Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 2. 2012 | 21:00

Viðtalið: Stefán Teitur Þórðarson, GL.

Fyrsta viðtal ársins 2012 er við Stefán Teit Þórðarson, 13 ára, í Golfklúbbnum Leyni á Akranesi. Stefán Teitur spilaði á Arionbankamótaröð unglinga  s.l. sumar, 2011, með góðum árangri og komst m.a. í fréttirnar þegar hann fór holu í höggi á 16. braut á Hamarsvelli í Borgarnesi á einu mótanna á mótaröðinni.  Þá var hann 12 ára. Stefán Teitur er ekki bara í golfi, heldur æfir líka fótbolta með ÍA. Ráðið, sem Stefán Teitur gefur öðrum kylfingum í lok viðtalsins er eftirminnilegt og gott; reyndar var allt viðtalið við Stefán Teit gott,  því hér er greinilega á ferðinni flottur framtíðaríþróttamaður. Hér fer viðtalið við Stefán Teit:

Fullt nafn: Stefán Teitur Þórðarson.

Klúbbur: GL

Hvar og hvenær fæddistu?   Ég fæddist á Akranesi, 16. október 1998.

Hvar ertu alinn upp?  Ég fluttist 2 mánaða til Svíþjóðar og var þar í 2 ár – síðan var ég 3 mánuði á Akureyri og svo fluttist ég til Akraness og hef verið hér síðan.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður – spilar einhver í fjölskyldunni golf? Ég á einn  bróður, Þórð, sem er  16 ára og 5 ára systur Katrínu. Pabbi fer stundum í golf og mamma fer í eitt og eitt skipti.

Hvenær byrjaðir þú í golfi? Fyrir 4 árum, þegar ég var 8-9 ára.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi? Allir vinir mínir fóru í golf ég fór með þeim og fannst bara gaman.

Hvað starfar þú?  Ég er  í 8. bekk í Grundarskóla.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?    Skógarvelli.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur? Höggleik, því þar er maður ekki alltaf að keppa við einhvern annan – þá er maður bara bara að hugsa um sjálfan sig.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi? Garðavöllur á Akranesi.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?   Mig hefur alltaf langað til að spila á St. Andrews.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Grafarholtið, því það er flott landslag í honum.

Stefán Teitur Þórðarson, GL. Mynd: Golf 1.

Hvað ertu með í forgjöf?  14,3.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?   79 á Garðavelli og í Borgarnesi (meistaramóti GL og í Íslandsmótinu í holukeppni).

Hvert er lengsta drævið þitt?   245 metrar, held ég í meðvindi á 16. holu á Akranesi, sumarið 2011.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?   Að fara að holu í höggi á 16. braut, á Hamarsvelli, í Borgarnesi.

Hvaða nesti ertu yfirleitt með í pokanum?   Ég er með Corný og brauðsneið.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?  Fótbolta og badminton með ÍA.

Hver er uppáhaldsmatur, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbókin þín?   Uppáhaldsmaturinn minn er kjúklingur í mangósósu; uppáhaldsdrykkurinn er appelsínusafi; uppáhaldstónlist? Ég veit það ekki alveg, segi bara Usher, stundum er það rapp Eminem, það er bara allskonar; uppáhaldskvikmyndin er Bruce Almighty og uppáhaldsbókin er „Rauðu augun“, sem er spennusaga.

Hver er uppáhaldskylfingur nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?   Kvk.:  Valdís Þóra, hún er líka frænka mín  Kk:  Camilo Villegas.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?     Í pokanum hjá mér er dræver, 3-tré, hybrid, 5 járn, 6 járn,  7 járn, 8 járn og 9 járn og 48° og  56° wedge-ar og pútter. Uppáhaldskylfan mín er 6-járnið.

Hefir þú verið hjá golfkennara?  Já, Karli Ómari, hann er golfkennari hér á Akranesi.

Ertu hjátrúarfullur?  Nei.

Hvert er meginmarkmið í golfinu og hvert er meginmarkmiðið í lífinu? Í golfinu er það að komast eins langt og ég get og í lífinu að eiga heilbrigt líf.

Hvað finnst þér best við golfið?  Það eru golfvellirnir sjálfir – umhverfið er svo fallegt.

Hefir þú eitthvað gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?  Það verður alltaf að halda ró sinni, þegar maður verður stressaður.

Að síðustu:

Spurning frá síðasta kylfingi, sem var í viðtali hjá Golf 1 (Þórdísi Geirsdóttur, GK):

Geturðu nefnt 3 kylfinga, sem þig myndi langa til að spila með?

Svar Stefán Teits:  Camilo Villegas, Phil Mickelson og  Birgi Leif Hafþórsson.

Geturðu komið með spurningu fyrir næsta kylfing? 

Spurning Stefán Teits fyrir næsta kylfing:   Hvaða golfmóti langar þig næst til að spila á?