Viðtalið: Guðmundur Sveinbjörnsson, GK.
Um miðjan maí, þegar allt var að vakna til lífsins þetta herrans ár 2011 fór Golf 1 af stað með að taka viðtöl við íslenska kylfinga, þ.e. leggja fyrir þá nokkrar staðlaðar spurningar, með örlitlum frávikum í hvert sinn. Hér fer eitt af fyrstu viðtölunum, en viðmælandi er Guðmundur Sveinbjörnsson, einn af 6 kylfingum hérlendis, sem hafa orðið Norðurlandameistarar í sveitakeppni í golfi. Það var árið 1992.
Guðmundur hefir m.a. verið atvinnumaður í golfi og samhliða atvinnumennskunni sinnti hann golfkennslu, en það þekktist lítið á þeim árum sem hann sinnti kennslunni. Guðmundur kenndi árið 1996 í Golfklúbbnum Keili, í Hafnarfirði, sem hann hefir verið félagi í með hléum frá árinu 1974. Árið 1996 var árið sem Arnar Már, sem hafði verið golfkennari fram að því hjá GK, fór til Þýskalands. Þá var golfmálefnum þannig komið hjá Keili að ekki var grundvöllur til að hafa heilsárskennara. Krakkarnir í Keili æfðu t.a.m. ekki inni fyrr en í febrúar og félagar í Keili á þessum árum voru ekki nema u.þ.b. 380. Það er af sem áður var nú eru 2 heilsárgolfkennarar hjá Keili og sá 3ji kennir líka … og félagatalan hefir þrefaldast.
Afrek Guðmundar á golfsviðinu eru of mörg til þess að telja þau upp í litlu viðtali. Hér skal staldrað við að nefna að auk þess að vera 1 af 6 Norðurlandameisturum okkar Íslendinga í sveitakeppni í golfi, varð hann klúbbmeistari Keilis 1992 og Íslandsmeistari með Keili í sveitakeppni 1989-1991. Hann hefir sigraði í fjölda opinna móta t.d. höggleikinn án forgjafar nú í sumar á styrktarmóti fyrir sveitir GHG í Hveragerði, 1.ágúst 2011.
En hér fara spurningar Golf 1 og svör Guðmundar:
Fullt nafn: Guðmundur Sveinbjörnsson.
Klúbbur: Golfklúbburinn Keilir í Hafnarfirði (GK). Hins vegar var ég í 3 ár í Golfklúbbi Grindavíkur (GG) á árunum 1983-1985 og svo var ég 2008 og 2009 í Oddi. Ég reyni alltaf að spila 2-4 mót á hverju sumri í Grindavík því mér finnst ég alltaf vera að koma svolítið heim þegar ég kem til Grindavíkur. Klúbburinn þar á líka 30 ára afmæli í ár. Ég var þar að spila þar 16-19 ára unglingur og þakka GG að hafa haldið áfram í golfinu. Á þessum árum snerist allt um fótbolta og það voru bara örfáir í golfi. Ætli félagatalan í GK hafi ekki verið að detta eitthvað í 200 árið 1985.
Golf 1: Hvar og hvenær fæddistu?
Guðmundur: Ég fæddist í Reykjavík, 11. janúar 1966.
Golf 1: Hvar ertu alinn upp?
Guðmundur: Á Holtinu í Hafnarfirði. Þar var stór hópur krakka í golfi. Ég var mest saman með og spilaði mest við: Sigurbjörn, Pétur, Guðbjörn og Þórdísi Geirs, sem var eina stelpan í hópnum og hún réði öllu. Síðan bættust við strákar sem seinna urðu þjóðþekktir golfkennarar: Addi Már, Höddi og Úlfar úr Norðurbænum. Þórdís spilaði meira að segja fótbolta með okkur, en fótboltinn var svo vinsæll. Hins vegar átti Keilir alltaf mikið af krökkum, ætli við höfum ekki mest verið 160-170 og það er merkilegt hversu margir af þessum krökkum héldu áfram – Mörgum klúbbum þykir gott að halda bara 1-2. En svo er þetta svolítið árgangaskipt líka.
Golf 1: Hverjar eru fjölskylduaðstæður þínar og spilar einhver í fjölskyldunni golf?
Guðmundur: Ég er kvæntur Halldóru Jónsdóttur og við eigum tvö börn: Sveinbjörn og Sólveigu. Það spila allir golf, stelpan okkar er m.a.s. skráð í Keili en hefur ekki mikinn áhuga á þessu.
Golf 1: Hvenær byrjaðir þú í golfi?
Guðmundur: Ég fór að þvælast úti á velli 1974, en byrja ekki í Keili fyrr en 1977. Ég byrjaði að tína kúlur og svo var ég að draga fyrir Kristínu Páls, þ.á.m. þegar hún varð Íslandsmeistari 1975. Ég dró líka svolítið fyrir Val Fannar, gullsmið, sem nú er látinn.
Golf 1: Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?
Guðmundur: Það var bara eitthvað sem dró okkur krakkana á Hvaleyrina – Það var gamall torfbær, þar sem kvennateigurinn er núna á 18. braut á Hvaleyrinni og þar vorum við smáguttar að leika okkur. Holtið var enn óbyggt, þarna var spennandi bílagryfja, trönuhjallar, sædýrasafnið – það var eitthvað, sem dró okkur krakkana í bríaríi að tína kúlur – fyrstu kylfurnar voru spýtur – svo átti bróðir Þórdísar, Lúlli (Lúðvík Geirsson, fv. bæjarstjóri í Hafnarfirði) golfsett – sem var misnotað til kl. 4 meðan hann var í vinnu – þetta var eina settið sem til var og við vorum 5 um það.
Golf 1: Hvað starfar þú?
Guðmundur: Ég er bátasmiður.
Golf 1: Hvort líkar þér betur að spila á skógar- eða strandvelli?
Guðmundur: Strandvöllum, en skógarvellir eru líka skemmtilegir.
Golf 1: Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?
Guðmundur: Höggleikur.
Golf 1: Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir 1) á Íslandi; 2) hvar sem er í heiminum nema Íslandi og 3) hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á?
Guðmundur: Uppáhaldsgolfvöllur á Íslandi er Grafarholtið. Uppáhaldsgolfvöllur erlendis er Aloha í Marbella á Spáni. Þetta er flottasti völlurinn, en við spiluðum þar tvisvar í Evrópukeppni klúbba. Ætli sérstæðasti golvöllurinn hafi ekki verið þegar Golfklúbbur Ísafjörður var í Hnífsdal, þar var 6 holu völlur. Frændi minn var með golfdellu og við spiluðum völlinn saman 1984. Hann fluttist síðar inn í Tungudal.
Golf 1: Hvaða golfvelli áttu eftir að spila hér á landi?
Guðmundur: Þeir eru nokkrir, t.d. Geysisvöll, Ásatún, Vík í Mýrdal, Seyðisfjörð, Eskifjörð, Norðfjörð og Ekkjufell.
Golf 1: Hvað ertu með í forgjöf?
Guðmundur: 2,8 – fékk heilan í hækkun í jólagjöf.
Golf 1: Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?
Guðmundur: 64 á Hvaleyrinni (völlurinn var par 68) Björgvin Sigurbergs var í hollinu á undan og var á 61. Ég vann meistaramótið það ár 1992, var á -5 undir pari en það þekktist ekki mikið þá að verið væri að vinna mót undir pari.
Golf 1: Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?
Guðmundur: Að verða Norðurlandameistari 1992 í sveitakeppni í Grafarholtinu. Það er ekkert sem toppar það. Þeir sem voru í íslenska liðinu voru Úlfar Jónsson, Björgvin Sigurbergsson, Sigurjón Arnarsson, Þorsteinn Hallgrímsson, Jón H. Karlsson og ég. Það voru 5 bestu skorin sem töldu (Innskot: Skor Guðmundar taldi alla hringina).
Guðmundur: Í þá daga voru Svíar og Finnar með hörkulið.
Golf 1: Hvaða nesti ertu með í pokanum?
Guðmundur: Flatkökur og hangikjöt. Ég er aldrei með sælgæti. Svo er ég með vatn, en hef enga trú á orkudrykkjum.
Golf 1: Hefur þú tekið þátt í öðrum íþróttum?
Guðmundur: Já, fótbolta- og handbolta, með Haukum, á yngri árum.
Golf 1: Hver er uppáhaldsmatur og drykkur, uppáhaldstónlist- kvikmynd og bók?
Guðmundur: Uppáhaldsmaturinn er humar og drykkur vatn. Uppáhaldstónlistin mín er blönduð, en ég hlusta mikið á 80´s og þáttinn hans Sigga Hlö. Ég er ekki mikill sjónvarpsmaður, en ef ég ætti að nefna eina uppáhaldskvikmynd ætli það væri ekki Rainman. Ég á enga uppáhaldsbók, les helst ferðabækur.
Golf 1: Hverjir eru uppáhaldskylfingar þínir? Nefndu 1 kven-og 1 karlkylfing.
Guðmundur: Kvk.: Laura Davies. Kk.: Greg Norman.
Golf1: Hver er uppáhaldskylfan þín?
Guðmundur: Pútterinn af því að ég er langsterkastur í púttunum. Þegar maður var að spila sem best, var það alltaf vegna góðs stutts spils.
Golf 1: Hvert er meginmarkmiðið í lífinu?
Guðmundur: Að gera betur – sama á hvaða sviði það er.
Golf 1: Hvað finnst þér best við golfið?
Guðmundur: Það hve golfið reynir á einstaklingshæfileikana og svo útiveran.
Golf 1: Ertu hjátrúarfullur í golfinu?
Guðmundur: Svona aðeins …ég notaði lengi vel hvít tí og hirti aldrei tí af teigum. Ég er enn með sömu æfingarútínu og þegar ég byrjaði. Það er hluti af hjátrú gera eins og síðast, óháð því hvort spilað var illa síðast.
Golf 1: Í keppnum, hversu stór hluti golfleiksins er andlegur hjá þér?
Guðmundur: Svona 90%.
Golf 1: Hefir þú verið hjá golfkennara?
Guðmundur: Já, hjá John Garner. Þetta var Breti , sem var hér 1987. Hann var snillingur, kenndi okkur hugsunarháttinn í golfi og margt sem hann sagði fer ég eftir. T.d. að láta kylfuna vinna fyrir sig rétt , þetta er sama lógík og með flugustöng. Þetta snýst um ritma og tempó, sama og með flugustöngina, þær eru misstífar og mishraðar. Það eru ekki átökin sem duga sagði hann. Eftir tíma hjá honum fór ég rosalega mikið að stúdera golfsköft. Það er margt í leik John Garner, sem ég tileinka mér enn í dag: Hann sagði okkur hvernig við eigum að hugsa – hugsa um hvar hætturnar eru – að það skipti máli hvar tíað er upp – þörfin á að ýta rauðu svæðunum frá – að sjá aldrei bönker. Þetta eru dæmi um ákveðnar grundvallarreglur, sem manni finnst allir eigi að vita um.
Golf 1: Hvað er í pokanum hjá þér?
Guðmundur: Mizuno MP-600 dræver ; Tour Edge blendingur ; 3 tré frá Wilson Staff og Fi5 járnkylfur; MD54° og 58° Wedgar og Odyssey pútter.
Golf 1: Að lokum er eitthvað gott ráð, sem þú getur gefið kylfingum?
Guðmundur: Það verður að hafa þolinmæði. Trúin flytur fjöll; það verður að trúa á fjöllin.
- ágúst. 31. 2024 | 20:00 Golfgrín á laugardegi (8/2024)
- ágúst. 31. 2024 | 17:30 LET Access: Ragnhildur úr leik – Guðrún Brá enn við keppni
- ágúst. 31. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Elías Kristjánsson – 31. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Amanda Moltke-Leth – 30. ágúst 2024
- ágúst. 30. 2024 | 05:52 Íslandsmót golfklúbba: Golfklúbbur Fjallabyggðar Íslandsmeistari í 3. deild karla
- ágúst. 30. 2024 | 05:30 Unglingamótaröðin 2024: Eva Íslandsmeistari í holukeppni í fl. 17-18 ára stúlkna
- ágúst. 29. 2024 | 23:00 Áskorendamótaröð Evrópu ´24: 4 íslenskir kylfingar meðal keppenda í Konopiska
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 Unglingamótaröðin 2024: Veigar Heiðarsson Íslandsmeistari í holukeppni í piltafl.17-18 ára
- ágúst. 29. 2024 | 18:00 LET Access: Guðrún Brá og Ragnhildur meðal keppenda á Get Golfing Womens meistara- mótinu
- ágúst. 29. 2024 | 17:00 Hjördís fór holu í höggi!
- ágúst. 29. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingar dagsins: Sigríður Anna Kristinsdóttir og Aron Atli Bergmann Valtýsson 29. ágúst 2024
- ágúst. 28. 2024 | 21:00 GFH: Þorbjörg og Kjartan Ágúst klúbbmeistarar 2024
- ágúst. 28. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Lee McLeod Janzen —– 28. ágúst 2024
- ágúst. 27. 2024 | 18:00 PGA: Bradley sigraði á BMW meistaramótinu
- ágúst. 27. 2024 | 16:00 Afmæliskylfingur dagsins: Aldís Ósk Unnarsdóttir – 27. ágúst 2024