Ragnheiður Jónsdóttir | september. 7. 2021 | 09:00

Solheim Cup 2021: Popov vinningslausa stóð uppi sem sigurvegari

Þýski kylfingurinn Sophia Popov er einn nýliðanna 7, sem þátt tók í Solheim Cup.

Hún var sú eina af kylfingunum 24 sem ekki náði einum einasta vinningi í mótinu.

Popov fékk líka aðeins að spila í 3 leikjum, en ekki 5 eins og t.a.m. Leona Maguire og tókst því kannski ekki alveg að sýna sitt rétta andlit.

Hún lék í báðum fjórboltaleikjunum eftir hádegi laugardag og sunnudag og síðan í tvímenningsleik á mánudag eins og allar hinar.

Í laugardagsfjórboltaleiknum var Popov pöruð með reynsluboltanum spænska Carlotu Cigöndu og töpuðu þær stöllur með minnsta mun 1 up fyrir þeim Lizette Salas og Jennifer Kupcho (sem var önnur reynslubolta/nýliða tvenndin).

Í sunnudagsfjórboltaleiknum var Popov pöruð með Celine Boutier frá Frakklandi og þær töpuðu fyrir bandarísku nýliðunum Yelimi Noh og Minu Harigae 3&1.

Tvímenningsleik sínum tapaði Popov síðan fyrir 3&2 fyrir Megan Khang.

Hins vegar stóð hin vinningslausa Popov uppi sem sigurvegari með evrópska Solheim Cup liðinu, sem eflaust hefir verið blendin reynsla fyrir hana, þar sem hún lagði ekkert af mörkum til sigursins.

Popov er fædd 2. október 1992 og því 28 ára. Hún er með tvöfalt ríkisfang – er bæði þýskur og bandarískur ríkisborgari; kannski þess vegna sem hún hefir ekki vilja ganga nær bandarískum löndum sínum? Nei, sú staðhæfing á engan rétt á sér! Föðurforeldrar Popov eru búlgarskir, sem skýrir eftirnafn hennar.

Sophia Popov er einn hæst rankaði kylfingur evrópska liðsins vegna sigurs hennar á AIG Women´s Open risamótinu 2020.

Hún hefir gengið í gegnum hæðir og lægðir í golfinu – 2014 var hún m.a. á sjúkrahúsi í 2 vikur með magaverki, sem engin skýring fékkst á – seint og síðar meir greindist hún með Lyme sjúkdóminn, sem varð til þess að hún spilaði ekki um tíma.

Þetta varð til þess að hún hríðhoraðist, gekk ílla og 2015 þegar Solheim Cup fór fram í Þýskalandi kom hún aðeins að mótinu sem fréttaskýrandi í þýska sjónvarpinu.

Á árunum 2016-2020 spilaði Popov mestmegnis á Symetra Tour, 2. deildinni hjá konunum í Bandaríkjunum og 2019 var hún aðeins 1 höggi frá því að tryggja sér sæti á LPGA. Þegar Symetra og LPGA mótaraðirnar voru í lamasessi vegna Covid-19 spilaði Popov á Cactus mótaröðinni, þar sem hún sigraði 3 sinnum. Vegna góðrar frammistöðu í Marathon Classic LPGA mótinu (T-9 árangur 2020) fékk hún að taka þátt í AIG Women´s Open 2020, sem hún síðan sigraði í, eins og áður segir, sem tryggði henni farseðilinn á Solheim Cup. Sjá má frétt Golf 1 um sigur Popov á AIG Women´s Open risamótinu 2020 með því að SMELLA HÉR: 

Eftir þessa frammistöðu er hins vegar óvíst hvort Sophia Popov verði með í Solheim Cup liði Evrópu 2023, en þá fer keppnin fram í Finca Cortesin á Spáni.

Sjá má eldri kynningu Golf 1 á Popov með því að SMELLA HÉR: 

Í aðalmyndaglugga: Sophia Popov