Ragnheiður Jónsdóttir | október. 29. 2011 | 18:20

Viðtalið: Ágúst Húbertsson, framkvæmdastjóri GK.

Ágúst Húbertsson lætur af störfum sem framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Keilis nú um mánaðarmótin.  Hann hefir gegnt stöðunni að sögn frá árunum ´86-´88, eða í 23-25 ár.  Við stjórnartaumunum tekur sonurinn, Ólafur Þór, en Ágúst hefir verið honum innan handar og gegnt 1/2 stöðu hjá Keili s.l. ár, til þess að kenna honum á alla þræði stjórnarmennskunnar. Golf 1 leit við hjá Ágústi og lagði fyrir hann nokkrar spurningar.

Golf 1: Hvers kemurðu til með að sakna mest þegar þú hættir?

Ágúst:  Vinnunnar almennt og þátttökunnar í að móta starfið, en maður heldur félagsskapnum og er ekki alveg farinn.

Golf 1: Hvað hefir verið skemmtilegast í starfi þínu sem framkvæmdastjóri þegar þú horfir yfir farinn veg?

Ágúst: Það er að hafa fengið að taka þátt og fylgjast með þeirri uppbyggingu sem hefir átt sér stað hjá GK – sem er ekkert smáræði – frá því við vorum að hokrast í gamla skálanum á nefinu og vorum með 12 holu golfvöll yfir í að vera með 27 holur. Og að sjá þennan skála byggðan og þá glæsilegu æfingaaðstöðu sem við höfum – Þetta eru bara forréttindi.

Golf 1: Hér er ein, sem ég tel mig vita svarið við: Hver er uppáhaldgolfvöllurinn þinn og hvaða völl áttu eftir og langar til þess að spila?

Ágúst: Uppáhaldsgolfvöllurinn er auðvitað Hvaleyrin. Sá völlur sem ég á eftir að spila og langar til þess að spila er Carnoustie í Skotlandi. Ég á hann eftir, en er t.a.m. búinn að spila St. Andrews.

Golf 1: Hvað er eftirminnilegast í starfi þínu sem framkvæmdastjóri?

Ágúst: Það er svo margt. Ef nefna ætti eitthvað þá eru það kannski þeir heimsfrægu kylfingar sem heimsóttu Keili og tóku þátt í Canon Pro-Am mótinu 5 ár í röð, á  Hvaleyrinni í boði Nýherja. Árið 2000 komu Barry Lane og Patrick Sjöland; 2001 komu þeir Retief Goosen og Ronan Rafferty; 2002 komu Pádraig Harrington og Nick Dougherty; 2003 þeir Peter Baker og Justin Rose og svo 2004 Trevor Immelman og Tony Johnstone.   Ég man að Immelman lék á 72 höggum og sigraði, þó hann væri með lánssett og í láns skóm, þar sem allur golfútbúnaður hans varð eftir á leið til Íslands.  Og svo man ég líka eftir stirðleikanum í Harrington eftir að hann tapaði, því hann bara fór og kvaddi engan.

Golf 1: Ertu með einhverja skemmtilega sögu af Hvaleyrinni á takteinum (eiginlega óþörf spurning því Ágúst er hafsjór af skemmtilegum golfsögum og virðist vita um allt sem gerst hefir á Hvaleyrinni!):

Ágúst: Þessar sögur þær verða nú bara til og kryddast síðan á langri leið.  Mér var sagt það eitt sinn að Sveinn Snorra og Eiríkur Smith hafi verið svo ákafir að spila golf að þeir lögðu bílum sínum hjá 13. braut og létu bílljósin lýsa brautina eftir myrkur, til þess að þeir gætu spilað áfram. Svo mikill var ákafinn!!!

Svo er það ein frá því í gamladaga. Þar sem Sveinkotsvöllur er núna (litli 9-holu  völlurinn á Hvaleyrinni), þar var bær, Sveinkot og það var búið í honum.  Þar sem 8. brautin er núna á 9 holu vellinum þurfti að slá yfir húsið. Einu sinni kemur konan, sem bjó í húsinu stormandi yfir holtið þar sem nú er 11. braut og sagði við menn sem sátu í brekkunni og voru að fylgjast með golfinu á vellinum: „Við hvern á ég eiginlega að tala, það var sleginn golfbolti inn í svefnherbergi hjá mér!“  Einn góður vinur minn svaraði:„Hvar átt þú heima í bænum?“

Golf 1: Kanntu einhverja sögu af sjálfum þér í golfi?

Ágúst: Ég hef einu sinni farið holu í höggi en það var á par-3, 16. brautinni á Hvaleyrinni í Bændaglímu 2001. Með okkur í holli var Anna Snædís Sigmarsdóttir, GK, sem ekki var byrjuð að spila golf, en var að draga fyrir manninn sinn. Það berast fréttir að einhver hafi farið holu í höggi um allan völl. Þar sem veðrið var leiðinlegt ákvað Anna Snædís að labba upp í skála og var spurð þar hver hafi farið holi í höggi? Það stóð ekki á svarinu hjá henni: „Það var eldri, svolítið sjúskaður karl!“

Eitt sinn fékk ég golfkúlu í hausinn. Ég var að spila 15. brautina og Guðmundur Hjörleifsson var að fara að slá af 1. braut (núverandi 13. braut). Hann kenghúkkar boltann í sömu mund og ég er að slá og ég fæ boltann í hausinn og… varnaði þar með að hann færi út í sjó… en ég steinlá!  Hann kom með miklum látum og menn vildu fara með börur yfir brautina, en formaður vallarnefndar bannaði að keyrt yrði á vellinum. Svona hefir nú verið passað upp á Hvaleyrina í gegnum tíðina!

Svo kannski ein í lokinn, sem ég hef sagt nokkrum sinnum:  Það var þannig að í einni Canon Pro-Am keppninni voru nándarverðlaun á 9. braut þ.e. hver væri næstur pinna í 2 höggum. Ég var svona 100 metra frá og þegar ég sló 2. höggið hitti ég hann illa, skallaði boltann og hann rétt flýgur yfir jörðina, lendir á tjörninni, fleytir 4-5 kerlingar, en kemst einhvern veginn yfir , rúllar eftir flötinni og stoppar 1/2 meter frá pinna… og ég vann myndavélina, sem var í verðlaun. Ég man að Tony Johnstone sem var einn gestanna heimsfrægu þetta árið kom til mín og sagði: „Þetta er ekki spurning um stíl, eiginlega sama hvernig þetta er gert, það sem öllu skiptir er hvar boltinn lendir!“

Golf 1: Að lokum: Hvað myndir þú vilja sjá gert hér á Hvaleyrinni í framtíðinni?

Ágúst: Að við gætum í framtíðinni stækkað skálann og bætt aðstöðuna við kylfingana sjálfa. Það þrengir verulega að. Þó skálinn sé mikill munur frá fyrri aðstöðu þá var hann byggður þegar við erum 400 en nú er félagar í Keili 1200.  Það þrengir að og við þurfum að byggja stærri skála. Svo myndi ég vilja sjá áframhaldandi eflingu unglingastarfsins. Svo að lokum er það draumurinn okkar: að við eignumst fleiri kylfinga sem glíma við það að komast inn á Evrópumótaröðina og PGA. Það á allt eftir að gerast í framtíðinni, en það vantar að skapa þessar aðstæður til þess að þessir bestu kylfingar geti æft allt árið. Við erum með svo marga efnilega!

Klúbbhús Golfklúbbsins Keilis – Það er að mati Ágústs of lítið, enda byggt þegar félagar voru 400, en félagatalan hefir þrefaldast