Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 6. 2013 | 20:00

Viðtalið: Júlíus Hafsteinsson GR og GÖ

Viðtalið í kvöld er við einn félaga í Elítunni, lokaðs félagsskaps lágforgjafarkylfinga í GR, sem hefir að markmiði að spila golf og hafa gaman.  Hér fer viðtalið:

Fullt nafn: Júlíus Geir Hafsteinsson.

Klúbbur:  GR & GÖ.

Hvar og hvenær fæddistu?  Ég er fæddur í Vestmannaeyjum 1. janúar 1963.

Hvar ertu alinn upp?   Ég er alinn upp í Kópavogi.

Júlíus Hafsteinsson, GR og GÖ, hér á góðri stundu í Elítu-samkvæmi. Mynd: golfelítan.is

Júlíus Hafsteinsson, GR og GÖ, hér á góðri stundu í Elítu-samkvæmi. Mynd: golfelítan.is

Í hvaða starfi ertu?  Ég er framkvæmdastjóri Parka.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?   Konan mín spilar golf og sonur minn 8 ára – tveir aðrir synir mínir eru líka í golfi.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Ég er búinn að gutla í golfi frá 30 aldri en byrjaði formlega 2007 og skráði mig í klúbb.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?   Ég á sumarbústað í Öndverðarnesi… og byrjaði að fikta þar.  

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?  Strandvelli, vegna þess að þá er ég ekki týndur í skóginum.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Holukeppni, vegna þess að þá á maður með meiri sjéns.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?   Grafarholtið og nr. 2 er Öndverðarnesvöllurinn – það er erfitt að gera þar upp á milli.

Það er fallegt í Öndverðarnesinu. Mynd: Golf 1.

Það er fallegt í Öndverðarnesinu – öðrum uppáhaldsgolfvalla Júlíusar á Íslandi. Mynd: Golf 1.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum? Grand Cypress á Flórída.

Frá Grand Cypress golfvellinum - uppáhaldsgolfvelli Júlíusar erlendis.

Frá Grand Cypress golfvellinum – uppáhaldsgolfvelli Júlíusar erlendis.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Meðaldalsvöllur á Þingeyri, maður er að slá yfir foss inn á frímerkisflöt.

Fossinn á 7. braut Meðaldalsvallar á Þingeyri. Brautin þykir ein sú fallegasta á landinu. Mynd: Bæjarins besta.

Fossinn á 7. braut Meðaldalsvallar á Þingeyri. Brautin þykir ein sú fallegasta á landinu. Mynd: Bæjarins besta.

Hvað ertu með í forgjöf?  17,8

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   Lægsta skorið er 83 högg í Öndverðarnesinu.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?   Ég náði erni á 16. í Öndverðarnesinu í meðvind og roki, náði milli bönkerana í 2. höggi og var 40 metra frá pinna og chippaði beint ofan í.

Hefir þú farið holu í höggi?  Nei, en hef verið nálægt því á 2. brautinni á Öndverðarnesinu, kúlan lá á holukantinum 3 cm frá.  Þeir sem voru með mér héldu að hún hefði farið ofan í en hún virðist hafa farið í og skoppað upp úr aftur.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Flatköku með hangikjöti, kristall og eitt Corny.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?   Já, ég hef verið í fótbolta, handbolta og körfubolta og mikið í jazz ballett (Hjá JBB).

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?    Uppáhaldsmaturinn minn er góð nautasteik og hvítlauksristaðir humarhalar: uppáhaldsdrykkurinn er gott rauðvínsglas; uppáhaldstónlistin: allt með Queen og 10CC ; uppáhaldskvikmyndin: er sú sem ég horfði á síðast Django Unchangedeftir Tarantino Uppáhaldsbók: „Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf” eftir Jonas Jonason.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?   Kvk.:  Annika Sörenstam  Kk: Rory McIlroy.

Hvert er draumahollið?   Ég og ….  McIlroy að sjálfsögðu og Tiger og svo væri gaman að hafa Leibba með úr Elítunni.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Titleist kylfur. Uppáhaldskylfan er  56° Tommy Armour fleygjárnið mitt.

Hefir þú verið hjá golfkennara?   Já,hjá Röggu Sig. – Hún er Elítukennarinn.

Ertu hjátrúarfullur?   Nei.

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu? Í golfinu: Njóta þess meðan maður hefur heilsu og þrek að vera í golfinu og nr. 1, 2 og 3 að hafa gaman.  Í lífinu: Að lifa lífinu lifandi og njóta hverrar stundar og vera þakklátur fyrir það sem maður fær út úr þessu öllu saman.

Hvað finnst þér best við golfið?   Útiveran og félagsskapurinn.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?  Hún er allt of há, maður hugsar of mikið um hluti sem maður ætti ekki að hugsa um og stressar sig á smáatriðum.  Ég segi bara 70%

Að lokum: Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?    Vera jákvæðir.