Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 29. 2012 | 20:00

Viðtalið: Einar Lyng Hjaltason, golfkennari

Það er Einar Lyng, nýráðinn golfkennari GKJ, sem situr fyrir svörum Golf 1 í kvöld. Hann hefir sinnt bæði golf- og skíðakennslu í vetur. Einar hefir kennt bæði hjá GOB og GHG í Hveragerði, þar sem hann er með eina fullkomnustu æfingaaðstöðu til golfkennslu. Sjá má grein Golf1 um Flight Scope tækið sem Einar er með og eins Putt Lab Sam 2010, þar sem má bæta púttstrokuna svo um munar HÉR:  Í vor hefir Einar verið fararstjóri á Spáni fyrir Vita Golf og var nú nýverið ráðinn í fullt starf golfkennara hjá GKJ. Hér fer viðtalið við Einar:

Fullt nafn:  Einar Lyng Hjaltason.

Klúbbur:  GHG, GKJ og GOB.

Einar Lyng, golfkennari fyrir framan Flight Scope breiðtjaldið þar sem sjá má sveifluferilinn og ýmsar aðrar upplýsingar. Mynd: Golf 1.

Hvar og hvenær fæddistu?  Ég fæddist á Sólvangi í Hafnarfirði, 10. febrúar 1971.

Hvar ertu alinn upp?  Í Suðurbænum í Hafnarfirði.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og eru einhverjir í fjölskyldunni í golfi? Ég er í sambúð með Rakel Árnadóttir og á 4 börn. Allir í fjölskyldunni eru í golfi. Ég er með alla krakkana skráða í golfklúbbi og eins eru þau öll á skíðum. Ég á 3 stelpur og 1 strák. Dóttir mín, Rebekka er eflaust yngsti meðlimur í golfklúbbi á Íslandi – hún er 16 mánaða og búin að vera skráður meðlimur golfklúbbs í 1 ár.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?   1980. Ég var á barnanámskeiðum og svo vorum við 4 vinir að spila með 1 sett . Ég sneri kylfunum alltaf öfugt og eyðilagði þær.  Ég hætti um tíma í golfi en byrjaði aftur 1995.  Það var virkilega erfitt að fá sett fyrir örvhenta, sem ég er. Allt settið mitt er sérsmíðað og sérpantað hjá Rabba í Erninum. Ég get keypt skó og fatnað en ekki hanska, því það er svo erfitt að fá hanska fyrir örvhenta.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Ég var rosalega heillaður, en áhuginn kviknaði ekki almennilega fyrr en ég fékk örvhenta settið. Mig langaði alltaf til að vera í golfi, en gat ekki almennilega spilað af því að ég fékk ekki réttar kylfur. Síðan þegar settið kom fór ég úr 36 niður í 14.1 fyrsta sumarið mitt.

Einar Lyng Hjaltason. Mynd: í einkaeigu.

Hvað starfar þú?  Golfkennari og skíðaþjálfari.

Ert þú ekki nýráðinn íþróttastjóri GKJ? Ég er ekki íþróttastjóri GKJ. Við erum 3 að taka þar við. Ég, Davíð Gunnlaugsson og Magnús Lárusson.

Eru einhverjar nýjar áherslur sem þú kemur með inn í starfið hjá GKJ? Ekkert neitt nýtt. Bara halda áfram að hafa gaman í golfi eins og alltaf.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?  Ég get ekki gert upp á milli þeirra.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Holukeppni, það er svo óútreiknanlegur leikur. Holukeppnin er svo mikið sjénsagolf, þar verður allt skemmtilegt og spontant og það er ævintýralegt að falla og standa með ákvörðun sinni. Í höggleiknum ræður skynsemin meira.

Hver/hverjir er/eru uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi fyrir utan Bakkkakot, Gufudalsvöll og Hlíðavöll?  Vestmannaeyjar þaðan á ég góðar minningar. Svo er það Hvaleyrin og Grafarholtið.

Hvaleyrin er einn uppáhaldsgolfvalla Einars. Hér frá 9. flöt. Mynd: Golf 1

Hver er uppáhaldsgolfvöllur þinn hvar sem er í heiminum nema á Íslandi?   Laem Chabang International Country Club, Sriracha, Chonburi í Thaílandi. Þetta er Jack Nicklaus Signature golfvöllur, sem opnaði 1993.

Laem Chabang í Thaílandi - uppáhalds erlendi golfvöllur Einars.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?    Geysisvöllur, af því að eftir 9 holur leið mér eins og ég hefði labbað 18. Ég var með svo villtu fólki og setti vallarmet +1 yfir pari. Spilaði hann á 38 höggum , þurfti að leita  og var 3 1/2 tíma með 9 holur.

Frá Geysisvelli í Haukadal. Mynd: Golf 1.

Hvað ertu með í forgjöf?  4

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   67 í Bakkakoti.  70 á Gufudalsvelli í Hveragerði og  71 högg á Urriðavelli í Oddi þegar parið var 72 –  Allt á meistaramótum.

Hvert er lengsta drævið þitt?  340 metrar á par-5 braut, en hún var 440 metra.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Það eru sigrar í sveitakeppninni – hef spilað í öllum deildum.

Hefir þú farið holu í höggi?  Já 7. í Hveragerði; Það var 2006.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?  Rækjusamloku og vatn.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Já keppti mikið í skíðum.

Hver er uppáhaldsmatur, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlistin þín og uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?  Uppáhaldsmaturinn minn er nautakjöt; uppáhaldsdrykkurinn er Töfrateppi þ.e. Amaretto í Red Bull; uppáhaldstónlistin er allt með U2; Uppáhaldskvikmyndirnar mínar eru Trainspotting og Pulp Fiction og uppáhaldsbókin er  DaVinci lykillinn eftir Dan Brown.

Hver er uppáhaldskylfingur þinn; nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?   KK: Jimenéz – það er líbó týpa. Þú færð ekki skemmtilegri alþýðumann inn í íþróttina. KVK:  Natalie Gulbis (SI).

Einar við Putt Lab Sam 2010 pútttækið. Mynd: Golf 1

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?    Allt TaylorMade nema 1 Wilson kylfa. Wedgarnir mínir eru 52° 58° og 60°. 3-tré og dræver R-9. Pútter: TaylorMade Keama Daytona. Uppáhaldskylfan er Wilson 3-járn.

Hefir þú verið hjá golfkennara?  Já, Peter Ballingal.

Ertu hjátrúarfullur?   Já, með kúlur. Tíin verða að vera plasttí og mega ekki vera venjuleg hvít – ég er alltaf með sama tí. Flatargaffallinn verður alltaf að verða sá sami.

Hvert er meginmarkmiðið í lífinu og í golfinu? Í golfinu er það að geta gefið af sér og miðlað og í lífinu er það bara að vera til.

Hvað finnst þér best við golfið?  Endorfínið og félagsskapurinn og útiveran.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?   100% Ef þú ert ekki í andlegu jafnvægi þá getur þú ekki spilað golf.

Er eitthvert gott ráð sem þú getur gefið kylfingu Ég m?    Horfa á boltann.

Spurning frá síðasta kylfingi sem var í viðtali á Golf1.is (Stefaníu Kristínu Valgeirsdóttur, GA): Hverjar eru vandræðalegustu aðstæður sem þú hefir lent í?  Svar Einars:  plataði konuna til að baða stelpurnar okkar. Fór upp á völl í Hveragerði ætlaði að taka 6 holur og koma heim. Taka stelpurnar og svæfa þær af því loknu. Byrja með strákum, sem ég þekkti á 4. braut. Fer síðan holu í höggi á 7. braut. Sannfæri konuna um að ég verði að klára 9 holur. Sem ég geri í svarta myrkri með einum úr hollinu og hún baðar og svæfir stelpurnar.

Geturðu komið með spurningu fyrir næsta kylfing sem kemur í viðtal hjá Golf1.is? Spurning Einars fyrir næsta kylfing:

Hefir þú farið í Flight Scope?