Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 9. 2013 | 19:30

Viðtalið: Hrafn Guðlaugsson, GSE.

Viðtalið í kvöld er við klúbbmeistara GSE, 2012 Hrafn Guðlaugsson. Hrafn spilar í bandaríska háskólagolfinu með golfliði Faulkner University í Alabama, í Bandaríkjunum og hefir gengið virkilega vel í vetur!  Hér er ekki bara á ferðinni frábær kylfingur heldur einstaklega viðkunnanlegur ungur maður:

Fullt nafn:  Hrafn Guðlaugsson.

Klúbbur:  GSE – Setbergið í Hafnarfirði.  Upphaflega var ég í GFH (Golfklúbbi Fljótsdalshéraðs).

Hvar og hvenær fæddistu?  Ég fæddist í Reykjavík, 21. október 1990.

Hvar ertu alinn upp?   Ég ólst upp á Djúpavogi þangað til ég var 8-9 ára og flutti þá til Egilsstaða.

Hrafn Guðlaugsson. Mynd: Í einkaeigu.

Hrafn Guðlaugsson. Mynd: Í einkaeigu.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?   Pabbi og síðan bara margir ættingjar, bræður pabba og mömmu spila golf – Mamma er að byrja – mamma keypti sér einmitt golfskó í dag (7. janúar 2013). Ég á eldri bróður,  sem býr í London og heitir Freyr og hann er svolítið í golfinu sér til gamans, en var aðallega í fótbolta.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?    Ég var byrjaður að leika mér í golfi á Djúpavogi, svona 6-7 ára gamall.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?   Ætli ég hafi ekki snemma byrjað að leika mér með pabba og frændum mínum; síðan þróaðist það meir þegar ég fékk fyrsta settið mitt 7 ára. Það var mikill áhugi frá upphafi. Ég var mikið í fótbolta, en síðan meiddist ég eitt sumarið og endaði með að spila golf allt sumarið 2002.

Ertu ánægður með frammistöðuna í golfinu ef þú horfir yfir liðið ár, 2012?  Eftir að hafa verið veturinn 2011-2012 í Bandaríkjuum  þá æfði ég vel á vorönninni og var ánægður með mitt golf í mótum. Ég spilaði mikið í staðinn fyrir að slá 200 boltum á æfingasvæðinu – ég varð stöðugri í leiknum og það gekk bara – það er vanmetið að spila frekar en að hanga á æfingasvæðinu. Það gekk vel þarna um veturinn en þegar ég kom heim meiddist ég í úlnliðnum þannig að fyrri hluta sumarsins var lítið golf spilað.

Hvað tókstu þátt í mörgum mótum s.l. sumar? Ég spilaði bara í 3 mótum og síðan sveitakeppni GSÍ. Ég tók þátt í fyrsta móti Eimskipsmótaraðarinnar í Leirunni og gekk ágætlega fyrri hringinn en illa síðari hringinn. Þar var ég farinn að finna fyrir meiðslum. Eins og ég sagði spilaði ég lítið sem ekkert golf hér á Íslandi. Síðan tók  ég aðeins á þessu í lok júní eða byrjun júlí og var kominn í þokkalegt form í júlí. Ég spilaði vel í Meistaramóti GSE, var  7 undir pari eftir 2 daga og átti í mikilli baráttu við Óla Jóh. Íslandmótið í höggleik voru vonbrigði vegna þess að ég var ekki í nógu góðu spilformi. Það var í rauninni ekki fyrr en í sveitakeppninni, sem mér var farið að líða vel með golfið mitt.

Hrafn Guðlaugson, GSE og Faulkner University. Mynd: Í eigu Hrafns

Hrafn Guðlaugson, GSE og Faulkner University. Mynd: Í eigu Hrafns

Í hvaða starfi/námi ertu?  Ég er að læra viðskiptafræði til BS gráðu (Business Administration) í Faulkner University í Alabama, í Bandaríkjunum.

Hvað kom þer mest á óvart við Bandaríkin? Ég er í Suðurríkjunum (Alabama) Það kom mér e.t.v. mest á óvart hvað Bandaríkjamenn eru að mörgu leyti kurteisir og almennilegir.  Og svo allur djúpsteikti maturinn þarna.

Lýstu venjulegum skóladegi hjá þér í Bandaríkjunum + æfingum?    Ég reyni að hafa stundatöfluna þannig að ég fer  í skólann kl. 7 og er síðan búinn kl. 12. Svona er það mánudaga-fimmdaga. Síðan fær maður sér  hádegismat og svo er brunað út á völl. Þá er annaðhvort farið að spila 18 holur eða æft vel. Suma daga æfir maður allan daginn – eða æfir og spilar 9 holur. Við höfum um 3 heimsklassa golfvelli að velja í Prattville, Alabama; þeir eru á svonefndum RTJ Trail en RTJ er stytting á Robert Trent Jones, sem var arkítektinn.  Aðstaðan er frábær fyrir alla þætti golfsins, líka stutta spilið.  Maður kemur oft ekki heim fyrr en byrjar að dimma. Þá fæ ég mér eitthvað að borða og lít á heimavinnuna. Og um kl. 20 er suma daga farið í ræktina. Það er frí á föstudögum, laugardögum og sunnudögum í skólanum, en þá erum við samt oft að spila upp á að komast í liðið –  erum við æfingar – og spilum.

Hvað líkar þér best við Bandaríkin?  Veðrið og golfaðstaðan, standardinn á golfinu og hversu í rauninni, að mörgu leyti hversu „easy“ lífið er.  Svo er fínt fólk í kringum mann.

Hvað finnst þér verst við Bandaríkin? Almenningssamgöngur – það varla hægt að labba neitt – maður er svo háður bíl.

Hvernig finnst þér golfvellirnir í Bandaríkjunum samanborið við vellina á Íslandi?   Það er miklu auðveldara að hirða góðan völl í Bandaríkjunum, en á Íslandi þannig að auðvitað eru þeir betri í Bandaríkjunum. Það eru stærri green – hins vegar er ég mjög hrifinn af íslenskum golfvöllum.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?  Ég spila meira úti á skógarvöllum – hins vegar er Royal Dornoch, í Skotlandi einhver skemmtilegasti golfvöllur sem ég hef spilað á. Hann er einn af elstu golfvöllum í heimi og yfirleitt talinn einn af þeim bestu  – það er svolítið misjafnt eftir miðlum en ég hef séð hann á einum listanum sem 3. besta völlinn og á öðrum sem 13. besta golfvöll í heimi.  Hann er ólíkur öðrum og alveg einstakur; hannaður af Donald Ross.

10. brautin á Royal Dornoch golfvellinum í Skotlandi, linksara sem Hrafni finnst skemmtilegt að spila á. Royal Dornoch er einn elsti og besti golfvöllur heims.

10. brautin á Royal Dornoch golfvellinum í Skotlandi, linksara sem Hrafni finnst skemmtilegt að spila á. Royal Dornoch er einn elsti og besti golfvöllur heims.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?   Eftir sveitakeppnina s.l. sumar er ég ekki frá því að holukeppni sé skemmtilegri – maður er ekki jafnstressaður;  getur andað  og spilað djarft.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?   Vestmannaeyjar, Hvaleyrin hjá Keili síðan eru margir aðrir mjög góðir.

Frá Vestmannaeyjavelli einum uppáhaldsgolfvalla Hrafns á Íslandi. Mynd: eyjafréttir.is

Frá Vestmannaeyjavelli einum uppáhaldsgolfvalla Hrafns á Íslandi. Mynd: eyjafréttir.is

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?   Torreby (Svíþjóð) þar sem ég bjó 2010-2011 í Munkedal – Sea Island í Georgíu – það svæði er draumastaður til að búa á í framtíðinni (uppáhaldvöllur og svæði).

Frá Torreby golfvellinum í Svíþjóð, uppáhaldsgolfvelli Hrafn erlendis.

Frá Torreby golfvellinum í Svíþjóð, einum af uppáhaldsgolfvöllum Hrafns erlendis.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?   Einn af 3 sem við æfum á í Faulkner er kallaður the Judge. Hann er mjög sérstæður og það byrjar strax á 1. teig, þar sem fallhæðin er beint niður og hindranir allsstaðar,  vatn hægra megin og skógur vinstra meginn. Síðan er vatn á hverri einustu braut. Allir par-þristarnir eru yfir 200 metra langir og maður er að slá yfir vatn og á eyjur. Svo er ein par-5 braut sem er  711 yardar (650 metrar) Nafnið á vellinum er lýsandi maður fær dóm á hversu góður kylfingur maður er. Þetta er einn sá erfiðasti sem ég hef spilað.

Frá The Judge, RTJ golfvellinum í Prattsville sem Hrafni finnst einn sá sérstakasti!

Frá The Judge, RTJ golfvellinum í Prattsville sem Hrafni finnst einn sá sérstakasti! Mynd: Í eigu Hrafns

Hvað ertu með í forgjöf?   Ég held að ég sé með 1 í forgjöf.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   Lægsta skorið? Ætli það sé ekki 2. hringurinn minn í Meistaramóti GSE 2012, 4 undir pari á Setbergsvelli. Annars hef ég spilað 9 holu æfingahringi á 4 undir líka.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?   Eitthvert skemmtilegasta mótið sem ég vann var þegar ég bjó í Svíþjóð hjá Sturlu Höskuldsyni, golfkennara og Kristínu. Mótið var á Scandia Tour – sænska undir 20 ára og þar sigraði ég í tiltölulega sterku móti í Gautaborg. Það sem var svolítið fyndið við þetta var að það er hefð að sigurvegarinn haldi ræðu, þannig að ég varð að halda ræðu á sænsku. Ég notað orð eins og jævla bra og það var mikið hlegið!

Hefir þú farið holu í höggi?  Nei, ekki enn.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Banana og granola bars – herbalife shake til að viðhalda orkunni – maður finnur fyrir því á síðustu holunum  hvað þeir gefa mikið – sérstaklega þegar vakna þarf snemma.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?   Ég æfði fótbolta í mörg ár með Hetti á Egilsstöðum , hætti því 2009 þegar ég fótbrotnaði og eftir það einbeitti ég mér algerlega að  golfinu. Svo var ég í handbolta undir leiðsögn Pétur Fannars Gíslasonar.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn;  uppáhaldsdrykkur; uppáhaldstónlist; uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók? Uppáhaldsmaturinn minn er humarpasta-ið hennar mömmu; uppáhaldsdrykkurinn er kók; uppáhaldstónlist: Alt-J (∆) , Bítlarnir,  Arcade Fire, the Strokes og síðan er ég mikill Jack White maður; uppáhaldskvikmyndir: Shawshank Redemption og Big Lebowski; uppáhaldsbók: erfitt að segja maður verður bara að segja Hugleiksbókin  (nýjasta bók Hugleiks Dagssonar).

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?   Kk: Luke Donald og síðan hefir Tiger Woods verið í uppáhaldi lengi. Kvk: Lexi Thompson – hún sló aldursmetið á LPGA (var yngst til að vinna mót á þeirri mótaröð) í Prattsville Alabama í hittifyrra, (2011) á Navistar mótinu og þar var ég að vinna við að koma skori hennar og annarra keppenda beint inn á vef LPGA.

Lexi Thompson, er uppáhaldskvenkylfingur Hrafns.

Lexi Thompson, er uppáhaldskvenkylfingur Hrafns.

Hvert er draumahollið?   Ég og …. Tiger,  David Beckham og Luke Donald.

Hvað er í pokanum hjá þér?  Ég er með Titleist járn og AB2 wedga og Vokey. Ég ætla að skoða málin í trékylfunum. Svo er ég með TaylorMade R-11 Dræver og R-9 TaylorMade 3-tré.  Pútterinn er Scotty Cameron GoLow með breiðu gripi. Ég bæti kannski við blendingi og nýjum trékylfum.

Hefir þú verið hjá golfkennara?    Já, já – hann er búinn að hjálpa mér mikið Sturla Höskuldsson hann flutti á Egilsstaði þegar ég var þar – og svo fór ég til Svíþjóðar – hann er frábær kennari og náungi.

Ertu hjátrúarfullur?    Já – t.d. ef ég byrja hring í rigningu og er að spila mjög vel þá fer ég ekki úr gallanum. Eins nota ég ekki hvaða tí sem er, nota t.d. ekki svört tí;  hef þau helst hvít.

Hrafn Guðlaugsson, GSE og Faulkner University. Mynd: Í eigu Hrafns

Hrafn Guðlaugsson, GSE og Faulkner University. Mynd: Í eigu Hrafns

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu?   Gróflega ætla ég að ég að reyna að taka 2013 af virkilegri alvöru – setja mér markmið. Ég ætla að spila á Eimskipsmótarðinni og taka þetta ár á fullu og síðan í lífinu að byrja á því að læra og síðan bara vera hamingjusamur og sáttur við lífið.

Hver heldur þú að vinni Tournament of Champions? (Spurt 7. janúar 2013)  Frændi okkar Jonas Blixt.

Hvað finnst þér best við golfið?   Hvað þetta er yfir höfuð frábær íþrótt, frábær félagsskapur og maður fær útrás fyrir keppnisskapið. Golfið er hin fullkomna íþrótt …. og svo að maður hittir alltaf nýtt fólk.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?  Hún er frekar há – maður er alltaf að verða betri og betri en þarf að vinna í því eins og golfinu sjálfu. Hausinn skiptir miklu máli.

Að lokum: Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?   Já, golfið er ekki spurning um að slá fullkomlega heldur um að koma boltanum í holuna. Það verður að leggja mikla áherslu á vipp og pútt – þótt langa spilið sé mikilvægt líka – en leggja mestu áherslu á innan við 100 metrana. Svo er alltaf gott að spila mikið golf, í staðinn fyrir að gleyma sér á mottunum.