Hennie Otto sigraði Platinum Classic mótið í dag í MooiNooi.
Ragnheiður Jónsdóttir | október. 1. 2011 | 14:30

Sólskinstúrinn: Hennie Otto sigraði á Platinum Classic

Það var Suður-Afríkubúinn Hennie Otto, sem sigraði á Platinum Classic mótinu sem lauk í dag í MooiNooi Golf Club (North West). Mótið stóð frá 29. september – 1. október.

Hennie Otto lauk leik á -17 undir pari, þ.e. samtals 199 höggum (69 63 67).  En hver er svo sigurvegarinn Hennie Otto í stuttu máli?  Hennie heitir fullu nafni Hendrik Johannes Otto, en er alltaf kallaður Hennie. Hann fæddist 25. júní 1976 í Boksburg, Suður-Afríku og er því 35 ára. Hennie gerðist atvinnukylfingur 1998 og hefir á ferli sínum sigrað 13 sinnum, þarf af 11 sinnum á Sólskinstúrnum, 1 sinni á Evrópumótaröðinni (þ.e. á Opna ítalska, 11. maí 2008) og 1 sinni á Challenge Tour (þ.e Philips Challenge Xacobeo, þann 10. október 1999).

Darren Fichardt (66 67 68) varð í 2. sæti, 2 höggum á eftir Otto.  Þriðja sætinu deildu 3 kylfingar: Merrick Bremner, sem leiddi eftir 1. daginn, Brandon Pieters og Allan Versfeld, allir á 202 höggum hver, þ.e. -14 undir pari og þ.a.l. 3 höggum á eftir Otto.

Jaco Ahlers, sem var í forystu í gær hrundi niður í 6. sætið, sem hann deilir með 4 öðrum, en allir voru á 204 höggum, 5 höggum frá sigurvegaranum.  Jaco Ahlers spilaði lokahringinn á 75 höggum eftir að hafa verið á skori sem lofaði góðu (65 64). En svona getur golfið verið stundum!

Til þess að sjá úrslit í Platinum Classic mótinu smellið HÉR: