Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 17. 2012 | 18:55

Viðtalið: Ingi Rúnar Gíslason

Ingi Rúnar Gíslason er hættur sem íþróttastjóri hjá GKJ. Óvíst er hvað tekur við hjá honum en eitt er víst að hann mun spila meira golf á n.k. sumri en hann hefir gert mörg undanfarin ár. Hér birtist viðtal kvöldsins við fv. íþróttastjóra GKJ:

Fullt nafn:  Ingi Rúnar Gíslason.

Klúbbur: Enginn sem stendur.

Hvar og hvenær fæddistu?  Ég fæddist á Akranesi, 16. maí 1973.

Hvar ertu alinn upp?  Á Akranesi.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður? Ég er trúlofaður Maríu Pálsdóttur og á með henni 3 börn.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Ég byrjaði 13 ára gamall uppi á Akranesi.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Ég flutti við hliðina á golfvellinum.

Hvað starfar þú? Ég er golfkennari.

Hvort kanntu betur við skógar- eða strandvelli?  Ég kann vel við hvorutveggja. Hvorutveggja hefir sinn sjarma en sögunnar vegna líkar mér betur við strandvellina.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Holukeppni –  þannig var golf hugsað og spilað fyrst.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?  Vestmannaeyjar.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum nema á Íslandi? Carnoustie og Real Club Sevilla.

Frá Real Club de Sevilla, öðrum uppáhaldsgolfvelli Inga Rúnars.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?    Það er golfvöllur rétt Val del Este og er í fjalllendi. Hann er sérstakur út af því hvar hann er staðsettur, hann er í fjallshlíð.  Það sem er sérstakt er aðallega landslagið.

Hvað ertu með í forgjöf?  0,1.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   Lægsta skorið eru 62 högg í GOB . Besta skorið 66 (af hvítum) hjá Kili í Mosfellsbæ.

Hvert er lengsta drævið þitt?  Þori ekki að fara með það – alla leið allaveganna.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?   Sem þjálfari 16 Íslandsmeistaratitilar hjá þeim sem ég hef þjálfað – 3 klúbbmeistaratitilar 1 í Garðabæ og 2 í Mosfellsbæ.

Hefir þú farið holu í höggi?  Já, 5 sinnum en tvisvar sinnum löglega og 3 ólöglega. Löglega fór ég á Akranesi, þ.e.  gömlu 5. holunni og síðan á 1. holu hjá  Kili   –    Uppi í Garðabæ setti ég hann out of bounce, en náði síðan góðum fugli á 4. holu. Síðan fór drævið niður á 10. braut á Hvaleyrarvelli og loks fór ég holu í höggi á 18. braut á Jaðrinum, en það var líka æfingahringur.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?    Vatn, Poweraid og banana.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum? Nei, ekki að neinu ráði – Ég var einu sinni unglingameistari í pílukasti – ég spilaði fótbolta mikið eins og allir aðrir Skagamenn, en æfði aldrei.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn; uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?   Uppáhaldsmaturinn minn er góð nautasteik annaðhvort Éntrecôte eða Rib Eye, lítið steikt; uppáhaldsdrykkurinn er íslenskt vatn, en ég segi aldrei nei við góðu rauðvíni; ég hlusta mikið á rock; uppáhaldskvikmynd er Dumb and dumber og uppáhaldsbókin er Golfers Mind.

Hver er uppáhaldskylfingur þinn; nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?   Kk: Ben Hogan  Kvk: Annika Sörenstam.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er er uppáhaldskylfan þín?    Pokinn minn er fullur af  Titleist dóti og uppáhaldskylfan mín er dræverinn.

Hefir þú verið hjá golfkennara?  Já, Herði Arnarsyni. Hann er eini íslenski golfkennarinn sem ég hef verið hjá. Svo hef ég verið hjá heimsmeistaranum í Trick Shot, Jeremie Dale.

Ertu hjátrúarfullur?  Já, mjög – á svo marga vegu,  –  t.d. spila ég aldrei með bolta nr. 3

Hvert er meginmarkmiðið í golfinu og í lífinu? Í golfinu er það að verða betri í dag en í gær og í lífinu er það, það sama.

Hvað finnst þér best við golfið?  Það sem er best við golfið er aginn og þessi tími sem þú hefir með sjálfum þér kynnist sjálfum þér vel – það eru ekki margir sem þekkja sjálfa sig eins vel og golfarar.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andlegur (í keppnum)?   80%. Stór hluti golfsins er andlegur. Sem golfkennari er ég oft meira í hlutverki sálfræðings en kennara í tæknilegum atriðum.

Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?     Æfðu þig eftir hring ekki fyrir hring.

Spurning frá kylfing sem var í viðtali á undan Inga Rúnari er eftirfarandi:

Hvað er það mesta sem þú hefir leikið á einum degi?

Svar Inga Rúnars: Við félagarnir spiluðum eitt sitt 93 holur á Garðavelli á Akranesi og vorum tæpa 12 tíma að. Völlurinn var tómur.

Spurning Inga Rúnars fyrir næsta kylfing:  Hefir þú prófað að pútta með Scotty Cameron pútter?

Viðtalið við Inga Rúnar er tekið fram fyrir nokkur viðtöl vegna fréttnæmis þess að hann skuli vera hættur sem íþróttastjóri GKJ.

Spurning frá næsta kylfingi til að halda réttri röð er: Ef þú fengir frí vallargjöld á 1 velli til æviloka, hvaða völl myndir þú velja?