Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 11. 2012 | 17:45

Sunna lék aftur á 71 höggi í dag og er í 12. sæti á European Girls Team Championship

Sunna Víðisdóttir, GR, er aldeilis að standa sig vel á European Girls Team Championship. Hún lék jafnt og gott golf í dag, kom inn á 71 höggi, sem er 1 undir pari á hinum erfiða St. Leon Rot golfvelli í Þýskalandi í dag, líkt og í gær og er því á samtals 142 höggum eftir 2. dag mótsins eða samtals 2 undir pari. Hún er búin að standa sig best íslensku stúlknanna, en 120 stúlkur taka þátt í mótinu og ljóst að Sunna er meðal topp10%.

Sú sem geystist upp skortöfluna og stóð sig ekki síður vel en Sunna er Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK. Hún var í 71. sæti í gær fyrir miðjum hóp og sú sem hafði leikið næstbest af stúlkunum 6 í íslenska liðinu. Guðrún Brá lék líkt og Sunna á 71 höggi í dag og er samtals búin að spila á 148 höggum (77 71). Hún hækkaði sig úr 71. sæti í 46. sætið, sem er flott hjá Guðrúnu Brá!

Hinar 4 stúlkurnar sem þátt taka fyrir Íslands hönd eru í 97. sæti eða neðar í mótinu.

Íslenska liðið er því eftir sem áður í 18. sæti af 20 liðum sem þátt taka.

Í þrjú efstu sætin á mótinu hafa enskar stúlkur raðað sér þ.e. Elizabeth Mallett og Georgia Hall, sem báðar eru á samtals 11 undir pari og Charley Hull er í 3. sæti á 10 undir pari. Enska liðið er einnig í 1. sæti í liðakeppninni.

Golf 1 óskar íslenska liðinu góðs gengis á morgun!

Sjá má stöðuna eftir 2. dag í St. Leon Rot með því að SMELLA HÉR: