Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari. Mynd Golf 1.
Ragnheiður Jónsdóttir | september. 1. 2012 | 17:00

Úlfar Jónsson: „Setjum markið á topp 3″

Golf 1 tók örstutt viðtal við landsliðsþjálfarann, Úlfar Jónsson, sem sjálfur var staddur á teig að fara að spila golf í góða veðrinu hér sunnan lands.

Golf 1: Hvernig finnst þér strákarnir (piltalandsliðið undir 18 ára) vera að standa sig úti í Búlgaríu?

Úlfar: Mjög vel. Skorin eftir 1. dag eru mjög góð –  67 hjá Ragnari – 70, 71, 72, sem er mjög flott. Verst að við fengum 79 og urðum að láta það telja.  Hitt er glæsilegt.  Þeir eru greinilega að spila vel. Þetta dettur inn á morgun og næstu daga og getur verið fljótt að koma. Við erum bara 6 höggum frá 2. sætinu og 7 höggum frá 1. sætinu.

Golf 1: Ertu með einhver heilræði til strákanna áður en þeir fara inn í leikinn á morgun?

Úlfar:  Þeir þurfa að undirbúa sig vel fyrir hvern hring og fara inn í leikinn með jákvætt hugarfar og gott skipulag. Það er erfitt að nálgast upplýsingar um keppnisvöllinn í Búlgaríu, það eru litlar upplýsingar um hann. En af því sem ég hef séð þá er þetta ekki langur völlur, það verður líklega að spila staðsetningargolf og vera þolinmóður þá er hægt að skora vel.

Golf 1: Hverju spáir þú um niðurstöðuna – náum við 3. sætinu?

Úlfar: Strákarnir í landsliðinu er allir góðir og hafa staðið sig vel í sumar. Þeir geta allir spilað undir pari, þeir hafa allir getuna. Þetta eru allt toppkylfingar.  Við fórum út til að ná 3. sætinu og stefnum að því. Það verða allir að gera sitt allra besta og hugsa um sinn leik. Þeir geta litlu ráðið um lokaniðurstöðuna – en ef allir gera sitt allra besta og spila sitt besta golf- ef þeir spila á getu sinni þá verðum við að sjá hvert það skilar okkur. – Við setjum markið á topp 3.