Stefanía Kristín Valgeirsdóttir, GA. Mynd: Í einkaeigu.
Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 27. 2012 | 20:00

Viðtalið: Stefanía Kristín Valgeirsdóttir, GA

Viðtalið í kvöld er við púttmeistara Golfklúbbs Akureyrar 2012:

Fullt nafn:  Stefanía Kristín Valgeirsdóttir.

Klúbbur: Golfklúbbur Akureyrar.

Hvar og hvenær fæddistu?  Ég fæddist á Siglufirði þann 4. júlí 1992.

Hvar ertu alin upp?  Ég er alin upp á Siglufirði þar til ég varð fimm ára en þá fluttum við til Akureyrar.

Hverjar eru fjölskylduaðstæður og spilar einhver í fjölskyldunni golf?  Ég bý með foreldrum mínum og tveim yngri systkinum sem eru tólf og sjö ára. Öll fjölskyldan spilar golf á sumrin.

Stefanía Kristín Valgeirsdóttir, GA. Mynd: Í einkaeigu.

Hvenær byrjaðir þú í golfi?  Ég byrjaði á því að fara á sumarnámskeið þegar ég var ellefu ára. Mér fannst það svo gaman að ég fór á annað námskeið þegar ég var tólf ára. Veturinn eftir byrjaði ég að mæta á æfingar inni.

Hvað varð til þess að þú byrjaðir í golfi?  Ég var ekkert svakalega hrifin af íþróttum yfir höfuð og var mamma búin að reyna að fá mig til að æfa eitthvað, en mér líkaði það aldrei. Þá datt pabba í hug að senda mig á golfnámskeið. Mér fannst það svo gaman að ég byrjaði að æfa og hef verið að æfa það síðan.

Hvað starfar þú?  Þar sem ég er að klára MA núna í vor er ég í hlutastarfi í Ak-Inn á Akureyri. Ég reikna með að vinna þar líka í sumar, þetta er skyndibitastaður svo ég þarf ekki að útskýra nánar hvað ég geri þarna.

Hvort líkar þér betur við skógar- eða strandvelli?  Mér líkar betur við skógarvelli. Þó að það sé hundleiðinlegt að slá inní skóginn, þá finnst mér þeir fallegri en strandvellirnir.

Hvort líkar þér betur holukeppni eða höggleikur?  Mér finnst jafn skemmtilegt að spila bæði höggleik og holukeppni, en ef ég ætti að velja þá myndi ég velja holukeppni.

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir á Íslandi?   Af þeim sem ég hef spilað þá finnst mér Vestmannaeyjavöllur alveg frábær.

Vestmannaeyjavöllur er í uppáhaldi hjá Stefaníu af íslenskum golfvöllum. Mynd: eyjafrettir.is

Hver er uppáhaldsgolfvöllur/vellir hvar sem er í heiminum?  Parador de Golf á Spáni.

Fyrsta brautin á Parador de Golf – uppáhaldsgolfvelli Stefaníu hvar sem er í heiminum.

Hver er sérstæðasti golfvöllur sem þú hefir spilað á og af hverju?  Ekkjufellsvöllur á Egilsstöðum. Hann hefur svo mikið landslag. Er fallegur og mjög krefjandi.

Ekkjufellsvöllur í Fljótsdalshéraði er sérstæðasti völlur sem Stefanía hefir spilað á.

Hvað ertu með í forgjöf?   Í dag er ég með 8,7 en ég reikna með að það breytist í sumar.

Hvert er lægsta skorið þitt í golfi og hvar/á hvaða velli náðir þú því?    Lægsta skorið sem ég hef náð er 74 eða tvo yfir pari á Hólmsvelli, GS.

Hvert er lengsta drævið þitt?   Ég held að lengsta drævið mitt sé um 260 metrar. Annars á ég eftir að sjá hvað ég get slegið langt með nýja drævernum mínum.

Hvert er helsta afrekið þitt til dagsins í dag í golfinu?   Árið 2010 varð ég Norðurlandsmeistari stúlkna 17-18 ára.

Hefir þú farið holu í höggi?   Nei

Hvaða nesti ertu með í pokanum?   Ég tek alltaf með mér banana. Annars er það mismunandi, oftast tek ég með mér samloku með einhverju góðu og hollu á milli, epli, eða bara það sem ég finn sniðugt í eldhúsinu heima áður en ég legg í hann. Ég hef alltaf með mér vatn í brúsa, ég drekk aldrei orkudrykki, þó að þeir eigi að vera mjög góðir þá finnst mér bara íslenska vatnið lang best.

Hefir þú tekið þátt í öðrum íþróttum?   Ég var að æfa ballett frá því að ég var sex ára og þangað til ég var níu ára. Ég hefði líklegast haldið því áfram ef ballettkennarinn hefði ekki flutt í burtu. Svo var ég mikið að dansa samkvæmisdansa frá því að ég var í tíunda bekk og þangað til í öðrum bekk í menntaskóla. En þá ákvað ég að einbeita mér meira að golfinu.

Stefanía Kristín Valgeirsdóttir, GA. Mynd: Í einkaeigu.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn, uppáhaldsdrykkur, uppáhaldstónlist, uppáhaldskvikmynd og uppáhaldsbók?   Allur matur nema hnetur og paprika, íslenskt vatn, allt mögulegt, Lion King og ég er ekki ennþá búin að velja mér uppáhaldsbók

Hver er uppáhaldskylfingurinn þinn nefndu 1 kvenkylfing og 1 karlkylfing?    Karin Sjödin og Bubba Watson.

Hvert er draumahollið?  Draumahollið væri Tiger Woods,  Phil Mickelson og Bill Murray.

Hvað er í pokanum hjá þér og hver er uppáhaldskylfan þín?   Í pokanum mínum er Callaway Big Bertha Diablo járnasett, Cleveland 52° og 58°, Ping G2 þrjú tré, Callaway Fusion 20° hálfviti, Callaway Diablo Octane Black 10,5° driver og Ram Zebra pútter. Pútterinn og driverinn eru í uppáhaldi hjá mér, ég held samt meira uppá pútterinn því ég er búin að eiga hann síðan ég byrjaði.

Hefir þú verið hjá golfkennara?  Já, ég hef verið í kennslu síðan ég var þrettán ára, fyrst hjá Árna Jónssyni, þá David Barnwell og núna er ég hjá Ólafi Gylfasyni.

Ertu hjátrúarfull?   Ég var einu sinni hjátrúarfull, en er það ekki lengur. Ég trúi hins vegar sterkt á Karma.

Hvert er meginmarkmið í golfinu og í lífinu?  Meginmarkmið mitt í golfinu er að komast á LPGA, í lífinu vil ég bara vera hamingjusöm og hafa ánægju af hverjum degi.

Stefanía Kristín Valgeirsdóttir að pútta. Mynd: Í einkaeigu.

Hvað finnst þér best við golfið?    Það besta er að horfa á eftir boltanum fljúga, rúlla eða gera nákvæmlega það sem þú ætlaðir þér. Tilfinningin við það að framkvæma frábært högg er það sem mér finnst það besta við þessa íþrótt.

Hversu há prósenta af golfinu hjá þér er andleg (í keppnum)?  Ef ég er stressuð eða er að hugsa um eitthvað sem tengist golfinu ekki neitt, þá get ég ekki neitt. Um leið og ég er komin í gott skap og fer að einbeita mér að leiknum þá fer allt að ganga upp. Ég myndi segja að andlegi hlutinn sé um 90% eða meira. Því að ef þú ert ekki með hugann við það sem þú ert að gera þá skilar æfingin sér ekki.

Ertu með gott ráð sem þú getur gefið kylfingum?     Ekki gleyma kurteisinni og tillitsseminni úti á velli, hún skilar sér margfalt til baka.   Ef illa gengur ekki reiðast sjálfum þér, rifjaðu upp öll góðu höggin sem þú hefur slegið og öll púttin sem hafa dottið. Komdu þér í gott skap með góðum minningum og vertu ákveðinn.

Spurning frá síðasta kylfingi, sem var í viðtali hjá Golf 1 (Fannari Inga Steingrímssyni): Hvaða golfkúlu notar þú?

Svar Stefaníu Kristínar: Ég nota Titleist ProV1 kúlur og Callaway TOUR i(s)

Geturðu komið með spurningu fyrir næsta kylfing?

Spurning Stefaníu Kristínar fyrir næsta kylfing: Hverjar eru vandræðalegustu aðstæðurnar sem þú hefur lent í á golfvellinum?