Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 22. 2012 | 22:55

Viðtalið: Ómar Pétursson, GHD

Hér á eftir fer viðtal við Ómar Pétursson, formann vallarnefndar hjá Golfklúbbnum Hamar á Dalvík (GHD).  Hann hefir eftirtektarverðar skoðanir t.a.m. telur Ómar að tilviljanir séu ekki til, hvorki í lífinu né golfinu. Eins hefir Ómar ákveðnar skoðarnir á nýju reglunum sem tóku gildi í vor, um hvernig skrá eigi skor til forgjafar. Hér er víðtalið:

Fullt nafn: Ómar Pétursson.

Klúbbur:  Golfklúbburinn Hamar á Dalvík (GHD).

Hvar og hvenær fæddistu?    Ég fæddist 9. apríl 1969 og er Bakkfirðingur.

Hvar ertu alinn upp?  Á Bakkafirði – ég bjó þar alveg þar til ég flutti á Dalvík 1997.

Ómar hugsi á svip …. og ósáttur við nýju reglurnar til skráningar forgjafar. Mynd: Golf 1

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?   Ég er kvæntur og  við eigum 3 börn. Strákurinn æfði golf – en í augnablikinu er ég sá eini sem spila.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?   1997. 

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?   Það var auglýst byrjendanámskeið, Konan mín spurði mig hvort mig langaði ekki að skreppa. Ég ákvað að skreppa og hef ekki séð eftir því. Ég var sá eini sem mætti og var í einkakennslu hjá David Barnwell.

Hvað starfar þú?   Ég er hjá O. Jacobson ehf. fiskvinnslu.  Ég er verkstjóri hjá þeim og það er allt í lagi að gera.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?    Mér líkar betur við skógarvelli. Ég hef spilað fáa strandarvelli en mér finnst þeir of harðir og of mikill sandur á þeim. Ég kýs meira skjólið og mér finnst meiri tengsl við náttúruna á skógarvöllum.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?   Höggleikur.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?  Arnarholtsvöllur á Dalvík.  Bestu stundirnar að spila eru kl. 22 að kvöldi í logni og friði. Þá er svo mikil kyrrð og friður.

7. flötin á Arnarholtsvelili, uppáhaldsgolfvelli Ómars. Mynd: Golf 1.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Old Course St. Andrews.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju? Golfvöllurinn í Húsafelli. Mér fannst sérstakt að standa á 9. teig. Svo spilar þú líka 2 brautir yfir ánna.

Hvað ertu með í forgjöf?   26,5.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?  98 högg á Arnarholtsvelli.

Hvert er lengsta drævið þitt?  240 metrar.

Hvað finnst þér um nýju reglurnar að maður verði að skrá forgjafarhring og láta meðspilara staðfesta skorið  Mér finnst nýju reglurnar með skráningu hjá GSÍ mikil synd, vegna þess að ég hef alla tíð skráð hvern einasta hring og hélt allri tölfræði fyrir mig því mig langaði til að halda utan um golfsöguna mína. Fram til þess hefir þetta verið svo auðvelt, nú er allt miklu erfiðara, nánast verið að eyðileggja fyrir manni þá aukaskemmtun, sem fellst í því að fylgjast með hvernig manni gengur og hvaða framförum maður tekur. Hérna á Dalvík er maður svo oft að spila einn og nú get ég ekki lengur skráð hringi sem kannski hefðu lækkað forgjöfina hjá mér. Mér finnst þetta einum of mikil eftirlitsstarfsemi. til þess að fylgjast með 5% kylfinga sem svindla.  Við úti á landi og stór hluti kylfinga líðum fyrir það að stóru klúbbarnir eru að reyna að takmarka umferðina á vellina sína.  Ég ætlaði t.d. að spila hring á Hvaleyrinni, í Hafnarfirði, en fékk ekki að spila hann. Hefði ég fengið að skrá þá hringi, sem ég spilaði einn hér á Dalvík hefði það nægt til þess að komast niður í þá forgjöf sem krafist var á Hvaleyrinni. Þess í stað var mér vísað á Sveinkotsvöll og ég kominn alla leið frá Dalvík til þess að spila „ á stórum velli.” Það er aftur önnur saga. En mér  finnst felast of mikil forræðishyggja í nýju reglunum og mér líkar ekki svoleiðis.

Frá „vöggu golfíþróttarinnar“ St. Andrews uppáhaldsgolfvelli Ómars Péturssonar, GHD, erlendis.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?   Ég er búinn að fá nokkra fugla.

Hefir þú farið holu í höggi?  Nei, ég á það eftir.

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Vatn og banana.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?   Já, blaki ég stundaði það á yngri árum.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?    Uppáhaldsmaturinn: Grillaður höfrungur; uppáhaldsdrykkur: íslenska vatnið;  uppáhaldstónlist: allt með U2; uppáhaldsbók: Hringadróttinssaga – Hilmir snýr aftur 3. hluti og allar bækur (43) eftir Tom Clancy. Uppáhaldskvikmyndin: Hunt for Red October með Sean Connery í aðalhlutverki Sjá má trailer-inn með því að SMELLA HÉR:

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?    Seve Ballesteros og Ragga Sig.

Hvert er draumahollið?    Ég og…… Vijay Singh, Ernie Els og Seve Ballesteros.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?  Ég á RAM-sett – ég hef aldrei notað dræver- við eigum ekki samleið þó hann sé með Liverpool cover-i . Uppáhaldskylfan mín er  7-járnið

Ómar er mikill aðdáandi Liverpool.

Hefir þú verið hjá golfkennara?   Já ég var hjá David Barnwell, svo hef ég verið hjá Árna Jónssyni og aðeins hjá Heiðari Davíð.

Ertu hjátrúarfullur?  Nei

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu?    Í golfinu er það að hafa gaman af því nr. 1,2.og 3 og í lífinu að lifa lífinu lifandi.

Hvað finnst þér best við golfið?    Afslöppunin og félagsskapurinn.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?   50%

Að lokum: Ertu með eitthvað gott ráð handa kylfingum?    Já, umfram allt að hafa gaman af því sem þú ert að gera.