Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 2. 2012 | 05:00

Viðtalið: Ragnhildur Sigurðardóttir, GR.

Viðtalið í kvöld er við eina af golfdrottningum okkar Íslendinga, sjálfa Ragnhildi Sigurðardóttur, sem mörgum er að góðu kunn sem frábær golfkennari.  Hún er einmitt að leggja land undir fót og hverfur til starfa á Spáni eftir 2 vikur, þar sem hún ásamt Magnúsi Birgissyni og Herði H.Arnarsyni hefir löngum kennt Íslendingum hina háu kúnst golfíþróttarinnar á Costa Ballena. Í framhaldi af viðtalinu við Ragnhildi verða golfvellir Cadíz svæðisins kynntir s.s. lofað var hér fyrr á árinu og fer fyrsta greinin í loftið á Golf 1 á morgun og að sjálfsögðu byrjað á uppáhaldsgolfvelli Ragnhildar. Hér fer viðtalið:

Fullt nafn: Ragnhildur Sigurðardóttir.

Klúbbur: GR.

Hvar og hvenær fæddistu?  London, 21. júní 1970.

Ragnhildur Sigurðardóttir. Myndin er tekin á afmælisdegi hennar fyrir 2 árum.

Hvar ertu alin upp?   Í Grafarholtinu.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður?  Ég er í sambúð og á 2 dætur og 2 fósturdætur.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Í ágúst 1983 .

Hverjar eru helstu breytingarnar frá því þú byrjaðir fyrst í golfinu? Í fyrsta lagi er það fjöldi kylfinga. Fólki, sem stundar golf hefur fjölgað og það eru enn fleiri sem hafa prófað golf. Mínir vinir voru ekki í golfi og höfðu fæstir prófað. Í dag eru mun færri sem hafa ekki prófað, nánast allir sem maður hittir hafa haldið á kylfu einhverntímann.  Nú til dags er mikill metnaður lagður í að halda utan um unglinga- og afreksmál af fagmennsku og ég er mjög ánægð með þróun mála.  Stóru klúbbarnir eru flestallir með menntaða golfkennara í hverju rúmi.  Fram til 1988 voru nær eingöngu breskir golfkennarar, (mjög fáir íslenskir) á Íslandi en með tilkomu hins íslenska golfkennaraskóla eru félagar í PGA á Íslandi orðnir um 50 talsins og bjartir tímar framundan hvað fagmennskuna varðar.  Þegar ég var að byrja í golfi var ég eina stelpan í klúbbnum sem æfði golf.  Aukningin er mikil þrátt fyrir að við vildum sjá kynjahlutfallið breytast meira. Hörð samkeppni eflir íþróttina – og snillingar verða til einn af öðrum.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Bróðir minn byrjaði í golfi árinu á undan mér,  tókst að sannfæra mig og þá var ekki aftur snúið. Hann fékk vinnu upp á golfvelli og saman handtíndum við bolta á æfingasvæðinu með röri.  Oft endaði það í keppni þar sem seinustu boltarnir voru slegnir í átt að hjólbörunum í birtuskilunum.

Hvað starfar þú? Ég er golfkennari.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?  Skógervellir eru meira krefjandi að mínu mati.  Mér finnst æðislegt að glíma við þrengsli og hættur, en jafnframt geta leikið djarft. Styttri krefjandi vellir finnst mér skemmtilegri en langir og breiðir.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleik?  Það er bæði betra. Maður á alltaf að segja það sem manni finnst, er það ekki?  Holukeppnisfyrirkomulagið mætti vera algengara.  Punktakeppni er líka góð leið til þess að jafna leikinn fyrir þá forgjafarhærri. Við lágforgjafarkylfingarnir eigum reyndar nánast engan sjéns þar. Gott dæmi úr eigin reynslubanka var þegar ég spilaði í kvennamóti á 68 höggum í Grafarholtinu.  Það var punktakeppni með forgjöf.  Vallarmetið mitt dugði ekki einu sinni í verðlaunasæti.   Það er alltaf gaman að keppa, þó líkurnar séu litlar, bara að muna: ALLT getur gerst. Það sem er erfitt herðir mann. Að hafa öfluga samkeppni er fín þjálfun og maður verður bara að setja markið hátt.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?  Grafarholtið.

Frá Grafarholtinu - uppáhaldsgolfvelli Ragnhildar á Íslandi. Mynd: grgolf.is

Frá Grafarholtinu – uppáhaldsgolfvelli Ragnhildar á Íslandi. Mynd: grgolf.is

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Montecastillo.

Montecastillo - einn uppáhaldsgolfvalla Ragnhildar erlendis.

Montecastillo – einn uppáhaldsgolfvalla Ragnhildar erlendis.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?    Geysir í Haukadal er dásamlegur og í mjög sérstöku umhverfi í nánd við heimsfrægt hverasvæði. Hvað ætli það séu margir golfvellir í heiminum í nánd við gjósandi hveri?  Fáir átta sig einnig á gæðum flatanna á Geysisvelli, þær eru í hæstu gæðum og lyfta vellinum á háan stall.  Geysisvöllurinn refsar einnig grimmt ef bolti lendir utan brautar því mosi og kjarr tekur við ef höggið geigar.  Ég mæli með Geysisvellinum fyrir leikskipulagsþjálfun afrekshópa.

Geysir í Haukadal er sérstæðasti golfvöllur sem Ragnhildur hefir spilað. Það sem henni finnst m.a. sérstakt við völlinn er að hafa gjósandi hveri í mestu nálægð meðan spilað er golf. Mynd: Golf 1.

Geysir í Haukadal er sérstæðasti golfvöllur sem Ragnhildur hefir spilað. Það sem henni finnst m.a. sérstakt við völlinn er að hafa gjósandi hveri í mestu nálægð meðan spilað er golf. Mynd: Golf 1.

Hvað ertu með í forgjöf?  0,8.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?  Lægsta skorið mitt í móti er -3 ,68 högg á Hvaleyri (vallarmet af bláum teigum), besta skorið mitt er 65 högg á Korpúlfsstöðum þegar hann var par 72.

Hvert er lengsta drævið þitt?  315 metrar í meðvindi í Vestamannaeyjum á 4. braut.  Sviftivindar tóku boltann minn og héldu á honum seinasta spölinn(sem var talsverður spotti).

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu? Mesta viðurkenning sem ég hef fengið er þegar ég var valin íþróttamaður Reykjavíkur árið 2005. Íslandsmeistaratitillinn minn árið 1985, þegar ég varð Íslandsmeistari 15 ára í kvennaflokki á Akureyri er í topp 2.

Hefir þú farið holu í höggi?  Já, tvisvar, bæði skipti með trékylfu:) árið 1990 í Grafarholtinu á 11. braut með 4-tré sem afi minn þúsundþjalasmiðurinn hafði gert við(golfsmiðir höfðu dæmt hana ónýta) og svo á 6. braut á Garðavelli á Akranesi, með dræver (par-4).

Hvaða nesti ertu yfirleitt með í pokanum?   Ég er alltaf með vatn og orkudrykk, stundum banana.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?   Uppáhaldsmaturinn minn er lambalæri, uppáhaldsdrykkurinn er íslenskt vatn; ég er alæta á tónlist, þ.e. rólega, fallega tónlist, eitthvað, sem ég get verið að gera eitthvað annað en að hlusta því ég er mikið fyrir að gera margt í einu; uppáhaldskvikmyndin er Braveheart og uppáhaldsbókin er .…að minnsta kosti ekki… bankabókin mín.

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn, nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?   Kvk: Mamma mín og Hildur Kristín dóttir mín.    Kk.: Jón Andri.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín? Ég er með Ping sett og þar af eru 3 blendingar, sem ég elska út af lífinu, Þegar ég fékk mér blendinga þá breyttist golfið mitt. Þeir eru bæði beinskeittari en löngu járnin og brautatrén voru. Svo er ég með YES pútter í settinu. Uppáhaldskylfan mín er (veit ég má ekki segja þetta! ) dræverinn.

Jón Andri er uppáhaldskylfingur Ragnhildar :-)

Jón Andri er uppáhaldskylfingur Ragnhildar 🙂 Mynd: Golf 1

Hefir þú verið hjá golfkennara?  Þeir eru orðnir margir golfkennararnir sem ég hef verið hjá, Siggi P., John Garner, Staffan, Derrick Moore, Phill Hunter svo einhverjir séu nefndir.

Ertu hjátrúarfull?  Hér áður fyrr var ég með lukkudýr og svo lakkaði ég neglurnar á mér bláar – þá var ég til í slaginn. Í úrtökumótinu fyrir  Evrópumótaröðina lakkaði ég íslenska fánann, við mikinn fögnuð mótherja af ýmsum þjóðabrotum.  Með aldri og þroska hefur maður lært að sá eini sem virkilega er hægt að stóla á….. er maður sjálfur.

Hvert er meginmarkmiðið  í golfinu og í lífinu?   Í golfinu áskil ég mér rétt til breytinga; í lífinu er það að njóta og láta gott af sér leiða.

Hvað finnst þér best við golfið?  Gegnumgangandi hefur golf afar jákvæð áhrif á fólk. Það er ómetanlegt þroskaferli að ganga í gegnum það hversu óþolandi og yndislegt golf getur verið, nánast á sama augnabliki.  Golf er glíma við innri mann og innri öfl, fari maður heim sem sigurvegari í þeim leik er fátt samanburðarhæft.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andlegur (í keppnum)?  Andlegi þátturinn yfirtekur tæknilegu hliðina þegar pressan er í hámarki, við getum alveg gert upp á bak þrátt fyrir að vera í fantaformi og til ,,alls líkleg“ .  Það er líka með ólíkindum hvað hægt er að framkalla þegar kylfingur kemst í ham á golfvellinum.  Við eigum mýmörg dæmi um það af okkar frábæru afrekskylfingum.

Hver er sterkasti þátturinn í spilinu þínu? Löngu höggin mín og þokkalegur stöðugleiki, ég er ekki mikill ,,rokkari.“  Ætli ég hafi ekki fyrst náð stöðugleikanum í kringum 1997-1998.

Ertu með eitthvert gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?     Töpum aldrei gleðinni!…. Á löngum ferli hef ég lært að ótrúlegustu hlutir gerast, stundum þegar síst skyldi.  Ef maður tapar gleðinni, lokast augun fyrir því að eitthvað gott geti gerst.

Spurning frá fyrri kylfing (Guðmundi Arasyni, lækni): Tínirðu rusl upp af golfvelli? – Fólk gengur oft framhjá rusli.

Svar Ragnhildar: Já.

Geturðu komið með spurningu fyrir næsta kylfing:

Spurning Ragnhildar: Hvað hefur þú leikið margar brautir sama daginn ?

Spurningin var lögð fyrir Inga Rúnar Gíslason, golfkennara, en viðtal við hann birtist 17. febrúar í s.l. mánuði.

Svar Inga Rúnars við spurningu Ragnhildar: Við félagarnir spiluðum eitt sitt 93 holur á Garðavelli á Akranesi og vorum tæpa 12 tíma að. Völlurinn var tómur.

Spurning Inga Rúnars fyrir næsta kylfing:  Hefir þú prófað að pútta með Scotty Cameron pútter?