Ryder Cup 2018: Thorbjörn Olesen stóð sig vel í 1. Ryder bikars móti sínu!!!
Danski kylfingurinn Thorbjörn Olesen ávann sér sæti í Ryder liði vinar síns, landa og fyrirmyndar Thomas Björn, á síðustu stundu. Og það verður ekki annað sagt en að Thorbjörn hafi staðið sig vel í fyrsta Ryder bikars móti sínu.
Það eina var að hann á hvorki eiginkonu né kærustu, en WAGs evrópsku leikmannanna hópuðust allar í kringum þennan myndarlega Dana og þann eina sem var á lausu í liðinu – þetta er jú liðakeppni eftir allt saman og enginn sem stendur einn! (Sjá mynd í aðalmyndaglugga. Eiginkonur og kærustur evrópsku leikmannanna, sem stilltu sér upp kringum Thorbjörn Olesen eru að ofan f.v.: Emily Braisher (kærasta Tyrrell Hatton) Clare Fleetwood (eiginkona Tommy Fleetwood); Katie Poulter (eiginkona Ian Poulter); Valentina Molinari (eiginkona Francesco Molinari); Pollyanna Woodward, (kærasta Paul Casey) Caroline Harrington, (eiginkona Pádraig Harrington varafyrirliða); Ebba Karlsson, (eiginkona Robert Karlsson varafyrirliða); Kristin McDowell (eiginkona Graeme McDowell varafyrirliða); Grace Barber (kærasta Thomas Björn, fyrirliða); Erica Stoll McIlroy (eiginkona Rory McIlroy); (Neðri röð f.v.): Helen Storey (kærasta Lee Westwood, varafyrirliða), Angela Garcia (eiginkona Sergio Garcia), Kate Rose (eiginkona Justin Rose); THORBJORN OLESEN, Diane Donald (eiginkona Luke Donald, varafyrirliða) Jennifer Norén (eiginkona Alex Norén), Emma Stenson, (eiginkona Henrik Stenson) og Kelley Cahill (kærasta Jon Rahm).
Hann var paraður með Rory McIlroy í einum af fyrstu fjórboltaleikjum föstudagsmorgunsins og þeir félagar töpuðu fyrir þeim Dustin Johnson og Rickie Fowler 4&2.
Thomas hvíldi síðan nýliða sinn (Thorbjörn Olesen) vel og fékk Thorbjörn ekki að spila aftur fyrr en í tvímenningnum á sunnudeginum.
Hinn reyndari Rory fékk hins vegar að spila í fjórmenningi föstudagseftirmiðdagsins og var þar paraður með Ian Poulter en sú sögulega tvennd vann þá Bubba Watson og Webb Simpson 4&2 og átti sú frammistaða þátt í að staðan var 5:3 eftir 1. dag keppninnar, Evrópu í vil – forysta sem síðan var aldrei látin af hendi.
Eftir 2. dag var staðan 10:6 Evrópu í vil – þægilegt 4 stiga forskot.
Í tvímenningsleikjum sunnudagsins var staðan hins vegar aftur orðin 11 1/2 vinningur g. 9 1/2 eftir að nýliðinn í liði Bandaríkjanna, Tony Finau, vann mótherja sinn, einn af 5 nýliðum í liði Evrópu, Tommy Fleetwood, stórt, 6&4. Tommy var fram að því búinn að vinna alla leiki sína og sálrænt áfall að tapa, en e.t.v. skiljanlegt þegar hann verður skotskífa andstæðinganna, sem ekkert vilja fremur en að sigra, þann sem valdið hefir þeim einhverjum mestum óskundanum.
7 leikir eftir og næg tækifæri fyrir lið Bandaríkjanna að snúa öllu sér í vil og þegar bilið er mjótt virkar það hvetjandi.
Næstir í hús voru þeir Ian Poulter og fyrrum nr. 1 á heimslistanum Dustin Johnson og hafði Ryder kempan Poulter betur í þeirri viðureign, 2 up. Staðan orðin 12 1/2 vinningur g. 9 1/2 vinningi, Evrópu í vil.
6 leikir eftir og enn næg tækifæri fyrir lið Bandaríkjanna að sigra keppnina.
Næstir í hús voru Thorbjörn Olesen og Jordan Spieth. Thorbjörn rústaði Spieth, 5&4 og kom stöðunni í 13 1/2 vinning g. 9 1/2, sálrænt mikilvægt.
Því nú fengu leikmenn Evrópu í þeim 5 viðureignum sem eftir voru blóðbragð í munninn, aðeins vantaði 1 stig upp á sigur.
Það náðist síðan strax eftir að næstu menn komu í hús, þar sem Sergio Garcia hafði haft betur gegn Rickie Fowler 14 1/2 – 9 1/2.
Aðeins 4 viðureignir eftir og nú var bara að halda fengnum hlut og tapa ekki – en það var Francesco Molinari, hetja Evrópu í Ryder bikarnum 2018, sem gerði út um sigurvonir liðs Bandaríkjanna eftir að hann kom næstur í hús, sigurvegari í viðureign sinni gegn Phil Mickelson 4&2 – Hinir 3 leikirnir skiptu nú engu máli Evrópa búin að sigra!!!
Patrick Reed krafsaði í bakkann kom stöðunni í 15 1/2 – 10 1/2 og minnkaði muninn en síðan unnu Henrik Stenson og Alex Norén sínar viðureignir og lokastaðan 17 1/2 – 10 1/2 eins og allir muna.
Telja verður að Olesen hafi landað sigri á sálrænt mikilvægu augnabliki – hefði hann tapað sínum leik gegn Jordan Spieth hefði spennan í viðureign Evrópu g. Bandaríkjunum eflaust haldist lengur, því munurinn, ef Olesen hefði tapað, hefði aftur aðeins verið 2 stig milli liðanna, sem eflaust hefði glætt vonir liðs Bandaríkjanna og blásið þeim kjark í brjóst.
Það gerðist sem betur fer ekki því Thorbjörn Olesen hafði betur gegn reynsluboltanum Jordan Spieth. Olesen fer því með 1 tap og 1 sigur úr 1. Ryder bikars móti sínu og vonandi að hann nái að festa sig í sessi og verði aftur með eftir 2 ár!
- ágúst. 31. 2024 | 20:00 Golfgrín á laugardegi (8/2024)
- ágúst. 31. 2024 | 17:30 LET Access: Ragnhildur úr leik – Guðrún Brá enn við keppni
- ágúst. 31. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Elías Kristjánsson – 31. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Amanda Moltke-Leth – 30. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 05:52 Íslandsmót golfklúbba: Golfklúbbur Fjallabyggðar Íslandsmeistari í 3. deild karla
- ágúst. 30. 2024 | 05:30 Unglingamótaröðin 2024: Eva Íslandsmeistari í holukeppni í fl. 17-18 ára stúlkna
- ágúst. 29. 2024 | 23:00 Áskorendamótaröð Evrópu ´24: 4 íslenskir kylfingar meðal keppenda í Konopiska
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 Unglingamótaröðin 2024: Veigar Heiðarsson Íslandsmeistari í holukeppni í piltafl.17-18 ára
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 LET Access: Guðrún Brá og Ragnhildur meðal keppenda á Get Golfing Womens meistara- mótinu
- ágúst. 29. 2024 | 17:00 Hjördís fór holu í höggi!
- ágúst. 29. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingar dagsins: Sigríður Anna Kristinsdóttir og Aron Atli Bergmann Valtýsson 29. ágúst 2024
- ágúst. 28. 2024 | 21:00 GFH: Þorbjörg og Kjartan Ágúst klúbbmeistarar 2024
- ágúst. 28. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Lee McLeod Janzen —– 28. ágúst 2024
- ágúst. 27. 2024 | 18:00 PGA: Bradley sigraði á BMW meistaramótinu
- ágúst. 27. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Aldís Ósk Unnarsdóttir – 27. ágúst 2024