Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 5. 2015 | 19:00

Poulter tippar á Bubba Watson

Ian Poulter tippar á að Bubba Watson nái að verja titil sinn á Masters risamótinu, fyrsta risamóti ársins,  sem hefst í næstu viku.

Hann er sá sem flestir telja að muni sigra. Þetta (Augusta National) fellur bara svo vel að leik hans, þannig að maður býst við að sjá hann ofarlega á skortöflunni á sunnudaginn.“ sagði Poulter í viðtali við Sky Sports.

Í gegnum árin hefir sleggjunum gengið vel á þessum golfvelli, en sérstaklega þeim örvhentu,“ hélt Poulter áfram.

Bubba

Bubba

Phil (Mickelson) og Bubba eru báðir sleggjur og auk þess örvhentir, þannig þeir bara eru sigurstranglegri meðan þeir rétthentu verða að vera duglegir í að draga (ens. draw) boltann.

„Það eru nokkur lykilatriði sem verður að kunna á vellinum, þannig að þetta snýst um að æfa tiltekin högg.“

Watson hefir sigrað tvívegis á The Masters, 2012 og 2014 og nú er Rory McIlroy einnig meðal þeirra, sem taldir eru sigurstranglegastir en hann er að reyna við Grand Slam á ferli sínum (ens. career grand slam).

Rory er búinn að sigra á öllum hinum risamótunum, hann vantar bara sigur á Masters.

Við vissum augljóslega fyrir nokkrum árum þegar hann kom fyrst fram á Opna breska að þessi krakki (Rory) yrði góður, en augljóslega vissum við ekki hversu góður og hann er nr. 1 á heimslistanum núna og á það fyllilega skilið,“ sagði Poulter.

Það gerist u.þ.b. einu sinni á áratug eða á nokkurra áratuga fresti (að einhver eins og Rory kemur fram) og Rory er einn af þessum strákum sem er með eðlisgáfu í golfi. Það er tilkomumikið að horfa á hann og þegar hann er í góðu formi er hann eins góður og hver sem er sem á undan honum hefir verið.

Poulter sjálfur tekur þátt í The Masters í 10. sinn, en hann er einn þeirra sem aldrei hefir nælt sér í risatitil.  Kannski það breytist nú?  Við vitum að Augusta National verðlaunar reynslubolta (t.a.m. Angel Cabrera) alveg á við þá sem eru högglangir og örvhentir.  Poulter hefir a.m.k. keppnisskapið og það fleytir mönnum líka langt! Og svo er enginn sem býst við neinu af honum en það virðast alltaf vera einhverjir sem enginn býst við að muni vinna, sem sigra að lokum!