Ragnheiður Jónsdóttir | september. 7. 2021 | 07:00

Solheim Cup 2021: Nýliðinn Leona Maguire stóð sig vel

Í þessu Solheim Cup móti voru 7 af 24 kylfingum, sem kepptu nýliðar – 3 í liði Bandaríkjanna: Jennifer Kupcho, Mina Harigae og Yealimi Noh.

Í liði Evrópu voru 4 nýliðar: Mathilda Carstren, Leona Maguire, Nanna Koertz Madsen og Sophia Popov.

Nýliðinn Leona Maguire er fyrsti kylfingurinn frá Írlandi til þess að taka þátt í Solheim Cup.  Jafnframt er hún fyrsti írski tvíburinn til þess að keppa í Solheim Cup, en Leona á tvíburasystur Lisu, sem einnig er frábær kylfingur.

Sem stendur er Leona nr. 43 á Rolex-heimslista kvenkylfinga.

Leona stóð sig best af öllum nýliðunum hvað varðar vinningsfjölda – skilaði liði Evrópu 4 1/2 vinningi af 5, sem hún átti kost á að skila liði sínu.

Hún er aðeins 3. kylfingurinn í sögu Solheim Cup, sem skilar liði sínu 4 1/2 vinningi eða meira.

Á 1. degi vann hún fyrstu í fjórmenningsviðureigna ásamt Mel Reid gegn Korda-systrum og svo  fjórboltaviðureign sína ásamt Georgiu Hall gegn þeim Brittany Altomare og Jennifer Kupcho. Fullt hús – 2 vinningar þegar á 1. degi.

Á 2. degi  var hún pöruð með Mel Reid. Í fjórmenningi fyrir hádegi unnu þær stöllur Nr. 1 á Rolex-heimslistanum Nelly Korda og Ally Ewing sannfærandi eða 5&4 og var þetta eini sigur liðs Evrópu í þessum hluta.  Eftir hádegi héldu þær stöllur síðan jöfnu gegn Lizette Salas og Jennifer Kupcho í fjórboltanum.  1 1/2 vinningur á þessum degi og 3 1/2 samtals.

Í tvímenningsviðureign sinni náði hún síðan stærsta sigri evrópska liðsins í tvímenningi – sigraði bandaríska nýliðann Jennifer Kupcho 5&4. 1 vinningur í viðbót og samtals 4 1/2 vinningur.

Í viðtali eftir glæstan árangur sinn í tvímenningnum sagði Leona Maguire m.a.:

„(Ég er) bara svo stolt af því að ná 4 1/2 stigum á töfluna fyrir Evrópu
Ég reyndi bara að byrja mjög vel og þessi örn á 2. holu – ég hefði ekki getað byrjað betur en það.“
„Síðan náði ég fugli á sjöttu holu, sem er hola, sem ég hef ekki spilað vel  alla vikuna,“ bætti Maguire við, en innáhöggið á sjöttu flaug yfir pinnann og skildi hana eftir með átta feta (u.þ.b. 3 metra) pútt fyrir fugli.
Ég vildi bara beita Jen þrýstingi þegar frá upphafi,“ sagði hún að lokum eftir að hafa innsiglað sigurinn með pari á 14. holu.

Þær „Jen“ (þ.e. Jennifer Kupcho) hafa oft mættst m.a. í bandaríska háskólagolfinu.

Glæsilegur árangur Leonu Maguire, sem spáð er miklum frama, en hún er einnig nýliði á LPGA á þessu keppnistímabili.

Í aðalmyndaglugga: Leona Maguire