Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 15. 2021 | 19:30

Viðtalið: Hulda Clara Gestsdóttir – Íslandsmeistari í höggleik 2021

Viðtalið í kvöld er við einn besta kvenkylfing Íslands, Huldu Clöru Gestsdóttur, nýbakaðan Íslandsmeistara í höggleik.

Hún tók sér góðfúslega tíma til þess að svara nokkrum spurningum, sem fara hér á eftir.

Hulda Clara Gestsdóttir, Íslandsmeistari í höggleik á Jaðarnum í ágúst 2021. Mynd: GSÍ

Fullt nafn: Hulda Clara Gestsdóttir.

Klúbbur:  GKG.

Hvar og hvenær fæddistu?   Ég fæddist 5. mars árið 2002, í Atlanta, Georgia, í Bandaríkjunum.

Hvar ertu alin upp?  Ég bjó fyrstu þrjú árin í Bandaríkjunum og flutti síðan í Kópavoginn þar sem ég bý enn í dag.

Í hvaða starfi/námi ertu? Í sumar starfaði ég á golfleikjanámskeiði GKG. Í haust er ég að fara í viðskiptafræði við Denver háskóla í Bandaríkjunum.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?   Allir í fjölskyldunni spila golf nema mamma en hún horfir mest á golf í fjölskyldunni.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Golfferillinn byrjaði á golfleikjanámskeiði GKG árið 2008 þegar ég var 6 ára.

Hulda Clara Gestsdóttir, GKG ásamt kaddýnum, Gesti föður sínum á móti Íslandsbankamótaraðarinnar (nú: Unglingamótaröð GSÍ) þá 12 ára., farin að keppa í golfi fyrir alvöru. Mynd: Golf 1

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?   Ég fékk fyrsta golfsettið mitt í 3 ára afmælisgjöf en var of hættuleg með það þannig það var tekið af mer. Pabbi skráði mig á golfleikjanámskeið GKG og sumarið eftir það byrjaði ég að æfa hjá GKG og er þar enn:)

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?   Skógarvelli.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Holukeppni er skemmtilegt leikfyrirkomulag, en mér líkar betur við höggleik.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi? Þeir eru nokkrir en Brautarholtið er einn af uppáhalds (völlunum)

„Gullkistuvíkin“ par-3 5. brautin á Brautarholtsvelli – ein besta par-3 hola á Norðurlöndum skv. „The Finest“ og völlurinn í 40. sæti skv. hinu virta Golf Digest!!!. Brautarholtið er í uppáhaldi hjá Huldu Clöru. Mynd: Golf 1

Hefir þú spilað alla velli á Íslandi ? Hvaða velli hefir þó spilað? Ég hef spilað alla 18 holu velli á Íslandi en ekki alla 9 holu.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Ég hef spilað á þó nokkrum völlum erlendis en ég verð að segja að Royal County Down í Norður Írlandi sé í uppáhaldi. Var svo heppin að fá að spila þann völl sjö sinnum í sumar.

Royal County Down er í uppáhaldi hjá Huldu Clöru

Hvað ertu með í forgjöf?  Forgjöfin stendur í +3,5.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því? Lægsta skor er 5 undir pari. Það var á lokadagur á móti í Þýskalandi, á velli sem heitir St. Leon Rot.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?  Íslandsmeistari í höggleik 2021.

Hefir þú farið holu í höggi?  Nei ég hef ekki farið holu í höggi en ég hef nokkrum sinnum verið ansi nálægt því.

Spilar þú vetrargolf? Ég spila ekki mikið vetragolf, ég fæ mun meira út úr því að æfa mig og spila í glæsilegri inniaðstöðu GKG.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?  Ávexti, grænmeti, flatkökur, orkustykki, vatn, safi, hleðsla, grískt jógúrt, hnetur og samlokur eru dæmi um það sem mér finnst gott að hafa með mér í nesti, ég vil hafa það hollt og gott.

Hulda Clara Gestsdóttir, GKG á móti á Eimskipsmótaröðinni (nú mótaröð þeirra bestu) á Hamarsvelli í Borgarnesi, árið 2017 Mynd: Golf 1

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?   já ég æfði fótbolta hjá Breiðablik í 8 ár.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Hakk og spagettí (verður að vera parmesan með).

Uppáhaldsdrykkur?  Nýkreistur appelsínu safi með fullt af aldinkjöti og klökum.

Uppáhaldsbók? Bækurnar eftir Ragnar Jónasson eru góðar.

Uppáhaldstónslist?  Ég er ekki með neina eina ákveðna uppáhalds tónslist, finnst margt gott.

Uppáhaldskvikmynd?  Það er engin ein í uppahaldi en mér finnst marvel myndirnar mjög góðar.

Notarðu hanska? Já í öllum höggum á vellinum fyrir utan á grínunum.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?
Kvk: Annika Sörenstam
Kk: Tiger Woods

Hulda Clara Gestsdóttir, GKG. Mynd: GSÍ

Hvert er draumahollið?  Ég, Tiger Woods, Rory Mcllroy og Barack Obama.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?    Í pokanum er ég með:
Driver: Taylormade Sim2max
3tré: Titleist TS2 ,
Hálfviti: 818H Titleist
4 járn – 50°:  AP2 Titleist
54°: SM8 Titleist
58°: SM8 Titleist
Pútter : Scotty Cameron Newport.

Hefir þú verið hjá golfkennara? Já ég er í fullri þjálfun, þjálfararnir mínir í gegnum tíðina hafa verið Derrick og Haukur Már, en núverandi þjálfari minn er Arnar Már Ólafsson. Þeir hafa allir mótað mig að þeim leikmanni sem ég er í dag:)

Ertu hjátrúarfull?  Já ég myndi segja að ég sé nokkuð hjátrúafull þegar kemur að golfinu. Ég t.d. nota ekki notað gul tí, ég laga alltaf torfusneppla og boltaför eftir mig svo að völlurinn verði góður við mig á móti. (t.d. svo ég lendi ekki í vondri legu eða verð óheppin með skopp.)

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu?  Meginmarkmiðið í golfinu er að komast sem lengst í atvinnumennskunni.

Hvað finnst þér best við golfið?  Það besta við golfið finnst mér þegar ég næ markmiði sem ég hef lagt hart að mér og mikla vinnu við að ná.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)? Andlega hliðin er ansi há, kannski 50%

Hulda Clara Gestsdóttir, Íslandsmeistari kvenna í golfi 2021. Mynd: GSÍ

Nú ert þú Íslandsmeistari í höggleik 2021, hvað er þér minnisstæðast frá nýliðnu Íslandsmóti? Það minnistæðastast er líklegast lokaholan. þegar ég var búin að slá teighöggið, að sjá alla í kringum grínið og klúbbhúsið að fylgjast með og síðan að sjalfsögðu að setja síðasta púttið niður og verða þá Íslandsmeistari. Þetta var æðisleg tilfinnining og ansi mikið spennufall.

Íslandsmótið fór fram á Jaðarsvelli á Akureyri 5.-8. ágúst 2021 – Hvernig fannst þér Jaðarinn?  Jaðarsvöllur er frábær keppnisvöllur. Ég var búin að heyra að brautirnar væru ekki góðar áður en ég fór norður. Hann var mun betri en ég bjóst við. Ég fór til Akureyrar á föstudeginum 30. júlí þá voru grínin dáltið hæg, en þegar það var búið að slá grínin og valta fannst mér þau mjög fín. Þau hentuðu mér allavegana:) Það voru leyfðar færslur á brautum, þannig mér fannst þetta bara mjög fínt:)

Hver er uppáhaldsbrautin þín á Jaðarnum? 2. hola á Jaðarnum var ansi skemmtileg, þar sem þetta er mikil fugla hola og ef maður á gott innáhögg þá er möguleiki á erni. (Innskot Golf1: Hulda Clara var einmitt ein af 16, og aðeins ein af 4 kvenkylfingum, sem fékk örn á Íslandsmótinu og hennar kom einmitt á 2. holunni – sem Golf1 tekur undir með henni að sé frábær braut!!!)

Hver eru framtíðarplönin í golfinu? Eins og staðan er í dag stefni ég á atvinnumennskuna þegar ég hef lokið háskólanámi.

Að lokum: Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum? Já, ráð sem ég gef kylfingum er að setja sér markmið, maður nær mun meira árangri með því að setja sér góð og raunhæf markmið.