Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 15. 2011 | 18:00

Viðtalið: Agnes Ingadóttir, GKJ

Viðmælandi Golf 1 í dag er Agnes Ingadóttir, GKJ. Hún er búin að vera 3 ár í golfi og vann það frækilega afrek að slá draumahöggið í sumar á 2. degi meistaramóts GKJ. Um það og kylfinginn Agnesi Ingadóttur er fjallað hér á eftir:

Fullt nafn: Agnes Ingadóttir.

Klúbbur: GKJ.

Hvar og hvenær fæddistu?  Ég fæddist á Akureyri, 16. október 1965.

Hvar ertu alin upp? Ég er alin upp á Akureyri.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður – er einhver í fjölskyldunni í golfi? Ég er gift Þór Sigurðssyni, sem líka spilar golf og við eigum 3 börn, en ekkert þeirra er í golfi.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Þetta er 3. sumarið mitt, fyrsta sumarið var ég bara að leika mér með 7 una, svo var ég 2 sumur í GOB og byrjaði núna í vor í GKJ.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Maðurinn minn, Þór, byrjaði aðeins á undan mér  – hann dró mig í þetta.

Hvað starfar þú?  Ég er þroskaþjálfi í Miðgarði þjónustumiðstöð Grafarvogs og Kjalarness. Ég er  með sérkennsluráðgjöf út á leikskóla.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?   Skógarvelli. Mér finnst þeir skemmtilegri.  Þeir eru svo fallegir,  þó erfitt sé að lenda út í trjánum.

Hvort líkar þér betur við holukeppni eða höggleik? Ég hef bara spilað höggleik og punktakeppni og finnst punktakeppnin eiginlega skemmtilegust.

Agnes Ingadóttir, GKJ. Mynd: helga66.smugmug.com

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi? Urriðavöllur.

Hefir þú spilað á golfvelli utan Íslands? Nei, ekki enn.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Mér fannst mjög sérstakt að spila í Þorlákshöfn, þetta er bara ein stór glompa, fyrstu 2 holurnar.

Hvað ertu með í forgjöf?  26,9.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   99 högg í Öndverðarnesinu.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Það er að fara holu í höggi á meistaramóti GKJ, á 1. braut á Hlíðarvelli, 13. júlí 2011.

Hvaða kylfu notaðir þú þegar þú slóst draumahöggið?  Yfirleitt slæ ég þarna með 7-unni, en það var meðvindur þannig að ég ákvað að nota 9-una.

Hvernig tilfinning var það að fara holu í höggi? Þetta var æðisleg, geggjuð tilfinning. Ég hef varla lent upp á flötinni áður og þetta er kannski í 2. skiptið sem boltinn stoppar. Það skemmtilega var að það var fullt af fólki að horfa á og maður heyrði fólk garga langt upp í skála. Aðstæður hefði ekki getað verið betri. Ef ég hefði verið ein með manninum mínum einhvers staðar hefði þetta verið öðruvísi. Þetta var á 2. degi meistaramótsins okkar. En svo fór líka allt í klessu hjá mér, ég var alveg 2 holur að jafna mig.

Yfir í aðra sálma: Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Já, ég prufaði allt sem krakki. Ég var mikið í körfubolta á tímabili með Þór á Akureyri.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?  Banana og flatköku með osti. Svo er ég oft með gráfíkjur og döðlur.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhaldsmaturinn minn er  humar í hvítlaukssósu; uppáhaldsdrykkurinn er gott, sætt hvítvín; uppáhaldstónlist: svona spurningar eru erfiðar, ég er mjög hrifin af James Blunt, Katie Melua og einhverju svoleiðis, annars líkar mér við ýmisskonar músík, ég hlusta bara á allt; uppáhaldsvikmyndin er Bridget Jones Diaries eða eitthvað með Hugh Grant, Four Weddings and a Funeral, Notting Hill, einhverjar svona myndir og breskar gamanmyndir og The Seventh Sense. Loks er uppáhaldsbókin sú síðasta sem ég las: „Ég man þig“ eftir Yrsu Sigurðardóttur.

Agnes Ingadóttir, GKJ. Mynd: helga66.smugmug.com

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn, nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?  Kk.: Þór  eiginmaður minn.  Kvk.: Helga Björnsdóttir, GR.

Hvað er í pokanum hjá þér og  hver er uppáhaldskylfan þín? Í pokanum mínum eru dræver, Sky Max járnasett hálft (vantar eitthvað inn í það) 7-tré, -flatargafall og allt þetta klassíska sem fólk notar, regngalli og regnhlíf,  snyrtibudda og gloss og sólarvörn, hanskinn, aukahanski til að hafa til skipta í rigningunni o.sfrv. Uppáhaldskylfan mín er dræverinn, því hann virkar.

Hefir þú verið hjá golfkennara ? Mjög lítið. Þegar ég var á byrjunarreit fór ég upp í Bása. Þar hitti ég einhvern kennara – hann kenndi mér gripið og undirstöðuatriðin, síðan tók bara maðurinn minn við þannig að hann er bara uppáhaldskennarinn. Hann var hjá Björgvin Sigurbergs þegar hann var að byrja.

Ertu hjátrúarfull?  Nei, en ég reyni að halda mínum takti og hefðum.

Hvert er meginmarkmiðið  í golfinu? Að lækka sig.

Hvert er meginmarkmiðið  í lífinu? Að standa mig vel í því sem ég er að gera.

Hvað finnst þér best við golfið?  Mér finnst voðalega gaman að keppa og hreyfingin er æðisleg og bara þessi áskorun. Maður er alltaf að takast á við eitthvað nýtt.

Hversu stór hluti í prósentum talið er andlegur í golfinu þínu þegar þú ert að keppa? Ætli hann sé ekki svona 50%

Að síðustu:

Spurning frá síðasta kylfingi (Þorsteini Hallgrímssyni, GO og GOT),  sem var í viðtali hjá Golf 1:

Áður en þú slærð ertu búin/n að sjá fyrir þér boltaflugið – taka æfingasveiflu?  Svar Agnesar:  Já, ég tek yfirleitt æfingarsveiflu og er búin að sjá fyrir mér boltaflugið.

Getur þú komið með spurningu fyrir næsta kylfing sem Golf 1 tekur viðtal við?   

Spurning Agnesar fyrir næsta kylfing:   Hvað er ca. lengsta púttið sem þú hefir sett niður?