. Sahith Theegala, Patrick Fishburn (-12)
T6. Cam Davis, Adam Svensson, Matt NeSmith (-11)
T9. Matt Wallace, J.J. Spaun, Taylor Pendrith (-10)

Sjá má stöðuna í heild með því að SMELLA HÉR: